Sumarólympíuleikarnir 1964
18. sumarólympíuleikarnir | |
Bær: | Tókýó, Japan |
Þátttökulönd: | 93 |
Þátttakendur: | 5.137 (4.457 karlar, 680 konur) |
Keppnir: | 163 í 19 greinum |
Hófust: | 10. október 1964 |
Lauk: | 24. október 1964 |
Settir af: | Hirohito keisara |
Íslenskur fánaberi: | Valbjörn Þorláksson |
Sumarólympíuleikarnir 1964 voru haldnir í Tókýó í Japan frá 10. október til 24. október. Leikarnir voru í fyrsta sinn haldnir í Asíu. Með hjálp gervihnattatækni var leikunum sjónvarpað bæði víðar og meira mæli en nokkru sinni fyrr.
Aðdragandi og skipulagning
[breyta | breyta frumkóða]Tókýó átti upphaflega að halda ólympíuleikana 1940, en var svipt þeim vegna styrjaldar Japans og Kína. Borgin falaðist einnig eftir að halda leikana 1960, en fékk ekki. Á þingi Alþjóðaólympíunefndarinnar vorið 1959 hlaut Tókýó hins vegar yfirburðakosningu sem gestgjafi fimm árum síðar. Detroit, Vínarborg og Brussel sóttust einnig eftir hnossinu.
Miklu var kostað til vegna undirbúnings leikanna og fjöldi nýrra mannvirkja reistur. Mikil áhersla var lögð á að hátækni við skipulagninguna, s.s. varðandi sjónvarpsútsendingar. Þá var ljósmyndatækni beitt til að skera úr um sigurvegara í kappgreinum og tölvustýrðar klukkur notaðar við tímatökur. Markmiðið var ekki hvað síst að sýna hversu framarlega Japan stæði á tæknisviðinu.
Ungur íþróttamaður tendraði Ólympíueldinn við setningarathöfnina. Hann var fæddur í Hiroshima þann 6. ágúst 1945, sama dag og kjarnorkusprengju var varpað á borgina.
Suður-Afríku var neitað um keppnisrétt vegna kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar. Norður-Kórea og Indónesía ákváðu að sniðganga leikana til að mótmæla þátttöku Ísraels og Tævan.
Keppnisgreinar
[breyta | breyta frumkóða]Keppt var í 163 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.
|
|
|
Einstakir afreksmenn
[breyta | breyta frumkóða]Bandaríkin hlutu flest gullverðlaun, en Sovétmenn næstflest á leikunum. Gestgjafarnir komu svo í þriðja sæti.
Bandaríkjamaðurinn Bob Hayes sigraði í 100 metra hlaupi á nýjum heimsmetstíma, 10,06 sekúndum. Hann varð síðar kunnur ruðningskappi með Dallas Cowboys.
Abebe Bikila frá Eþíópíu varði gullverðlaun sín frá Ólympíuleikunum í Róm og varð þannig fyrstur allra til að sigra tvívegis í Maraþonhlaupi á Ólympíuleikum.
Sovésku systurnar Irina og Tamara Press unnu báðar til gullverðlauna, aðra leikana í röð. Irina sigraði í tugþraut en Tamara í spjótkasti og kringlukasti.
Haraldur krónprins Norðmanna tók þátt í siglingakeppni leikanna og var fánaberi norska liðsins við setningarathöfnina.
Tekin var upp keppni í blaki á leikunum, en greinin naut mikilla vinsælda í Japan. Talið er að sigur japanska kvennaliðsins í úrslitaleiknum hafi verið sá íþróttaviðburður leikanna sem flestir heimamenn fylgdust með í sjónvarpi.
Bandaríkjamaðurinn Joe Frazier hreppti gullverðlaunin í þungavigt í hnefaleikum. Hann varð síðar heimsmeistari í flokki atvinnumanna.
Fimleikakeppni kvenna snerist upp í einvígi Larissu Latyninu frá Sovétríkjunum og Veru Cáslavská fræa Tékkóslóvakíu, sem báðar eru meðal sigursælustu fimleikakvenna sögunnar.
Bandaríska liðið hafði lítið fyrir að vinna körfuknattleikskeppni leikanna. Í liði þeirra var Bill Bradley, sem síðar gerðist stjórnmálamaður og sóttist eftir að verða fulltrúi Demókrata í forsetakosningunum 2000.
Þátttaka Íslendinga á leikunum
[breyta | breyta frumkóða]Vegna mikils ferðakostnaðar treystu Íslendingar sér ekki til að senda nema fjóra íþróttamenn á leikana. Tvo sundmenn og tvo keppendur í frjálsum íþróttum.
Guðmundur Gíslason varð 22. Í 400 metra fjórsundi á nýju Íslandsmeti. Sundkonan Hrafnhildur Guðmundsdóttir varð hins vegar fyrir því óláni að fingurbrotna í fyrstu grein sinni.
Jón Þ. Ólafsson keppti í hástökki á leikunum og Valbjörn Þorláksson í tugþraut. Hafnaði Valbjörn í tólfta sæti í tugþrautarkeppninni.
Íslenska knattspyrnulandslíðið tók þátt í forkeppni Ólympíuleikanna og mætti þar Englendingum í tveimur leikjum sem samtals töpuðust 10:0. Var þó um áhugamannalandslið Englands að ræða.
Verðlaunaskipting eftir löndum
[breyta | breyta frumkóða]Nr. | Land | Gull | Silfur | Brons | Samtals |
---|---|---|---|---|---|
1 | Bandaríkin | 36 | 26 | 28 | 90 |
2 | Sovétríkin | 30 | 31 | 35 | 96 |
3 | Japan | 16 | 5 | 8 | 29 |
4 | Þýskaland | 10 | 22 | 18 | 50 |
5 | Ítalía | 10 | 10 | 7 | 27 |
6 | Ungverjaland | 10 | 7 | 5 | 22 |
7 | Pólland | 7 | 6 | 10 | 23 |
8 | Ástralía | 6 | 2 | 10 | 18 |
9 | Tékkóslóvakía | 5 | 6 | 3 | 14 |
10 | Bretland | 4 | 12 | 2 | 18 |
11 | Búlgaría | 3 | 5 | 2 | 10 |
12 | Finnland | 3 | 0 | 2 | 5 |
12 | Nýja Sjáland | 3 | 0 | 2 | 5 |
14 | Rúmenía | 2 | 4 | 6 | 12 |
15 | Holland | 2 | 4 | 4 | 10 |
16 | Tyrkland | 2 | 3 | 1 | 6 |
17 | Svíþjóð | 2 | 2 | 4 | 8 |
18 | Danmörk | 2 | 1 | 3 | 6 |
19 | Júgóslavía | 2 | 1 | 2 | 5 |
20 | Belgía | 2 | 0 | 1 | 3 |
21 | Frakkland | 1 | 8 | 6 | 15 |
22 | Kanada | 1 | 2 | 1 | 4 |
Sviss | 1 | 2 | 1 | 4 | |
24 | Bahamaeyjar | 1 | 0 | 0 | 1 |
Eþíópía | 1 | 0 | 0 | 1 | |
Indland | 1 | 0 | 0 | 1 | |
27 | Suður-Kórea | 0 | 2 | 1 | 3 |
28 | Trínidad og Tóbagó | 0 | 1 | 2 | 3 |
29 | Túnis | 0 | 1 | 1 | 2 |
30 | Argentína | 0 | 1 | 0 | 1 |
Kúba | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Pakistan | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Filippseyjar | 0 | 1 | 0 | 1 | |
34 | Íran | 0 | 0 | 2 | 2 |
35 | Brasilía | 0 | 0 | 1 | 1 |
Ghana | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Írland | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Kenýa | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Mexíkó | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Nígería | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Úrúgvæ | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Alls | 163 | 167 | 174 | 504 |