Rojava
Rojava Rojavaya Kurdistanê | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Höfuðborg | Qamishli |
Opinbert tungumál | Kúrdíska, arabíska og fornsýrlenska |
Stjórnarfar | Lýðræðislegt fylkjasamband
|
Forseti Forseti |
Hediya Yousef Mansur Selum |
''De facto'' Sjálfstjórnarsvæði | |
• Lýst yfir sjálfstjórn á landsvæðinu og stofnskrá Rojava tekin í gildi | Janúar 2014 |
• Lýst yfir stofnun fylkjasambands | 17. Mars 2016 |
Flatarmál • Samtals |
50,000 km² |
Mannfjöldi • Samtals (2018) • Þéttleiki byggðar |
≈2,000,000 (áætlað) ≈40/km² |
Gjaldmiðill | Sýrlenskt pund |
Tímabelti | UTC+2 |
Lýðræðislega fylkjasambandið í Norður Sýrlandi (Kúrdíska: Rojavaya Kurdistanê) betur þekkt sem Fylkjasambandið Rojava er de facto sjálfstjórnarsvæði í Norður og Austurhluta Sýrlands sem starfar útfrá hugmyndum um lýðræðislegt fylkjasamband. Fylkjasambandið Rojava skiptist í 3 kantónur: Jazira-hérað (Kúrdíska: cizîrê), Efrat-hérað (Kúrdíska: Herêma Firatê), áður þekkt sem Kobane-hérað í Norður-Sýrlandi og Afrín-hérað (Kúrdíska: efrîn) Í Norð-Vesturhluta landsins. Ásamt kantónunum þrem hafa fulltrúar svæðisbundinna ráða í Raqqa, Manbij, Tabqa og Deir ez-Zor tekið þátt í starfi Fylkjasambandsins.
Landafræði
[breyta | breyta frumkóða]Kúrdistan er lauslega skilgreint svæði í fjallahéröðum Tyrklands, Írans, Íraks og Sýrlands. Rætur kúrdísku þjóðarinnar má rekja til ólíkra þjóðflokka í fjallahéröðum norð-austur af Mesapótamíu á 7. öld sem lutu stjórn Býsansríkis og Persaveldis. Heimkynni Kúrda tilheyrðu Ottómanveldinu fyrir fyrri heimsstyrjöldina og að stríðinu loknu stóð til að gera ráð fyrir kúrdísku ríki í Mið-Austurlöndum. Í lokadrögum Versalasamninganna er Stór-Kúrdistan þó skipt milli fjögurra landa. Vesturhluti Kúrdistans lendir innan landamæra Sýrlands og dregur Rojava nafn sitt af kúrdíska orðinu fyrir vestur. Sýrlenskir Kúrdar eru í meirihluta víða í norðanverðu landinu og frá og með þriðja áratugi 20. aldar hafa þeir verið stærsta þjóðarbrot innan Sýrlands að frátöldum Aröbum. Fylkasambandið Rojava samanstendur af þrem sjálfstjórnarhéröðum í Norður og norð-vesturhluta Sýrlands. Jazira-hérað og Efrat-hérað mynda landfræðilega heild, Afrin-hérað liggur vestar í landinu og á ekki landamæri við hin fylki sambandsins. Landsvæðið sem fylkjasambandið fer með yfirráð yfir er þó nokkuð breytilegt sökum átaka á svæðinu.
Stofnun
[breyta | breyta frumkóða]Aðdraganda stofnunar fylkjasambandsins Rojava í Norður-Sýrlandi má rekja aftur til stofnunar stjórnmálaflokksins PYD, Lýðræðishreyfingu Sýrlands árið 2003, sem skipulagður var í kringum hugmyndir Abdullah Öcalan um lýðræðislega sjálfstjórn samfélaga. Árið 2011 var lýðræðishreyfingin TEV-DEM stofnuð og tóku hreyfingarnar tvær höndum saman við upphaf arabíska vorsins í Sýrlandi með það að markmiði að leggja grunn að sjálfstjórn Rojava-svæðisins. Framtak þessara hreyfinga hefur verið kallað Rojava-verkefnið. Árið 2012 tóku varnarsveitir Kúrda í Rojava, YPG og YPJ, völd yfir stærsta hluta landsvæðisins sem tilheyrir nú Rojava. Í kjölfar þess dró stjórnarher Assads sig í hlé á þessu tiltekna svæði sem færði PYD-flokknum aukið tækifæri til þess að leggja grunn að nýrri samfélagsskipan. Sama ár var ráðgjafaþing Vestur-Kúrdistan, MBRK, sett á laggirnar. Í mars 2016 hittust fulltrúar frá kantónunum þrem: Efrat, Jazira og Afrin til þess að tilkynna formlega um stofnun fylkjasambands undir þeim ákvæðum sem finna má í stofnskrá sambandsins.
Stjórnarskrá
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt stjórnarskrá Rojava, samanstanda hin lýðræðislegu sjálfstjórnarfylki af þremur kantónum: Afrin-héraði, Jazirah-héraði og Kobane-héraði. Stjórnkerfið lýsir sér í tengslaneti sjálfstæðra eininga sem hafa fullt sjálfsforræði og ræða eigin mál á opnum íbúafundum, og skal kantónunum vera stjórnað út frá hugmyndum um valddreifingu, grasrótarlýðræði og fjölhyggju. Í stjórnarskránni er kveðið á um bandalag Kúrda, Araba, Assýrumanna, Kaldeumanna, Túrkmena, Armena og Tsjetsjena á landsvæðinu. Sambúð þeirra ólíku hópa sem svæðið byggja á að vera friðsamleg og tryggja rétt allra íbúa til þess að iðka menningu, trú og móðurmál sitt innan fylkjasambandsins. Fylkjasambandið miðar ekki að því að stofna ríki sem er að öllu aðskilið frá sýrlenska ríkinu, heldur sjálfstjórnarsvæði innan Sýrlands. Samkvæmt stofnskránni er hlutverk Rojava-verkefnisins einnig að beina Sýrlandi í átt frelsis og lýðræðis að stríðslokum. Hver kantóna innan sambandsins fer með nokkuð mikla sjálfstjórn og tekur stofnskrá Rojava afstöðu gegn miðstýringu í stjórnkerfinu og leggur frekar áherslu á grasrótarlýðræði þar sem vald er í höndum fólksins.
Lýðræðislegt Fylkjasamband
[breyta | breyta frumkóða]Abdullah Öcalan, stofnandi Kúrdíska verkamannaflokksins í Tyrklandi, er fremsti kenningasmiður hugmyndarinnar um lýðræðislegt fylkjasamband Kúrda. Samkvæmt Öcalan felst lýðræðisleg sjálfstjórn í því þegar almúginn skipuleggur sig í sjálfstæðar grasrótarhreyfingar sem byggja meðal annars á hugmyndum um láréttar samfélagslegar formgerðir, frekar en stigveldi. Lýðræðislegt fylkjasamband (enska: democratic confederalism) felst í því að þessar hreyfingar mynda tengslanet þvert á landsvæði í formi fylkjasambands sem starfar út frá grasrótarlýðræði og þeirri hugmynd að samfélög stjórni sér sjálf í umboði fólksins. Markmið Rojava-verkefnisins er að stofna fylkjasamband að fyrirmynd hugmynda Abdullah Öcalan, og er því ekki um eiginlegt þjóðríki að ræða. Þrátt fyrir að Kúrdar séu stærsti þjóðernishópurinn innan fylkjasambandsins sinnir stofnskrá Rojava því hlutverki að sporna gegn yfirráðum Kúrda á svæðinu, enda kveður hún á um jafnan rétt allra þjóðarbrota til þess að iðka sína trú, viðhalda móðurmáli sínu og menningu. Þannig er hugmyndin um lýðræðislegt bandalag sett fram sem andsvar við þjóðríkinu og er markmið þess að stofna til samfélags þar sem unnið er á flötum grunni og félagslegu stigveldi er hafnað.
Fulltrúaráð
[breyta | breyta frumkóða]Minnsta stjórnfarslega eining stjórnkerfisins í Rojava eru kommúnur sem samanstanda af 30-400+ heimilum í þorpi eða borg. Þessar kommúnur hittast á tveggja vikna fresti og kjósa íbúaráð sem fer í þeirra umboði með mál kommúnunnar á fundi fulltrúaráða hverfa og/eða þorpa (enska: People’s council). Þriðja stig stjórnskipunar Rojava eru kosnir fulltrúar úr fulltrúarráðunum sem mynda héraðsráð (enska: District people’s council), en þar sitja einnig fulltrúar stjórnmálaflokka og félagasamtaka. Að lokum sitja fulltrúar héraðsráðs allra héraða, auk fulltrúa TEV-DEM Í MBRK ráðinu, sem er umfangsmesta stjórnfarslega eining hverrar kantónu. Ráð hverrar kantónu hittist að lokum til þess að ræða þau mál sem koma öllum íbúum Rojava við. Þess má þó geta að ráðið í heild sinni hefur fá tækifæri til þess að koma saman sökum þeirra átaka sem koma í veg fyrir ferðafrelsi milli kantónanna þriggja. Á öllum stigum stjórnkerfisins í Rojava er sérstakt kvennaráð til þess að tryggja að áform stofnskrár Rojava um kynjajafnrétti sé framfylgt.
Átök
[breyta | breyta frumkóða]Frá stofnun fylkjasambandsins Rojava hefur það átt undir högg að sækja frá skæruliðasamtökunum Jabhat al-Nusra og Daesh. Auk þess hefur Erdogan, forseti Tyrklands, ítrekað hótað hernaðaríhlutun á landsvæðið, en það á landamæri við Tyrkland. Tyrknesk stjórnvöld óttast að YPG og YPJ, hersveitir Rojava nái að tengja saman allar kantónur fylkjasambandsins og leggja þar með undir sig meirihluta landamæra Tyrklands við Sýrland. Auk þess telur Tyrklandsstjórn sér stafa ógn af samstarfi PYG-flokksins í Rojava og Kúrdíska verkamannaflokksins, PKK, í Tyrklandi. Varnarsveitirnar YPG og YPJ hafa notið stuðnings bæði frá Bandaríkjunum og Rússlandi, meðal annars með loftárásum á sveitir Daesh á svæðinu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- "Charter of the Social Contract- Self-Rule in Rojava" Peace in Kurdistan. Skoðað þann 26. Febrúar 2019
- Að lifa og deyja fyrir betri heimStundin. Skoðað þann 25. Febrúar 2019
- Who are the Kurds?BBC news. 21. Október 2014. Sótt 26. Febrúar 2019
- Eliza Egert og Tom Anderson. Struggles for autonomy in kurdistan. 2016. Corporate watch
- Aylin Ünver The Arab Spring, its Effects on the Kurds, and the Approaches of Turkey, Iran, Syria and Iraq on the Kurdish Issue. Geymt 26 desember 2018 í Wayback Machine 2012. The Middle East Review of International Affairs.
- Jordi Tejel. Syria's Kurds - History, Politics and Society. 2009. Oxon, England: Routledge.
- Ghadi Sary. Kurdish Self-governance in Syria: Survival and Ambition. The royal institute of international affairs.Geymt 9 október 2017 í Wayback Machine Sótt 23. Febrúar 2019tt 23. Febrúar 2019