Fara í innihald

António de Oliveira Salazar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Salazar)
António de Oliveira Salazar
Salazar árið 1940.
Forsætisráðherra Portúgals
Í embætti
5. júlí 1932 – 15. september 1968
ForsetiÓscar Carmona
Francisco Craveiro Lopes
Américo Tomás
ForveriDomingos Oliveira
EftirmaðurMarcelo Caetano
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. apríl 1889
Vimieiro, Santa Comba Dão, Portúgal
Látinn27. júlí 1970 (81 árs) Lissabon, Portúgal
ÞjóðerniPortúgalskur
StjórnmálaflokkurÞjóðernishreyfingin (portúgalska: União Nacional)
TrúarbrögðKaþólskur
HáskóliHáskólinn í Coimbra
StarfHagfræðingur, stjórnmálamaður, kennari
Undirskrift

António de Oliveira Salazar (28. apríl, 188927. júlí, 1970) var forsætisráðherra Portúgals frá 1932 til 1968 og leiðtogi Þjóðernishreyfingarinnar.

Salazar fæddist í þorpinu Santa Comba Dão, stutt frá Coimbra. Faðir hans, sem var veitingastjóri, kostaði hann til háskólanáms. Í fyrstu lagði Salazar fyrir sig guðfræði en sneri sér síðan að hagfræði. Eftir nám gerðist hann árið 1916 prófessor við háskólann í Coimbra. Árið 1926, stuttu eftir valdarán hersins gegn lýðveldisstjórn Portúgals, réð Manuel de Oliveira Gomes da Costa forsætisráðherra Salazar í stöðu fjármálaráðherra og fól honum að koma lagi á mjög bágan efnahag og skuldakreppu landsins. Salazar gegndi embættinu aðeins í nokkra daga en sagði síðan af sér vegna óánægju með spillingu innan portúgölsku ríkisstjórnarinnar.[1][2] Árið 1928 grátbáðu portúgölsk stjórnvöld Salazar um að snúa aftur og taka við fjármálaráðuneytinu. Salazar féllst á að gerast fjármálaráðherra á ný með því skilyrði að honum yrði veitt einræðisvald til þess að reka efnahagsstefnu sína.[1] Salazar varð aftur fjármálaráðherra árið 1928 og varð einnig forsætisráðherra landsins árið 1932. Árið 1933 kynnti hann til sögunnar nýja stjórnarskrá sem gaf honum nánast ótakmörkuð völd og hafði Portúgal þar með stigið sín síðustu skref í áttina að því að verða einræðisríki.

Þegar forseti Portúgals, António de Fragoso Carmona, afhenti Salazar völdin í Portúgal árið 1932 var Salazar studdur af ýmsum hreyfingum í landinu. Eftir fyrri heimsstyrjöldina (þar sem Portúgalar börðust með bandamönnum) reis herinn upp og batt þannig enda á fyrsta lýðveldið. Tveimur árum síðar var Salazar gerður að fjármálaráðherra og náði hann óvenjufljótt tökum á fjármálaóreiðu landsins og landið var rekið með tekjuafgangi í fyrsta skipti í marga áratugi.[2] Það var þessi árangur sem ruddi leið hans til valda þar sem hann var studdur af hernum, konungssinnum, kirkjunni og efri miðstéttinni.

Salazar kynnti Portúgölum Estado Novo (bókstaflega „Nýja ríkið“). Grunnur einræðisstjórnar hans var stöðugleiki þar sem hástéttirnar nutu sín á kostnað hinna fátækari. Þrátt fyrir akademískan bakgrunn sinn var menntun ekki í forgangi hjá Salazar og því var ekki fjárfest í henni. Þrátt fyrir stórtæka leynilögreglu, sem kallaðist PIDE, hélt einræðisstjórn Salazars ekki sama tangarhaldi á þjóðinni og margar aðrar herforingjastjórnir í Evrópu á þessum tíma, líkt og Francisco Franco á Spáni. Helstu áherslumál Nýja ríkisins voru hollusta við þjóðina, yfirburðir fjölskyldunnar, hlýðnisskylda við yfirvöld og tryggð við kaþólsku kirkjuna.[2]

Stjórn Salazars var ávallt talin fasísk, þrátt fyrir að vera það ekki í augum forsætisráðherrans. Sjálfur bannaði Salazar fasistaflokk Portúgals þar sem hann taldi flokkinn of „heiðinn“. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að Salazar virti bæði Mussolini og Hitler.

Meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð reyndi Salazar að sigla á milli skers og báru. Rétt eins og nágranni hans, Franco, tók hann hvorki afstöðu með nasistum né bandamönnum í stríðinu, þrátt fyrir að leyfa bandamönnum afnot af Asóreyjum.[3] Helsta ástæða þess að Portúgal tók ekki afstöðu með nasistum var til að stefna ekki nýlendum landsins í hættu. Auk þess vildi Salazar ekki rifta aldagömlu bandalagi Portúgals við Bretland, sem Salazar taldi grundvöll portúgalskrar utanríkisstefnu.[4] Salazar aðstoðaði hins vegar Öxulveldin, einkum með því að senda þeim wolframstál gegnum Sviss.

Árið 1945 voru nýlendur portúgala Asóreyjar, Madeiraeyjar, Grænhöfðaeyjar, Saó Tóme og Prinsípe, Angóla, portúgalska Gínea og Mósambík í Afríku, Góa, Daman og Diu á Indlandi, Maká í Kína og portúgalska Tímor í Suðaustur-Asíu. Salazar reyndi sem hann gat að halda völdum yfir þessum nýlendum sínum þar sem þær, fremur en nokkuð annað, gerðu landið að heimsveldi. Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar reyndust þessar nýlendur landsins, og þá sérstaklega í Afríku, honum erfiðar. Portúgalski herinn neyddist til að berjast við uppreisnarmenn í nýlendunum auk þess sem mörg vesturlönd fyrirlitu landið fyrir harða nýlendustefnu sína á sama tíma og þau voru sjálf að slaka á sinni stefnu. Undir lok embættistíðar Salazars átti Portúgal í stríðum við þrjár nýlendur sínar og höfðu þessi stríð talsverð neikvæð áhrif á portúgalskan efnahag og lífsgæði.[3]

Efnahagslega var Portúgal staðnað. Salazar byggði efnahag landsins á nýlendum sínum í stað samvinnu við nágrannalönd sín og sá gróði sem sú stefna hans hefði getað haft í för með sér brann upp í sívaxandi umsvifum hersins í þessum löndum er hann reyndi að berja niður uppreisnir heimamanna.

Árið 1968 féll Salazar af stóli - í orðsins fyllstu merkingu og sennilega í kjölfar heilablóðfalls - og forseti landsins, Américo Tomás, neyddist til að setja hann af sem forsætisráðherra og Marcelo Caetano tók við. Salazar lést í Lissabon tveimur árum síðar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Óframfærinn einræðisherra“. Samtíðin. 1. september 1940. bls. 8-10.
  2. 2,0 2,1 2,2 „António de Oliveira Salazar“. Samvinnan. 1. desember 1968. bls. 13-17.
  3. 3,0 3,1 „Ferill Salazars“. Morgunblaðið. 28. september 1968. bls. 15.
  4. Henry J. Taylor (14. september 1944). „Voldugur maður, sem fáir þekkja“. Morgunblaðið. bls. 7.


Fyrirrennari:
Domingos Oliveira
Forsætisráðherra Portúgals
(5. júlí 193215. september 1968)
Eftirmaður:
Marcelo Caetano