Fara í innihald

Afganistan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
افغانستان
Afġānistān
Fáni Afganistan Skjaldarmerki Afganistan
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
لا إله إلا الله محمد رسول الله lā ʾilāha ʾillà l-Lāh, Muḥammadun rasūlu l-Lāh (arabíska)
Það er enginn guð nema Guð; Múhameð er spámaður Guðs
Þjóðsöngur:
دا د باتورانو کور
Dā də bātorāno kor
Staðsetning Afganistan
Höfuðborg Kabúl
Opinbert tungumál Dari og pastú
Stjórnarfar Íslamskt emírsdæmi; klerkaveldi[ath 1]

Æðsti leiðtogi Hibatullah Akhundzada
Forsætisráðherra Hasan Akhund
(starfandi)
Stofnun
 • Durraniveldið 1747 
 • Emírat 1823 
 • Breskt verndarríki 26. maí 1879 
 • Sjálfstæði 19. ágúst 1919 
 • Alþýðulýðveldi 28. apríl 1978 
 • Íslamskt ríki 28. apríl 1992 
 • Íslamskt emírat 7. september 1996 
 • Íslamskt lýðveldi 26. janúar 2004 
 • Íslamskt emírat 15. ágúst 2021 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
40. sæti
652.864 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
37. sæti
32.890.171
48/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 72,911 millj. dala (96. sæti)
 • Á mann 2.024 dalir (169. sæti)
VÞL (2019) 0.511 (169. sæti)
Gjaldmiðill Afgani (AFN)
Tímabelti UTC+4:30
Þjóðarlén .af
Landsnúmer +93
  1. Íslamska emírsdæmið ræður yfir landinu í reynd en nýtur ekki alþjóðlegrar viðurkenningar.

Afganistan (pastúnska/dari: افغانستان, Afġānistān) er landlukt land á mörkum Mið-Asíu og Suður-Asíu og er stundum talið til Mið-Austurlanda þar sem það liggur á írönsku hásléttunni. Afganistan á landamæri að Íran í vestri, Pakistan í suðri og austri, Túrkmenistan, Úsbekistan og Tadsíkistan í norðri og Kína í austasta hluta landsins. Hluti hins umdeilda Kasmírhéraðs, sem Indland og Pakistan gera tilkall til, er við landamæri Afganistan. Landið er yfir 650 þúsund ferkílómetrar að stærð og liggur á tveimur hásléttum sem Hindu Kush-fjallgarðurinn skilur í sundur. Íbúar eru rúmlega 30 milljónir og skiptast í nokkur þjóðarbrot; þau helstu eru Pastúnar, Tadsíkar, Hasarar og Úsbekar. Höfuðborg og stærsta borg landsins er Kabúl.

Saga mannabyggðar í Afganistan nær aftur til miðfornsteinaldar. Landið er staðsett á miðjum Silkiveginum sem tengir Miðausturlönd við aðra hluta Asíu. Sögulega hefur Afganistan verið byggt ólíkum menningarþjóðum á ólíkum tímum og hefur oft verið vettvangur herfara, þar á meðal frá Alexander mikla, Mauryum, Aröbum, Mongólum, Bretum, Sovétmönnum og Bandaríkjunum. Afganistan hefur verið kallað „grafreitur heimsveldanna“ þótt landið hafi raunar oft verið hernumið. Nokkur stórveldi hafa orðið til í Afganistan, þar á meðal Baktría, Kúsjanar, Ebódalar, Samanídar, Saffarídar, Gasnavídar, Guridveldið, Kaljiveldið, Mógúlveldið, Hotakveldið og Durraniveldið.[1]

Nútímaríkið Afganistan á rætur að rekja til Hotakveldisins og Durraniveldisins á 18. og 19. öld. Afganistan varð milliríki í „Spilinu mikla“ milli Breska Indlands og Rússaveldis. Landið hlaut sjálfstæði eftir Þriðja stríð Breta og Afgana 1919, og árið 1926 stofnaði Amanullah Khan konungsríki sem stóð í tæplega hálfa öld. Árið 1973 var konunginum steypt af stóli í herforingjauppreisn og lýðveldi stofnað. Eftir annað valdarán árið 1978 varð landið að sósíalísku alþýðulýðveldi sem átti þátt í að hrinda innrás Sovétmanna í Afganistan af stað. Á 9. áratugnum barðist Sovétherinn og bandamenn hans gegn uppreisnarmönnum sem nefndust mújahiddín eða „heilagir stríðsmenn“. Árið 1996 náði hópur íslamskra bókstafstrúarmanna, Talíbanar, völdum í landinu og komu á alræði sem stóð í fimm ár. Bandaríkin gerðu innrás í landið árið 2001 og hröktu Talíbana frá völdum, en eftir 20 ára stríðsrekstur í landinu drógu Bandaríkjamenn herlið sitt til baka og sömdu við Talíbana um yfirtöku þeirra á ný.

Eftir áratuga óstjórn og stríðsrekstur býr Afganistan við útbreidda fátækt, vannæringu barna og hryðjuverkastarfsemi. Hagkerfi Afganistan er það 96. stærsta í heimi en landið er í neðstu sætum yfir verga landsframleiðslu á mann. Þrátt fyrir að búa yfir ríkulegum náttúruauðlindum er Afganistan eitt af vanþróuðustu löndum heims.

Heiti landsins

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðarheitið Afganar er samkvæmt mörgum fræðimönnum dregið af orðinu Aśvakan eða Assakan sem í sanskrít vísaði til íbúa Hindu Kush til forna[2][3][4][5][6] og merkir bókstaflega „hestamenn“, „hrossabændur“ eða „riddarar“, af rótinni aśva eða aspa „hestur“.[7] Sögulega séð vísaði þjóðarheitið Afghān til Pastúna.[8] Þetta heiti varð Afġān í arabísku og persnesku og kemur fyrst fyrir í landfræðiritinu Hudud al-'Alam frá 10. öld.[9] Viðskeytið „-stan“ er persnesk ending sem merkir „staður“. Nafnið Afganistan merkir því „staður Afgana (Pastúna)“. Heitið var notað á ýmis héruð í Safavídaríkinu og Mógúlveldinu þar sem Afganar bjuggu. Heitið var ekki notað um landið á tíma Durraniveldisins en varð að landaheiti á tímum nýlendustjórnarinnar á 19. öld.

Í stjórnarskrá Afganistan er kveðið á um að orðið „Afganar“ skuli vísa til allra afganskra ríkisborgara.

Segja má að Afganistan sé mitt á milli vesturs og austurs, frá örófi alda hefur fólk ferðast í gegnum landið í ýmsum erindagjörðum, þ.m.t. verslun og þjóðflutningar. Þess vegna er Afganistan ákaflega menningarlega fjölbreytt land og býr þar fjöldi þjóðarbrota. Vegna legu sinnar hefur landið verið talið allmikilvægt og ófáir innrásarherir hafa gert innreið sína í landið. Einnig hafa innlendir höfðingjar á köflum byggt upp mikil veldi. Árið 1747 stofnaði Ahmad Shah Durrani Durrani-keisaradæmið með höfuðborg í Kandahar. Síðar meir var Kabúl gerð að höfuðborg og stór landsvæði töpuðust til nágrannaríkja. Á 19. öld var Afganistan leppríki í pólitísku valdatafli milli Breska heimsveldisins og Rússneska keisaraveldisins. Þann 19. ágúst 1919 varð Afganistan sjálfstætt eftir þriðja stríð sitt við Breta um sjálfstæði.

Afganistan var konungsríki frá sjálfstæði þar til síðasta konungi landsins, Múhameð Zahir Sja, var steypt af stóli árið 1973. Nokkrum árum eftir að lýðveldi var stofnað í landinu tóku kommúnistar völdin og gerðu Afganistan að marxísku alþýðulýðveldi.

Allt frá lokum áttunda áratugarins hefur verið stríð eða stríðsástand í Afganistan. Árið 1979 réðust Sovétríkin inn í landið og þá hófust átök sem áttu eftir að endast í áratug. Á tíunda áratugnum komust Talíbanar til valda, hópur mjög öfgasinnaðra múslima og þar fékk Osama bin Laden griðastað á tímabili. Eftir hryðjuverkin 11. september 2001 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að senda alþjóðlegar öryggissveitir til landsins. Talíbanar voru hraktir frá völdum í innrás Bandaríkjamanna árið 2001 og ný stjórn var sett á fót en stríðsástand ríkti í landinu milli nýju stjórnarinnar og Talíbana næstu tuttugu árin.

Árið 2021 drógu Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið herlið sín frá Afganistan. Í kjölfarið hófu Talíbanar leiftursókn gegn stjórn íslamska lýðveldisins og sigruðu hana með hertöku Kabúl þann 15. ágúst. Talíbanar tóku við stjórn landsins á ný og lýstu yfir stofnun íslamsks emírdæmis í stað lýðveldisins.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Afganistan, sléttlendi og fjalllendi.

Afganistan er á milli Suður- og Mið-Asíu.[10][11][12][13][14] Landsvæðið hefur verið nefnt „krossgötur Asíu“[15] og „hjarta Asíu“.[16] Úrdúskáldið Allama Iqbal skrifaði eitt sinn um Afganistan:

Asía er líkami úr vatni og jörð, og afganska þjóðin er hjarta hennar. Úr ósætti þeirra kemur ósætti Asíu; og úr sáttum þeirra koma sættir Asíu.

Landið er rúmlega 650.000 km² að stærð[17] og er 41. stærsta land heims,[18] örlítið stærra en Frakkland og minna en Mjanmar, og svipað og Texas að stærð. Afganistan er landlukt land, og lengstu landamæri þess er Durandlínan sem liggur að Pakistan í austri og suðri. Indland gerir tilkall til þess að eiga landamæri að Afganistan við Kasmír sem er undir yfirráðum Pakistana.[19] Frá suðvestri á Afganistan landamæri að írönsku héruðunum Sistan og Balúkestan, Suður-Kórasan og Razavi-Kórasan; túrkmensku héruðunum Ahal-héraði, Mary-héraði og Lebap-héraði; úsbekska héraðinu Surxondaryo-héraði; tadsikísku héruðunum Khatlon-héraði og Gorno-Badaksjan; kínverska héraðinu Xinjiang; og pakistönsku héruðunum Gilgit-Baltistan, Khyber Pakhtunkhwa og Balúkistan.[20]

Landfræði Afganistan er fjölbreytt en landið er að mestu fjalllent, með nokkrum óvenjulegum fjallgörðum, hásléttum og árdölum.[21] Stærsti fjallgarðurinn er Hindu Kush, vestasti hluti Himalajafjalla sem teygir sig að austurhluta Tíbet um Pamírfjöll og Karakoramfjöll í norðausturhluta Afganistan. Flestir hæstu tindarnir eru í austurhlutanum, og þar eru frjósamir fjalldalir. Hindu Kush nær að miðvesturhálendinu og skilur milli háslétta í norðri og suðvestri, Turkestan-sléttunnar og Sistan-dældarinnar. Graslendi, hálfeyðimerkur og heitar, vindasamar eyðimerkur, einkenna þessi landsvæði.[22] Á belti milli héraðanna Nurestan og Paktika eru skógar,[23] og í norðausturhlutanum er túndra. Hæsti tindur landsins er Noshaq, 7.492 metrar á hæð.[24] Lægsti punkturinn er við árbakka Amu Darya í Jowzjan-héraði, 258 metrar yfir sjávarmáli.

Þrátt fyrir fjölmargar ár og miðlunarlón eru stórir hlutar landsins þurrir. Sistan-dældin er með þurrustu svæðum jarðar.[25] Helsta áin í Sistan-dældinni er Helmand-á. Áin Amu Darya rennur úr norðurhluta Hindu Kush, en Hari Rud rennur í vestur í átt til Herat, og Arghandab-á frá miðhéruðunum í suður. Sunnan og vestan við Hindu Kush renna margar ár sem koma saman í Indusfljóti,[21] eins og Kabúlá sem rennur í austur og sameinast Indusfljóti í Pakistan.[26] Mikil snjókoma fellur í Hindu Kush og Pamírfjöllum á veturna, og á vorin rennur snjóbráðin í ár, vötn og læki.[27][28] Tveir þriðju hlutar þess vatns sem á upptök sín í Afganistan rennur inn í nágrannalöndin, Íran, Pakistan og Túrkmenistan. Árið 2010 kom fram að afganska ríkið þyrfti yfir 2 milljarða bandaríkjadala til að bæta áveitukerfin svo hægt væri að stýra vatnsflæðinu.[29]

Norðausturhluti Hindu Kush-fjallgarðsins, í Badaksjanhéraði í Afganistan, eiga sér margir jarðskjálftar stað á hverju ári.[30] Þeir geta valdið eyðileggingu og dauða og orsakað skriður og snjóflóð.[31] Síðasti stóri jarðskjálftinn reið yfir árið 1998 og olli 6.000 dauðsföllum í Badaksjan við landamærin að Tadsíkistan.[32] Yfir 150 létust í jarðskjálftum árið 2002 og 11 fórust í jarðskjálfta árið 2010.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Arg (forsetahöllin) í Kabúl, mynduð fyrir fall Kabúl árið 2020.

Eftir að Íslamska lýðveldið Afganistan féll undan sókn Talíbana 2021, lýstu Talíbanar yfir stofnun íslamsks emírats (furstadæmis). Starfsstjórn var skipuð þann 7. september.[33] Þann 8. september 2021 hafði engin önnur ríkisstjórn viðurkennt lögmæti íslamska emíratsins sem ríkisstjórnar Afganistans.[34] Starfandi forsætisráðherra er Hasan Akhund.

Loya jirga (stórþing) er hefðbundið stjórntæki í Afganistan. Þetta er ráðgjafarþing sem oftast var kallað saman meðal Pastúna til að kjósa þjóðhöfðingja, taka upp nýja stjórnarskrá eða útkljá mikilvægar deilur, eins og stríð.[35] Slík þing hafa verið kölluð saman að minnsta kosti síðan 1747,[36] síðast í ágúst 2020.[37][38]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Afganistan er skipt í 34 héruð (wilayah) sem hvert hefur sinn höfuðstað og landstjóra. Héruðin skiptast síðan í um 400 smærri umdæmi sem ná venjulega yfir eina borg eða nokkur þorp. Hvert umdæmi hefur sinn umdæmisstjóra.

Forsætisráðherra Afganistans skipar héraðsstjóra en héraðsstjórar skipa umdæmisstjóra. Héraðsstjórarnir eru fulltrúar miðstjórnarinnar í Kabúl og bera ábyrgð á stjórnsýslu innan héraða sinna. Héraðsráð eru kjörin í beinum almennum kosningum til fjögurra ára[39]. Hlutverk þeirra er að taka þátt í skipulagi og þróun og hafa eftirlit með öðrum héraðsstofnunum.

Samkvæmt 140. grein stjórnarskrárinnar og reglugerð um kosningalög á að kjósa borgarstjóra borganna í frjálsum og beinum kosningum til fjögurra ára í senn. Vegna mikils kostnaðar við framkvæmt kosninga hafa borgarstjóra- og sveitarstjórnarkosningar aldrei verið haldnar. Þess í stað hefur ríkisstjórn landsins skipað borgarstjóra.

Eftirfarandi er listi yfir héruðin 34 í stafrófsröð:

Héruð Afganistan

Stærstu borgir landsins eru Kabúl, Kandahar og Herat. Pastúnar (42%) og Tadsjikar (27%) eru fjölmennustu þjóðarbrotin en Hazara og Úsbekar koma næstir hvorir tveggja með 9%. Pastú og darí eru algengustu tungumálin og eru opinber í landinu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Griffin, Luke (14. janúar 2002). „The Pre-Islamic Period“. Afghanistan Country Study. Illinois Institute of Technology. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. nóvember 2001. Sótt 14. október 2010.
  2. "The name Afghan has evidently been derived from Asvakan, the Assakenoi of Arrian... " (Megasthenes and Arrian, p 180. See also: Alexander's Invasion of India, p 38; J.W. McCrindle).
  3. "Even the name Afghan is Aryan being derived from Asvakayana, an important clan of the Asvakas or horsemen who must have derived this title from their handling of celebrated breeds of horses" (See: Imprints of Indian Thought and Culture abroad, p 124, Vivekananda Kendra Prakashan).
  4. cf: "Their name (Afghan) means "cavalier" being derived from the Sanskrit, Asva, or Asvaka, a horse, and shows that their country must have been noted in ancient times, as it is at the present day, for its superior breed of horses. Asvaka was an important tribe settled north to Kabul river, which offered a gallant resistance but ineffectual resistance to the arms of Alexander "(Ref: Scottish Geographical Magazine, 1999, p 275, Royal Scottish Geographical Society).
  5. "Afghans are Assakani of the Greeks; this word being the Sanskrit Ashvaka meaning 'horsemen' " (Ref: Sva, 1915, p 113, Christopher Molesworth Birdwood).
  6. Cf: "The name represents Sanskrit Asvaka in the sense of a cavalier, and this reappears scarcely modified in the Assakani or Assakeni of the historians of the expedition of Alexander" (Hobson-Jobson: A Glossary of Colloquial Anglo-Indian words and phrases, and of kindred terms, etymological..by Henry Yule, AD Burnell).
  7. Majumdar, Ramesh Chandra (1977) [1952]. Ancient India (Reprinted. útgáfa). Motilal Banarsidass. bls. 99. ISBN 978-8-12080-436-4.
  8. Ch. M. Kieffer (15. desember 1983). Afghan. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. nóvember 2013.
  9. Vogelsang, Willem (2002). The Afghans. Wiley Blackwell. bls. 18. ISBN 0-631-19841-5. Afrit af uppruna á 9. júlí 2019. Sótt 6. júlí 2019.
  10. * „U.S. maps“. Pubs.usgs.gov. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. desember 2013. Sótt 19. maí 2012.
  11. „Composition of macro geographical (continental) regions, geographical sub-regions, and selected economic and other groupings“. UNdata. 26. apríl 2011. Afrit af uppruna á 13. júlí 2011. Sótt 13. júlí 2011.
  12. Afghanistan. Afrit af uppruna á 25. febrúar 2010. Sótt 17. mars 2010.
  13. Tan, Anjelica (18. febrúar 2020). „A new strategy for Central Asia“. TheHill. „, as Afghan President Ashraf Ghani has noted, Afghanistan is itself a Central Asian country.“
  14. Afghanistan | meaning in the Cambridge English Dictionary. Cambridge University. ISBN 9781107619500.
  15. Neelis, Jason (19. nóvember 2010). Early Buddhist Transmission and Trade Networks: Mobility and Exchange Within and Beyond the Northwestern Borderlands of South Asia. BRILL. ISBN 978-9004181595.
  16. „Archived copy“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. ágúst 2020. Sótt 17. júní 2020.
  17. „Land area (sq. km)“. World Development Indicators. World Bank. 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. október 2013. Sótt 13. október 2011.
  18. „CIA Factbook – Area: 41“. CIA. 26. nóvember 1991. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. janúar 2014. Sótt 4. febrúar 2012.
  19. https://www.mha.gov.in/sites/default/files/BMIntro-1011.pdf
  20. Cary Gladstone (2001). Afghanistan Revisited. Nova Publishers. bls. 121. ISBN 978-1-59033-421-8.
  21. 21,0 21,1 Fisher, W. B. (2002). „Afghanistan: Physical and Social Geography“. The Far East and Australasia 2003. Psychology Press. bls. 59–60. ISBN 9781857431339.
  22. Whitehead, Kim (21. október 2014). Afghanistan. Simon and Schuster. ISBN 9781633559899.
  23. „Forests of Afghanistan“ (PDF). cropwatch.unl.edu. Sótt 28. júní 2021.
  24. „Afghanistan“. The World Factbook. cia.gov. Sótt 22. ágúst 2018.
  25. „History of Environmental Change in the Sistan Basin 1976–2005“ (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 7. ágúst 2007. Sótt 20. júlí 2007.
  26. „Afghanistan Rivers Lakes – Afghanistan's Web Site“. www.afghanistans.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. ágúst 2021. Sótt 18. október 2021.
  27. „Snow in Afghanistan: Natural Hazards“. NASA. 3. febrúar 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. desember 2013. Sótt 6. maí 2012.
  28. „Snow may end Afghan drought, but bitter winter looms“. Reuters. 18. janúar 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. desember 2013.
  29. „Afghanistan's woeful water management delights neighbors“. The Christian Science Monitor. 15. júní 2010. Afrit af uppruna á 14. nóvember 2010. Sótt 14. nóvember 2010.
  30. Crone, Anthony J. (apríl 2007). „Earthquakes Pose a Serious Hazard in Afghanistan“ (PDF). US Geological Survey. Fact Sheet FS 2007–3027. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. júlí 2013. Sótt 14. október 2011.
  31. „Earthquake Hazards“. USGS Projects in Afghanistan. US Geological Survey. 1. ágúst 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. október 2011. Sótt 13. október 2011.
  32. 'Seven dead' as earthquake rocks Afghanistan“. BBC News. 19. apríl 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. desember 2013. Sótt 13. október 2011.
  33. „Hardliners get key posts in new Taliban government“. BBC News. 7. september 2021. Sótt 9. september 2021.
  34. „Afghanistan: Taliban increasingly violent against protesters – UN“. BBC News. Sótt 25. nóvember 2021.
  35. „Q&A: What is a loya jirga?“. BBC News. 1. júlí 2002. Afrit af uppruna á 23. maí 2019. Sótt 2. júní 2019.
  36. Barfield 2012, bls. 295.
  37. „Politicians Express Mixed Reactions to Loya Jirga“. TOLO News. 7. ágúst 2020. Afrit af uppruna á 10. ágúst 2020. Sótt 10. ágúst 2020.
  38. „Loya Jirga Approves Release of 400 Taliban Prisoners“. TOLO News. 9. ágúst 2020. Sótt 10. ágúst 2020.
  39. „Explaining Elections, Independent Election Commission of Afghanistan“. Iec.org.af. 9. október 2004. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. ágúst 2010. Sótt 4. febrúar 2012.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.