Robert Owen
Robert Owen | |
---|---|
Fæddur | 14. maí 1771 |
Dáinn | 17. nóvember 1858 (87 ára) Newtown, Montgomeryshire, Wales, Bretlandi |
Þjóðerni | Velskur |
Störf | Vefnaðarvöruframleiðandi |
Maki | Ann Caroline Dale |
Robert Owen (14. maí 1771 – 17. nóvember 1858) var velskur vefnaðarvöruframleiðandi sem barðist fyrir félagslegum umbótum. Hann er einn upphafsmanna útópísks sósíalisma og samvinnuhreyfingarinnar. Hann lagði mikið af mörkum til góðgerðamála og eyddi öllum auðæfum sínum árið 1824 til að koma á laggirnar slíku samfélagi í New Harmony í Indianafylki í Bandaríkjunum. Hann barðist alla tíð fyrir bættum aðbúnaði verkamanna, meðal annars 8 stunda vinnudegi. Hugmyndir hans höfðu mikil áhrif á bæði samvinnuhreyfinguna og sósíalisma.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Owen fæddist inn í fátæka fjölskyldu í Wales. Við 9 ára aldur hætti hann í skóla til þess að verða lærlingur hjá klæðskeranum McGuffog í Lincolnshire þar sem hann kynntist vefnaðarvöruiðnaðinum sem var óðum að vélvæðast. Hann starfaði sem klæðskeri til 18 ára aldurs, bæði í Lincolnshire og London. Þegar hann var 18 ára fluttist hann til Manchester þar sem hann fjárfesti í vefnaðarvöruiðnaðinum og starfaði sem verksmiðjustjóri í spunaverksmiðjum. Owen hagnaðist vel á fjárfestingum sínum.[1]
Árið 1799 keypti Owen ásamt viðskiptafélögum sínum verksmiðjur sem voru til sölu í verksmiðjuþorpinu New Lanark. Owen réðst í umfangsmikla uppbyggingu, bæði á verksmiðjunum og þorpinu, sem hafði verið í mikilli niðurníðslu. Umbótastarf og framsýni Owen vöktu mikla athygli og lof. Owen seldi hlut sinn í New Lanark árið 1824 og flutti til Bandaríkjanna þar sem hann hugðist koma á fót útópísku sósíalísku samfélagi. Samfélag Owen í New Harmony í Indianafylki lagðist af eftir aðeins tvö ár.[2] Owen settist aftur að í London árið 1828 þar sem hann hélt áfram að berjast fyrir bættum kjörum verkamanna, efnahagslegum jöfnuði og sósíalisma. Hann beitti sér m.a. fyrir stofnun verkalýðsfélaga.
Hugmyndir og tilraunir Owen voru innblástur fyrir fjölda annarra umbótamanna sem settu á laggirnar sósíalísk samvinnusamfélög í anda hugmynda Owen. Engin þeirra urðu langlíf.
New Lanark
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1779 keypti Owen, ásamt samstarfsaðilum sínum, verksmiðjurnar í New Lanark af tengdaföður sínum David Dale.[3] Fyrir Owen var New Lanark tækifæri til að prófa kenningar sem hann hafði þróað til að reyna að betrumbæta mannkynið, en hann var sannfærður um að fólk yrði aldrei betri en umhverfið þeirra og ef það gæti breytt umhverfi sínu gæti myndast raunveruleg paradís á jörðu[4].
Í New Lanark veitti Owen ókeypis menntun fyrir börn, stytti vinnutíma, og betrumbætti vinnuaðstæður verkalýðsins m.a. með fræðslu um hreinlæti.[5] Hann gerði ýmsar tilraunir til að auka bæði gæði framleiðslunnar og framleiðni. Yfir hverjum starfsmanni hékk lítill trékubbur í mismunandi litum. Litirnir táknuðu hversu vel starfsmaðurinn stóð sig og var þetta gert til að ýta undir vandvirkni starfsmanna. Owen barðist einnig fyrir afnámi barnavinnu og var á móti því að refsa börnum. Þessi heimspeki Owens var andstæð hugmyndum samtímamanna hans, þar sem hann sýndi fram á að það væri ekki nauðsynlegt fyrir iðnfyrirtæki að koma illa fram við starfsmenn sína til að vera arðbær. Þetta sannaði Owen þar sem breytingar hans í New Lanark gerðu þorpið stórkostlega arðbært og vakti það mikla athygli.[6]
Innan árs hafði Owen breytt samfélaginu í New Lanark, innan fimm ára var þorpið orðið óþekkjanlegt og fimmtán árum eftir komu hans var þorpið orðið heimsfrægt. Frægð New Lanark laðaði að sér um tuttugu þúsund gesti á árunum 1815-1825. Meðal gesta voru rithöfundar, umbótasinnar, kapítalistar og hásettir einstaklingar eins og Nikulás 1. Rússakeisari.[7] Það sem gestirnir komu til að sjá var lifandi sönnun þess að eymd og vanlíðan væri ekki eina og óhjákvæmilega þjóðskipulagið, eins og hagfræðingar klassíska skólans vildu meina að yrði alltaf lokaniðurstaða samfélagsins. Adam Smith hélt því fram að arðbær fjárfestingartækifæri myndu á endanum klárast, David Ricardo hélt því fram að renta myndi éta upp allan hagnað og Thomas Malthus hélt því fram að verkalýðurinn myndi sökkva aftur í eymd og volæði.[8] Owen hafði aftur á móti búið til samfélag sem skein eins og leiðarljós í gegnum þessar dimmu spár klassísku hagfræðinganna.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 109-110.
- ↑ Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 110.
- ↑ Estabrook, Arthur H. (1923). „The Family History of Robert Owen“. Indiana Magazine of History. 19 (1): 63–101. ISSN 0019-6673.
- ↑ Merle Curti. "Robert Owen in American Thought," in Robert Owen's American Legacy. bls. 62.
- ↑ Estabrook, Arthur H. (1923). „The Family History of Robert Owen“. Indiana Magazine of History. 19 (1): 63–101. ISSN 0019-6673.
- ↑ The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster. 1999. bls. 108.
- ↑ Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 107-110.
- ↑ Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 78-83.