Fara í innihald

Nürnberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nürnberg
Skjaldarmerki Nürnberg
Staðsetning Nürnberg
SambandslandBæjaraland
Flatarmál
 • Samtals186,46 km2
Hæð yfir sjávarmáli
309 m
Mannfjöldi
 (2013)
 • Samtals498.876
 • Þéttleiki2.676/km2
Vefsíðawww.nuernberg.de

Nürnberg (eða Núrnberg) er næststærsta borg Bæjaralands í Þýskalandi á eftir München. Hún er við austurjaðar hins gamla Frankalands (Franken) og er enn menningarlegur og efnahagslegur höfuðstaður þess héraðs. Íbúar eru rúmlega hálf milljón, en á stórborgarsvæðinu búa rúmlega milljón manns. Nürnberg er helst þekkt fyrir Nürnberg-réttarhöldin yfir leiðtogum þriðja ríkisinssíðari heimstyrjöldinni lokinni.

Nürnberg liggur við ána Pegnitz nokkuð miðsvæðis í Bæjaralandi. Þar liggja vegir bókstaflega í allar áttir. Main-Dóná skipaskurðurinn liggur einnig í gegnum borgina. Næstu borgir eru München í suðri (170 km), Würzburg í norðvestri (100 km) og Frankfurt am Main í norðaustri (225 km).

Stóra skjaldarmerkið

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Nürnberg á sér tvö skjaldarmerki. Stóra merkið er örn með mannshöfuð á bláum skildi. Það er þegar til árið 1220 og merkir ríkið sjálft, þar sem Nürnberg var fríborg í ríkinu. Örninn er ríkið, mannshöfuðið keisarinn. Litla merkið er til hálfs svartur örn á gulum fleti og svo rauðhvítar rendur. Örninn er ríkið, rendurnar eru frá 1260.

Kastalavirkið er elsta mannvirki borgarinnar

Borgin hét áður Nurenberch og Norenberc. Merkingin er umdeild, en flestir eru á því að heitið sé dregið af knur eða nörr (breytist í nürn), sem merkir bjarg eða klettur. Nürnberg héti því klettaborg (rétt eins og Nürburg í Eifel þar sem Formúla 1 kappakstrar fara fram).

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Nürnberg 1493

Saga Nürnberg hófst sem kastalavirki með þessu heiti og kemur fyrst við skjöl 1050. Fyrir neðan það myndaðist kirkja og bær. Keisarinn Friðrik I. Barbarossa gerði bæinn að ríkisborg árið 1219, enda lá hann við fjölmarga samgönguvegi og því mjög mikilvægur. Keisararnir Lúðvík hinn bæríski og Karl IV sátu gjarnan í borginni. Árið 1423 lét Sigismundur keisari borgina geyma krúnudjásnin og voru þau geymd þar allt til 1796, er þau voru flutt til Vínarborgar til verndar gegn Napoleon. Allt til þess tíma var Nürnberg hluti af Frankalandi. Borgin var ekki hertekin í 30 ára stríðinu vegna öflugra borgarmúra. En við borgarmörkin stóðu keisaraherinn og Svíar andspænis hvor öðrum í nærri þrjú ár. Frakkar hertóku borgina hins vegar 1796, en yfirgáfu hana aftur skömmu seinna. 1806 var konungsríkið Bæjaraland stofnað og var Nürnberg innlimað í því ríki. Eftir Napoleonstímann varð Nürnberg að mikilli iðnaðarborg. 1835 var fyrsta járnbrautarlest Þýskalands sett upp í borginni og keyrði hún milli Nürnberg og Fürth. Borgin varð fyrir gríðarlegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Nær öll miðborgin eyðilagðist og var Nürnberg næstverst úti í stríðinu (á eftir Dresden). 17. apríl 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina eftir mikla götubardaga. Eftir stríð var réttað yfir æðstu foringja nasista og aðra stríðglæpamenn í borginni. Það voru Nürnberg-réttarhöldin og stóðu þau allt til 1949.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
Jólamarkaðurinn í Nürnberg er einn sá þekktasti í heimi

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er 1. FC Nürnberg, sem var eitt allra besta félagslið í Þýskalandi á þriðja og fjórða áratugnum. Á því tímabili var nánast helmingur liðsins einnig í landsliði Þýskalands. Félagið hefur níu sinnum orðið þýskur meistari (síðast 1968) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2007)

Kvennahandboltaliðið í Nürnberg er margfaldur þýskur meistari (síðast 2008) og bikarmeistari.

Af öðrum íþróttum má nefna íshokkí, körfubolta og hjólreiðar.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Bardentreffen er heiti á hátíð trúbadúra í borginni. Hér er um útitónleika að ræða og fóru þeir fyrst fram 1976. Nær öll miðborgin er undirlögð af tónleikunum, en þeir eru mest sóttu trúbadúratónleikar Þýskalands. Tónlistarmenn eru oft ungir og óreyndir innan um gamalreynda söngvara.
  • Þjóðhátíð Nürnberg fer tvisvar fram á ári, að vori og að hausti. Hér er um úti- og tjaldhátíð að ræða, með leiktæki og bjórsölu.
  • Jólamarkaðurinn í Nürnberg er einn sá þekktasti í Þýskalandi og reyndar víða um heim. Hann fer fram á aðaltorgi borgarinnar í aðventunni og er sóttur heim af 2 milljónum ferðamönnum árlega.

Nürnberg viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
Lárentíusarkirkjan

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
  • Kastalinn í Nürnberg er elsta mannvirki borgarinnar. Hann er reistur á 11. öld og myndaðist borgin í kringum hann. Kastalinn er einkennisbygging borgarinnar.
  • Borgarmúrarnir í Nürnberg eru þeir heillegustu í stórborg í Þýskalandi. Þeir samanstanda af leifum múra og turna víða í borginni.
  • Frúarkirkjan í Nürnberg er skrautlegasta kirkjan í borginni. Hún var reist að tilstuðlan keisarans Karls IV. á 14. öld.
  • Lárentíusarkirkjan í Nürnberg er hæsta kirkjan í borginni og var reist á 13. öld.
  • Sebaldskirkjan í Nürnberg er frá 13. öld. Kór kirkjunnar er eins stór og skipið sjálft, sem gefur kirkjunni ákaflega sérkennilegt útlit.
  • Sjónvarpsturninn í Nürnberg er 292 metra hár. Sökum sérkennilegrar lögunar á kúlunni hefur hann fengið viðurnefnið Eggið í Nürnberg. Turninn er hæsta mannvirki Bæjaralands og þriðji hæsti sjónvarpsturn Þýskalands.