Fara í innihald

Jon Fosse

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jon Fosse
Jon Fosse
Fæddur: 29. september 1959 (1959-09-29) (65 ára)
Haugesund, Rogalandi, Noregi
Starf/staða:Rithöfundur
Þjóðerni:Norskur
Virkur:1983–
Bókmenntastefna:Póstdramatískt leikhús
Frumraun:Raudt, svart (1983)
Þekktasta verk:Namnet, Melancholia I, Melancholia II, Natta syng sine songar, Draum om hausten, Morgon og kveld, Andvake, Eg er vinden, Olavs draumar, Kveldsvævd
Maki/ar:Bjørg Sissel ​(g. 1980; sk. 1992)
Grethe Fatima Syéd (1993–2009)
Anna Fosse (2011–)
Börn:3

Jon Fosse (f. 29. september 1959) er norskur rithöfundur, leikskáld og þýðandi. Hann býr í Grotten, heiðurssetri norska ríkisins fyrir skáld í konungsgarðinum í Ósló. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2023.[1][2]

Fosse hefur skrifað rúmlega sjötíu verk, skáldsögur, frásagnir, ljóð, barnabókmenntir, ritgerðir og leikrit og hafa þau verið þýdd á fleiri en fimmtíu tungumál. Leikrit Fosse hafa verið flutt í öllum ríkjum Evrópu, mest í Þýskalandi og Frakklandi, en einnig í Póllandi, Englandi, Bandaríkjunum, Brasilíu, Ástralíu, Kúbu, Kína, Japan og Malaví. Hann hefur jafnframt þýtt fjölda leikrita og fagurbókmennta á norsku.[3]

Hann hefur hlotið mörg verðlaun fyrir bækur og leikrit sín[4] og gjarnan hefur verið talað um hann sem eitt mikilvægasta leikskáld samtíðarinnar.[5]

Verk Fosse einkennast af póstmódernískum mínimalisma og leikrit hans eru kennd við stefnu póstdramatísks leikhúss.

Á síðari árum hafði Fosse oft verið nefndur sem mögulegur Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum.[6][7] Árið 2010 hlaut hann alþjóðlegu Ibsenverðlaunin og árið 2015 hlaut hann bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Trilogien. Árið 2020 var verkið The Other Name. Septology I-II á langlista og árið 2022 var A New Name. Septology VI-VII á stuttlista alþjóðlegu Booker-verðlaunanna. Síðarnefnda verkið var einnig á lokalista National Book Critic’s Circle Awards og National Book Awards árið 2022.

Jon Fosse fæddist í Haugesund og ólst upp í héraðinu Kvam í Harðangri. Hann flutti síðar til Bergen. Hann útskrifaðist með kandidatsgráðu frá Háskólanum í Bergen árið 1987, þar sem hann nam félagsfræði, heimspeki og bókmenntafræði. Árið 2015 hlaut Fosse heiðursdoktorsgráðu frá Háskólanum í Bergen.[8][9]

Fosse vann sem blaðamaður hjá Gula Tidend frá 1979 til 1983. Árið 1985 var hann ritstjóri hjá blaðinu Militærnekteren. Hann kenndi við Ritlistarakademíuna í Hörðalandi frá 1987 til 1993 og var jafnframt í mörg ár aðalráðgjafi hjá Norska samlaginu. Hann var í nokkur ár ritstjóri hjá tímaritinu Bøk ásamt Jan Kjærstad.

Fosse hefur einnig verið meðlimur i bókmenntaráði norska rithöfundasambandsins, stjórnarmeðlimur hjá norska samlaginu og nýnorsku menningarmiðstöðinni og meðlimur í ritgerðaútgáfu norska menningarráðsins.

Frumraun Fosse í bókmenntum var árið 1983 með skáldsögunni Raudt, svart. Fyrsta leikrit hans, Og aldri skal vi skiljast, var frumsýnt 1994. Fosse hefur verið afar virkur sem skáldsagnahöfundur frá 1983 og leikritaskáld frá 1994 og hefur gefið út fjölda skáldsagna, ljóða, barnabókmennta, ritgerða og leikrita. Skáldsögurnar Morgon og kveld, Trilogien og Septologien eru meðal vinsælustu verka hans, bæði hjá almenningi og meðal gagnrýnenda.[10]

Fyrsta leikrit Fosse, Og aldri skal vi skiljast, var frumsýnt í De Nationale Scene í Bergen árið 1994. Fosse hefur upp frá því samið meira en þrjátíu leikrit sem hafa öll verið uppsett og gefin út á bókum bæði á norsku og ensku. Mörg verkin hafa líka verið gefin út á öðrum tungumálum, alls um fimmtíu. Helstu skáldsögur Fosse hafa líka verið þýddar á rúmlega tuttugu mál, meðal annars ensku, þýsku, frönsku, sænsku og dönsku.

Fosse hefur einnig þýtt eða skrifað útgáfur af fjölda leikrita. Leikrit hans hafa verið sett á svið meira en þúsund sinnum og hann er það norska leikskáld sem hefur verið sett upp næstoftast, á eftir Henrik Ibsen[11] og hann hefur stundum verið kallaður „hinn nýi Henrik Ibsen“.

Í leikritum Fosse hefur drama í hefðbundnum skilningi litla merkingu. Söguþráðurinn er yfirleitt drifinn áfram af innri baráttu persónanna fremur en af utanaðkomandi atburðum. Verk hans eru ljóðræn og hefur þeim verið lýst sem póstdramatísku leikhúsi.[12][13]

Árið 2011 flutti Fosse inn í heiðurssetur norska ríkisins fyrir skáld, Grotten, þar sem hann býr með konu sinni, Önnu, og tveimur börnum þeirra. Anna Fosse er slóvakískur þýðandi, bókmenntafræðingur og germanisti. Hún útskrifaðist með doktorsgráðu í harmleikjum í norrænni samtímaleiklist við Slóvakísku vísindaakademíuna árið 2017 og hefur á seinni árum þýtt mörg höfuðverk norrænnar leiklistar úr norsku, sænsku og dönsku á slóvakísku. Árið 2013 snerist Fosse til kaþólskrar trúar.[14][15]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „The Nobel Prize in Literature 2023“ (bandarísk enska). Sótt 5. október 2023.
  2. „Jon Fosse får Nobelprisen i litteratur“ (norska). Vårt Land. 5. október 2023. Sótt 5. október 2023.
  3. Frank Johnsen/Bergens Tidende: -Eg skriv aldri sjølvbiografisk - Viðtal við Jon Fosse - Aftenposten 4. nóvember 2020.
  4. „Jon Fosse“ (nýnorska). Samlaget. Sótt 18. september 2022.
  5. „Jon Fosse | Nationaltheatret“. www.nationaltheatret.no (norska). Sótt 5. október 2023.
  6. „Forside“ (norskt bókmál). Boktips. Sótt 5. október 2023.
  7. Marie L. Kleve (10. október 2013). „I dag får vi vite om Jon Fosse får Nobelprisen“. dagbladet.no (norska). Sótt 5. október 2023.
  8. „Fire nye æresdoktorer ved Universitetet i Bergen“ (norskt bókmál). Háskólinn í Bergen. 29. maí 2015. Sótt 5. október 2023. „Under doktorpromosjonen høsten 2015 vil det bli utnevnt fire nye æresdoktorer ved Universitetet i Bergen: Jon Fosse, Trond Mohn, Helga Nowotny og Walter F. Mondale.. Et æresdoktorat tildeles uten doktoravhandling eller disputas, av en institusjon som har rett til å gi doktorgrad eller tilsvarende...Med årets utnevnelser har UiB gitt 116 æresdoktorater“
  9. Hilde Kristin Strand (20. febrúar 2015). „Jon Fosse har ikkje vore attende på UiB sidan han var ferdig i 1987“. pahoyden.khrono.no (norskt bókmál). Sótt 5. október 2023. „Jon Fosse tok hovudfag i litteraturvitskap for 28 år sidan. Etter det har han ikkje vore attende til UiB – før i dag. No vert han æresdoktor.“
  10. Jorunn Steensnæs (8. febrúar 2006). „Jon Fosse er nummer fire“ (norskt bókmál). Dagbladet. Sótt 5. október 2023.
  11. „Jon Fosse - «take it or leave it»“. 19. ágúst 2005. Sótt 5. október 2023.
  12. https://www.duo.uio.no/handle/10852/26103
  13. Suzanne Bordemann (26. mars 2012). „«Man må føre menneskeheten ut av fryktens og den tålmodige sløvhetens primitive stadier» – Om den tyskspråklige resepsjonen av Jon Fosses tidlige dramatikk“. 1 (norska). 15. Norsk litteraturvitenskapelig tidsskrift: 46–59. doi:10.18261/ISSN1504-288X-2012-01-04. ISSN 0809-2044. Sótt 5. október 2023. „Både Fosses teater og postdramatiske teateruttrykk utfordrer representasjonsteaterets normer og konvensjoner ved å rette søkelyset mot selve persepsjonsprosessen. Når dramatiske konstituenter dekonstrueres, oppstår gjerne kollisjoner med rådende estetiske normer i teaterkritikken. Jeg skal gi noen eksempler på dette.“
  14. „Jon Fosse måtte slutte å drikke da det sto om livet“. www.aftenposten.no (norskt bókmál). Aftenposten. Sótt 5. október 2023.
  15. Kjetil Østli: Jon Fosse og hans tre identiteter - Portrettintervju i A-magasinet 6. september 2019