Regensburg
Regensburg | |
---|---|
Sambandsland | Bæjaraland |
Flatarmál | |
• Samtals | 80,76 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 343 m |
Mannfjöldi (2019) | |
• Samtals | 153.000 |
• Þéttleiki | 1.737/km2 |
Vefsíða | www.regensburg.de |
Regensburg er fimmta stærsta borgin í Bæjaralandi í Þýskalandi með 153 þúsund íbúa (2019) og er vaxandi. Regensburg er helst þekkt fyrir iðnað (bílaverksmiðjur, rafeindatækni), en einnig fyrir Walhalla, þekktustu frægðarhöll Þýskalands. Miðborgin er á heimsminjaskrá UNESCO.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Regensburg hét áður Reginesburg og er dregið af latneska heitinu Castra Regina, sem merkir Herstöð drottningar hjá Rómverjum. Fljótið Regen dregur einnig nafn sitt af þeirri stöð. Til skamms tíma kölluðu Rómverjar borgina einnig Ymbripolis, sem merkir Regnborgin (ymbria = regn, polis = borg). Í beinni þýðingu er það Regensburg á þýsku. [1]
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Regensburg liggur við Dóná í héraðinu Oberpfalz, sem er nokkuð miðsvæðis í Bæjaralandi. Næstu borgir eru Ingolstadt fyrir suðvestan (50 km), Nürnberg fyrir norðvestan (70 km) og München fyrir sunnan (80 km). Borgin stendur við ármót Dónár, Naab og Regen, við nyrsta bug Dónár í Evrópu.
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Regensburg er tveir hvítir lyklar, krosslagðir á rauðum skildi. Lyklarnir vísa til lykla Péturs postula, en hann er verndardýrlingur Regensburg. Lyklarnir koma fyrst fyrir 1395. Rauður og hvítur eru litir borgarinnar.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Borgin á uppruna sinn í rómversku hervirki sem reist var 79 e.Kr. að tilstuðlan Markúsar Árelíusar keisara. Reyndar var keltneskt þorp, að nafni Ratisbona, þar í grennd. Virkið var við norðurlandamæri Rómaríkis og átti að vakta ármótin og Dóná. Rómverjar yfirgáfu staðinn um árið 400 og fluttu þá Bæjarar þangað. Á 13. öld var Regensburg með stærri og auðugri borgum hins heilaga rómverska ríkis vegna verslunar. Á þeim tíma (og á næstu öldum) voru miklar byggingar reistar í borginni. Árið 1542 ákvað borgarráðið að taka siðaskiptum og hafna kaþólskri trú. Það kom þó ekki í veg fyrir að keisararnir héldu ríkisþing í borginni frá og með 1594. Í 30 ára stríðinu hertóku Svíar borgina nokkrum sinnum, en keisaraherinn frelsaði hana jafnharðan. Árið 1803 fór síðasta ríkisþingið fram í borginni og þar var hið heilaga rómverska ríki lagt niður. Í stríðinu gegn Napoleon 1809 settist austurrískur her að í Regensburg, en Napóleon sjálfur lét skjóta á borgina í þrjá daga samfleytt og hertók hana síðan. Í þeim átökum særðist hann og var það eina sárið sem Napóleon hlaut á öllum sínum herstjórnarferli. Í kjölfarið var Regensburg sameinuð Bæjaralandi. Í heimstyrjöldinni síðari var stór hluti borgarinnar eyðilagður í loftárásum, aðallega Messerschmidt flugvélaverksmiðjurnar. Miðborgin slapp hins vegar nær alveg. Í stríðslok hernam bandarískur her borgina. Eftir stríð óx borgin á ný, enda blómlegur iðnaður þar vegna hafnarinnar við Dóná. Árið 2006 var miðborgin tekin á heimsminjaskrá UNESCO.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Maraþonhlaup (og hálfmaraþon) er þreytt sunnudag eftir uppstigningardag.
Í ágúst fer fram þríþraut og einnig hin nátengda aflraunakeppni járnmaðurinn (Ironman Regensburg).
Arberradmarathon er heiti á hjólreiðakeppni sem fram fer í júlí. Þátttakendur eru 6.000 og hjóla 250 km til fjallanna Bayerischer Wald. Þar heitir hæsti tindurinn Arber og þaðan er nafnið dregið.
Vinabæir
[breyta | breyta frumkóða]Regensburg er í vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
|
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1547) Don Juan af Austurríki (sonur Karls V. keisara), hershöfðinginn sem sigraði Tyrki í sjóorrustunni við Lepanto 1571
- Frægustu heiðursborgarar eru Benedikt 16. (fyrrum páfi) og Franz Josef Strauss stjórnmálamaður og forsætisráðherra Bæjaralands til langs tíma.
- Stjörnufræðingurinn Johannes Kepler dó í borginni 1630.
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Walhalla (Valhöll) er þekktasta frægðarhöll Þýskalands. Þar eru fjölmargir Þjóðverjar heiðraðir með brjóstmyndum og minnistöflum.
- Péturskirkjan í Regensburg er dómkirkja og helsta kennileiti borgarinnar.
- Steinbrúin í Regensburg var reist á 12. öld og var eina brúin yfir Dóná í Regensburg í 800 ár.
- Ostentor er gamla borgarhliðið í austri. Það var reist um aldamótin 1300 til varnar borginni. Múrarnir sjálfir eru horfnir í dag. Turninn er fimm hæða hár með tvo minni turna sitt á hvora hlið. Inni í turninum má enn sjá skotraufar og sót af gömlu púðri. Turninn hefur ekkert breyst síðan á miðöldum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland, Duden, 1993, bls. 219.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Regensburg“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.