Fara í innihald

KAA Gent

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

KAA Gent (Koninklijke Atletiek Associatie Gent) er knattspyrnufélag frá Gent í Belgíu. Liðið vann fyrst belgísku úrvalsdeildina árið 2015.

AA Gent
Fullt nafn AA Gent
Gælunafn/nöfn De Buffalo´s (Vísundarnir)
Stofnað 1864 (sem fimleikafélag); 1900 (sem knattspyrnulið)
Leikvöllur Ghelamco leikvangurinn
Stærð 20.000
Stjórnarformaður Ivan De Witte
Knattspyrnustjóri Hein Van Haezebrouck
Heimabúningur
Útibúningur

Société Gymnastique la Gantoise var stofnað sem fimleikafélag árið 1864. Á næstu árum voru mynduð félög og hópar um iðkun fleiri íþróttagreina, svo sem frjálsar íþróttir, hnefaleika, hjólreiðar, skylmingar, tennis og sund. Ýmsum þessara félaga var steypt saman í fjölgreinaíþróttafélagið AA La Gantoise árið 1891.

Knattspyrnuíþróttin barst til Gent á síðasta áratug nítjándu aldar. Árið 1899 voru erkifjendurnir í Racing Club Gantois stofnaðir og ári síðar hóf AA La Gantoise að æfa fótbolta. Fyrsti formlegi kappleikurinn átti sér stað í nóvember 1900 og tveimur mánuðum síðar mættust AA La Gantoise og Racing Club Gantois í frysta sinn. Lauk viðureigninni með 10:0 sigri þeirra síðarnefndu. Í Belgíu fá knattspyrnufélög númer eftir því í hvaða röð þau ganga í knattspyrnusambandið og varð AA La Gantoise númer ellefu. Liðið hóf keppni í belgíska meistaramótinu árið 1901, í neðri deildum.

Hið sérkennilega viðurnefni félagsins Vísundarnir (De Buffalo´s) má rekja til þess að árið 1906 ferðaðist bandaríski sýningarmaðurinn Buffalo Bill um Belgíu og vakti mikla athygli.

Árið 1914 fékk félagið leyfi til að kalla sig konunglegt íþróttafélag og var nafninu þá breytt í Association Royale Athlétique La Gantoise sem oftast var stytt í ARA La Gantoise. Skömmu síðar varð félagið fyrir miklu áfalli þegar heimavöllur þess brann til kaldra kola í fyrri heimsstyrjöldinni.

Á millistríðsárunum var félagið að mestu í næstefstu deild og taldist ekki meðal sterkustu liða í Belgíu. Á sjötta áratugnum fór landið heldur að rísa og leiktíðina 1953-54 hafnaði það í þriðja sæti, einungis stigi á eftir meisturum Anderlecht. Árið eftir náði það svo öðru sætinu, sem lengi var þeirra besti árangur.

Belgíska bikarkeppnin vannst í fyrsta sinn árið 1964 og í kjölfarið tók félagið í fyrsta sinn þátt í Evrópukeppni en tapaði fyrir West Ham í fyrstu umferð.

Árið 1971 var ákveðið að breyta nafni félagsins úr frönsku í flæmsku. Hefur það upp frá því gengið undir heitinu "Koninklijke Atletiek Associatie Gent" eða "KAA Gent". Ekki fylgdi nýja nafninu þó mikil gæfa í upphafi og átti KAA Gent í vök að verjast í næstefstu deild allan áttunda áratuginn. Á níunda áratugnum komst liðið aftur í hóp þeirra bestu og varð bikarmeistari í annað sinn árið 1984. Á þessum árum keppti félagið fjórum sinnum í Evrópukeppni og náði lengst í þriðju umferð Evrópukeppi félagsliða.

Miklir fjárhagslegir örðugleikar á árunum í kringum 1990 ollu bakslagi í þróun félagsins. Það komst á nýjan leik í efstu deild en stóð alltaf nokkuð að baki sterkustu belgísku liðanna, þótt það næði sér stundum ágætlega á strik í Evrópukeppnum.

Leiktíðina 2009-10 endaði KAA Gent í öðru sæti deildarinnar sem gaf þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu, auk þess að verða bikarmeistari í þriðja sinn í sögunni. Þremur árum síðar flutti liðið á nýjan heimavöll, Ghelamco Arena.

Fyrsti belgíski meistaratititillinn vannst árið 2015 með 2:0 heimasigri á móti Standard Liège við ósvikinn fögnuð stuðningsmanna.

  • Belgíumeistarar
    • Sigrar (1): 2014-15
    • Númer tvö (3): 1954–55, 2009–10, 2019–20
  • Bikarmeistarar
    • Sigrar (4): 1963–64, 1983–84, 2009–10, 2021-22
    • Númer tvö (2): 2007–08, 2018–19

Knattspyrnustjórar

[breyta | breyta frumkóða]
Nafn Tímabil
Fáni Belgíu Francky Dury 2010-2011
Fáni Noregs Trond Sollied 2011-2013
Fáni Spánar Victor Fernández 2013
Fáni Rúmeníu Mircea Rednic 2013-2014
Fáni Belgíu Hein Vanhaezebrouck 2014-2017
Fáni Belgíu Yves Vanderhaeghe 2017-2018
Fáni Danmerkur Jess Thorup 2018-2020
Fáni Rúmeníu László Bölöni 2020
Fáni Belgíu Wim De Decker 2020
Fáni Belgíu Hein Vanhaezebrouck 2020-????