Fara í innihald

Suðurskautslandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Suðurskautslandið
Samsett gervihnattamynd af Suðurskautslandinu.

Suðurskautsland eða Antarktíka (stundum kallað „Suðurheimskautslandið“) er syðsta heimsálfa jarðarinnar og er suðurpóllinn á henni.[1] Það er á suðurhveli jarðar, að miklu leyti fyrir sunnan suðurheimskautsbaug og er umlukið Suður-Íshafinu. Suðurskautslandið er um það bil 14 milljón ferkílómetrar og því fimmta stærsta heimsálfanflatarmáli á eftir Asíu, Afríku, Norður-Ameríku og Suður-Ameríku.[2] Af flatarmáli Suðurskautslandsins eru 98% undir jökulís, sem er að meðaltali 1,6 kílómetra þykkur.

Að meðaltali er Suðurskautsland kaldasta, þurrasta og vindasamasta heimsálfan og að auki hálendust þeirra allra að meðaltali. Vegna þess hversu úrkoman er lítil annars staðar en við strendurnar, er meginland álfunnar að þeim undanskildum fræðilega séð stærsta eyðimörk í heimi. Ekkert fólk hefur varanlega búsetu á Suðurskautslandinu og þar eru engin ummerki um núverandi eða forsögulegar byggðir manna. Þar lifa aðeins plöntur og dýr sem þola kulda vel, til dæmis mörgæsir, nokkrar tegundir hreifadýra, mosar, fléttur og margar tegundir þörunga.[3][4] Þótt oft sé litið á mörgæsir sem einkennistegund á Suðurskautslandinu, eru aðeins fimm af 17 tegundum mörgæsa sem lifa þar,[5] og aðeins tvær sem halda sig við strönd meginlandsins (hinar þrjár eru við nyrsta oddann, næst Eldlandi).

Þrátt fyrir að rekja megi goðsagnir og getgátur um Terra Australis („landið í suðri“) aftur í fornöld, er almennt viðurkennt að Suðurskautslandið hafi fyrst sést í rússneskum leiðangri árið 1820 sem Mikhail Lazarev og Fabian Gottlieb von Bellingshausen fóru fyrir. John Davis steig mögulega fyrstur manna fæti á Suðurskautslandið, þann 7. febrúar 1821. Hins vegar var heimsálfunni gefinn lítill gaumur fram á 20. öldina vegna óblíðrar veðráttu, skorts á auðlindum og einangrunar. Fyrstu menn sem komust á segulpólinn voru meðlimir Nimrod-leiðangursins 1909, og fyrsti leiðangurinn sem komst á suðurpólinn var norskur leiðangur Roald Amundsen árið 1911.

Sjö ríki hafa gert tilkall til landsvæða á Suðurskautslandinu, en tilkall þeirra er ekki almennt viðurkennt af alþjóðasamfélaginu.[6] Um 30 lönd koma að stjórn Suðurskautslandsins gegnum aðild sína að Suðurskautslandssáttmálanum frá 1959. Samkvæmt honum eru hernaðarumsvif, námavinnsla, kjarnorkusprengingar og geymsla á kjarnorkuúrgangi bönnuð. Helsta starfsemi á Suðurskautslandinu er ferðaþjónusta, fiskveiðar og vísindarannsóknir. Yfir sumarmánuðina dvelja um 5000 manns á hinum ýmsu rannsóknarstöðvum, en aðeins um 1000 eru þar yfir vetrarmánuðina. Þrátt fyrir það hve Suðurskautslandið er afskekkt, hafa athafnir manna mikil áhrif þar í gegnum mengun, ósoneyðingu og loftslagsbreytingar.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Kort af Suðurskautslandinu
Kort sem sýnir helstu örnefni á Suðurskautslandinu og skiptinguna milli Austur-Suðurskautslandsins (til hægri) og Vestur-Suðurskautslandsins (til vinstri).

Suðurskautslandið er syðsta meginland heims. Það liggur á og óreglulega umhverfis suðurpólinn, næstum alveg innan suðurheimskautsbaugs. Suðurskautslandið er umkringt Suður-Íshafinu samkvæmt algengri skilgreiningu, en stundum eru Atlantshafið, Kyrrahafið og Indlandshaf látin ná alveg að strönd þess. Nokkrar ár og vötn eru á Suðurskautslandinu. Lengsta áin er Ónyxá sem rennur í áttina frá sjó í Vönduvatn. Suðurskautslandið er yfir 14 milljón ferkílómetrar að stærð og um 1,3 af stærð Evrópu. Strandlengjan er 17.968 km að lengd og er að mestu þakin ís. Árið 1983 var strandlengjan flokkuð þannig: 44% var umlukin þiljuís, 38% voru ísbrúnir sem hvíldu á steini eða brúnir skriðjökla, og 5% voru bert grjót.[7]

Vötnin við jaðar meginlandsíssins eru aðallega í McMurdo-dölum eða Suðurskautsvinjum.[8] Vostokvatn, sem fannst undir rússnesku Vostokstöðinni, er eitt af stærstu vötnum undir jökli í heimi. Áður var talið að vatnið hefði lokast þar inni fyrir milljónum ára, en nú er talið að það myndist vegna bráðnunar íss sem á sér stað á um 13.000 ára fresti.[9] Á sumrin getur ísinn við jaðar vatnanna bráðnað og myndað tímabundna framrásarskurði. Á Suðurskautslandinu eru bæði saltvötn og ferskvötn.[8]

Suðurskautslandið skiptist í Vestur-Suðurskautsland og Austur-Suðurskautsland við Þverfjöll Suðurskautslandsins, sem ná frá ViktoríulandiWeddell-hafi.[10][11] Íshellan á Suðurskautslandinu, sem er að meðaltali 1,9 km á þykkt, þekur stærstan hluta Suðurskautslandsins,[12] fyrir utan nokkrar vinjar sem eru flestar við ströndina.[13] Margar jökulrastir renna út til þiljuíssins og eiga þátt í myndun hans.[14]

Austur-Suðurskautslandið skiptist í Coats-land, Matthildarland, Enderby-land, Mac. Robertson-land, Wilkes-land og Viktoríuland. Allt þetta landsvæði er á austurhveli jarðar, fyrir utan lítinn hluta. Íshellan á Austur-Suðurskautslandinu þekur nær allt þetta landsvæði.[15] Margar eyjar liggja við Suðurskautslandið. Flestar þeirra eru eldfjallaeyjar og fremur ungar á jarðfræðilegan mælikvarða.[16] Helstu undantekningarnar eru eyjarnar á Kerguelen-grunni, en þær yngstu af þeim mynduðust fyrir 40 milljón árum.[16][17]

photograp of Vinson Massif
Vinsonfjall er hæsti tindur Suðurskautslandsins.

Hæsti fjallgarður Suðurskautslandsins eru Ellsworth-fjöll og hæsti tindurinn er Vinsonfjall, 4892 metrar á hæð.[18] Erebusfjall á Rosseyju er syðsta virka eldfjall heims og gýs um 10 sinnum á dag. Gosaska úr fjallinu hefur fundist 300 km frá gígnum.[19] Það eru ummerki um stór eldfjöll undir íshellunni sem gætu brætt hana ef virkni þeirra myndi aukast.[20] Argusbungan er hæsta ísmyndun á Austur-Suðurskautslandi, 4.091 metrar á hæð. Bungan er einn kaldasti og þurrasti staður jarðar, þar sem frostið getur farið niður í 90° og ársúrkoma er 1-3 cm.[21]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
photograph of the US signing the Antarctic Treaty
Fulltrúi Bandaríkjanna, Herman Phleger, undirritar Suðurskautslandssáttmálann í desember 1959.

Suðurskautslandssáttmálinn og tengdar samþykktir skilgreinir alþjóðlega stöðu Suðurskautslandsins. Þar er Suðurskautslandið skilgreint sem allt land og þiljuís sunnan við 60. gráðu suðlægrar breiddar.[6] Sáttmálinn var í upphafi undirritaður af tólf löndum, þar á meðal Sovétríkjunum, Bretlandi, Argentínu, Chile, Ástralíu og Bandaríkjunum. Frá 1959 hafa önnur 42 lönd gerst aðilar að sáttmálanum (þar á meðal Ísland - frá 2015). Aðildarlönd eiga rétt á þátttöku í ákvarðanatöku ef þau geta sýnt fram á verulegar vísindarannsóknir á Suðurskautslandinu. Árið 2022 voru 29 lönd með slíka ráðgefandi stöðu.[22] Ákvarðanir byggjast á samhljóða samþykki í stað atkvæðagreiðslu. Í sáttmálanum er Suðurskautslandið skilgreint sem verndarsvæði þar sem gildir frelsi til vísindarannsókna og vernd umhverfisins.[23]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir (13.3.2009). „Hver er munurinn á suðurpólnum og Suðurskautslandinu?“. Vísindavefurinn.
  2. Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir (29.8.2003). „Hvers vegna er Suðurskautslandið talið heimsálfa en ekki norðurskautið?“. Vísindavefurinn.
  3. Jón Már Halldórsson (24.6.2005). „Hvernig er dýralíf á Suðurskautslandinu?“. Vísindavefurinn.
  4. Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Gunnar Jónsson (13.9.2005). „Hvaða dýr lifa á Suðurpólnum?“. Vísindavefurinn.
  5. Jón Már Halldórsson (27.2.2003). „Hvers vegna lifa mörgæsir bara á Suðurskautslandinu?“. Vísindavefurinn.
  6. 6,0 6,1 „Antarctica“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. 3. maí 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2022. Sótt 9. maí 2022.
  7. Drewry 1983.
  8. 8,0 8,1 Trewby 2002, bls. 115.
  9. Day 2019, Is all of Antarctica snow-covered?.
  10. Carroll & Lopes 2019, bls. 99.
  11. Ji, Fei; Gao, Jinyao; Li, Fei; Shen, Zhongyan; Zhang, Qiao; Li, Yongdong (2017). „Variations of the effective elastic thickness over the Ross Sea and Transantarctic Mountains and implications for their structure and tectonics“. Tectonophysics. 717: 127–138. Bibcode:2017Tectp.717..127J. doi:10.1016/j.tecto.2017.07.011.
  12. Fretwell, P.; og fleiri (28. febrúar 2013). „Bedmap2: improved ice bed, surface and thickness datasets for Antarctica“ (PDF). The Cryosphere. 7 (1): 390. Bibcode:2013TCry....7..375F. doi:10.5194/tc-7-375-2013. S2CID 13129041. Sótt 6. janúar 2014.
  13. Lucibella, Michael (21. október 2015). „The Lost Dry Valleys of the Polar Plateau“. The Antarctic Sun. United States Antarctic Program. Sótt 16. janúar 2022.
  14. Hallberg, Robert; Sergienko, Olga (2019). „Ice Sheet Dynamics“. Geophysical Fluid Dynamics Laboratory. Sótt 7. febrúar 2021.
  15. Siegert & Florindo 2008, bls. 532.
  16. 16,0 16,1 Quilty, Patrick G. (2007). „Origin and Evolution of the Sub-Antarctic Islands“ (PDF). Papers and Proceedings of the Royal Society of Tasmania. Hobart, Tasmania: University of Tasmania. 141 (1): 35. doi:10.26749/rstpp.141.1.35. ISSN 0080-4703.
  17. Olierook, Hugo K.H.; Jourdan, Fred; Merle, Renaud E.; Timms, Nicholas E.; og fleiri (15. apríl 2016). „Bunbury Basalt: Gondwana breakup products or earliest vestiges of the Kerguelen mantle plume?“. Earth and Planetary Science Letters (enska). 440: 20–32. Bibcode:2016E&PSL.440...20O. doi:10.1016/j.epsl.2016.02.008. ISSN 0012-821X.
  18. "Vinson Massif" Peakbagger.com. Sótt 2011-10-26.
  19. Trewby 2002, bls. 75.
  20. Carroll & Lopes 2019, bls. 38.
  21. Hund 2014, bls. 362–363.
  22. „Parties“. Secretariat of the Antarctic Treaty. Afrit af uppruna á 23. febrúar 2022. Sótt 2. apríl 2022.
  23. Yermakova, Yelena (3. júlí 2021). „Legitimacy of the Antarctic Treaty System: is it time for a reform?“. The Polar Journal. 11 (2): 342–359. doi:10.1080/2154896X.2021.1977048. ISSN 2154-896X. S2CID 239218549.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.