Fara í innihald

Skapti Skaptason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skapti Skaptason (1. júlí 1805 - 14. ágúst 1869) var smáskammtalæknir og tómthúsmaður í Reykjavík. Skapti fæddist á Sandi í Kjós en foreldrar hans fluttu þangað frá Seltjarnarnesi þegar bær þeirra eyddist í Básendaflóðinu. Þau fluttu svo til Reykjavíkur og bjuggu í Götuhúsum. og ólst Skapti þar upp. Skapti og fyrri kona hans Guðný bjuggu í Stöðlakoti þar til þau reistu sér bæ um 1840 sem kallaður var Skaptabær en sá bær stóð í Bakarabrekkunni milli Ingólfsstrætis og Skólavörðustígs, sunnan megin. Skapti vann við járnsmíðar, sótti sjóinn og stundaði lækningar og var stundum titlaður aðstoðarmaður landlæknis. Hann naut álits fyrir lækningar eins og sjá má í þessu bréfi sem Jón Hjaltalín læknir skrifar til Jóns Sigurðssonar og birtust í Nýjum Félagsritum árið 1853:

„Mér var sagt í Reykjavík, að Skapti Skaptason léti fólk fyrir austan fjall drekka ölkelduvatn nokkuð frá Ölkelduhálsi fyrir ofan Reykjakot; ég sendi þá boð eptir Skapta, og töluðum við saman um þennan hlut hjá Jósep Skaptasyni, og kom okkur báðum saman um, Skapti talaði bæði greinilega og skynsamlega um þetta efni. Skapti sagði mér, að á Ölkelduhálsi væri ein góð Ölkelda og hefði hann látið ýmsa fyrir austan fjall drekka vatnið úr henni sem læknismeðal; hann kvaðst jafnan hafa látið fólk byrja með lítinn skamt af vatninu í senn, en þá lét hann drekka meira þegar frammí sótti og menn voru farnir að venjast við það. Hann talaði eins greinilega og skilmerkilega um allt, sem þetta áhrærði, svo að báðum okkur læknunum fannst um, hversu nærgætnislega hann skýrði frá ymsum hlutum þetta efni áhrærandi.“ [1]

Seinni kona Skapta var Þórdís Eyjólfsdóttir og lést hún árið 1867 en þá voru þrjú börn hennar og Skapta kornung. Þá kom Guðrún Klængsdóttir sem var syskinabarn við Þórdísi sem ráðskona á heimilið. Skapti dó stuttu seinna og þá fluttist móðir Þórdísar einnig á heimilið. Guðrún var ömmusystir Halldór Laxness og bjó síðar í Melkoti. Melkot og klukka sem þar var er sögusvið og leikmunur í Brekkukotsannál. Klukkan kemur úr búi Skapta Skaptasonar og Þórdísar. Klukkan er núna á Gljúfrasteini.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. J. Hjaltalín, Bréf frá Íslandi, Ný félagsrit - (01.01.1853) bls 12