Fara í innihald

Skrælingjaey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ellesmere-eyja merkt með dökkgrænum lit

Skrælingjaey (eða Skrælingjaeyja) er lítil eyja við austurströnd Ellesmere-eyju í Kanada. Þar hafa fundist gripir sem sumir telja að sanni að norrænir menn hafi komið þar fyrstir hvítra manna.

Fornleifafræðingar frá Calgary-háskóla í Kanada voru að störfum á Skrælingjaey á áttunda áratug 20. aldar. Þá fundust þar nokkrir járnnaglar og skipsfjöl úr eik. Tegund eikarinnar sýndi að hér var um tré frá Skandinavíu að ræða. Á Skrælingjaey fundust einnig tunnustafir og ýmsir smáhlutir úr járni,og kopar. Merkasti fundurinn var klæðisbútur sem ofinn var að hætti norrænna manna, en Inúítar klæddust einungis skinnum í þá daga. Auk þessa fannst á eynni útskorin mannsmynd, sem þykir svipa meira til norrænna manna en Inúíta. Norrænir menn bjuggu á Suðvestur-Grænlandi í fimm aldir og fram að þessum fundi hefur nyrsti vitnisburður um ferðir norrænna manna verið svonefndur Kingittorsuaq rúnasteinn sem fannst á 73. breiddargráðu, norðaustur af Upernavik.

Þótt þessir hlutir hafi fundist á Skrælingjaeyju verður ekki fullsannað hvort þeir hafi komist þangað með norrænum mönnum, eða hvort Inúítar hafi flutt þá með sér að sunnan. Fornleifafræðingarnir telja að hvort tveggja hafi getað átt sér stað. Fyrir utan árlegar veiðiferðir norður þangað sem norrænu Grænlendingarnir nefndu Norðursetu er vitað um tvo leiðangra, sem farnir voru norður með austurströnd Grænlands á miðöldum. Í Grænlandsannál er sagt frá því er nokkrir prestar lögðu af stað í kristniboðsferð með ströndinni en ekki er vitað hvað langt þeir komust.

I bókinni Inventio Fortunatae, sem nú er glötuð, er vitnað í leiðangur, sem enskur munkur, Nikulás frá Lynne, fór árið 1360. Markmið hans var að komast til nyrsta hluta Grænlands. Fornleifafræðingar spyrja sjálfa sig hvort honum hafi tekist það og þá velta menn því fyrir sér hvort menn hans hafi verið klæddir járnbrynjum.

Skrælingjar

Norðurseta