Fara í innihald

Ernst Willimowski

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ernst Willimowski
Upplýsingar
Fæðingardagur 23. júní 1916
Fæðingarstaður    Kattowitz, Prússneska Héraðið Slesía, Þýska keisaraveldið
Dánardagur    30. ágúst 1997 (81 árs)
Dánarstaður    Karlsruhe, Baden-Württemberg, Þýskaland
Leikstaða Framherji
Yngriflokkaferill
1925-? 1. FC Kattowitz
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
1934-1939 Ruch Chorzów 86 (112)
1939–1940 1. FC Katowitz ? (?)
1940-1942 PSV Chemnitz ? (68)
1942-1944 1860 Munich ? (9)
1946-1947 SG Chemnitz-West ? (?)
1948 BC Augsburg 6 (3)
1949-1950 Offenburger FV 89 (70)
1950-1951 FC Singen 04 30 (16)
1951-1955 VfR Kaiserslautern 90 (70)
Landsliðsferill
1934–1939
1941-1942
Pólland
Þýskaland
22 (21)
8 (13)

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Ernst Otton Willimowski, Ezi (gælunafn), (fæddur Ernest Otto Prandella) (23. júní 1916 - 30. ágúst 1997) var pólsk/þýskur knattspyrnumaður og einn mesti markaskorari sögunnar.

Ævi og keppnisferill

[breyta | breyta frumkóða]
Ernst Willimowski í keppni árið 1937.

Willimowski fæddist í Katowice í Slesíu sem þá tilheyrði Þýska keisaraveldinu. Eftir að héraðið varð hluti að Póllandi árið 1922 varð hann pólskur ríkisborgari. Foreldrar hans voru Þjóðverjar og faðirinn, Ernst-Roman Prandella, féll í fyrri heimsstyrjöldinni. Móðir hans, Paulina, kvæntist á ný pólskum manni sem ættleiddi drenginn og tók hann þá upp hið pólska nafn sitt. Heima fyrir talaði Willimowski þýsku og svaraði yfirleitt spurningunni um hvort hann liti fremur á sig sem Pólverja eða Þjóðverja á þá leið að hann væri Slésíubúi.

Hann hóf að æfa knattspyrnu með liði þýskra íbúa Katowice, en komst á mála hjá liði í efstu deild rétt tæplega átján ára gamall og sama leyti lék hann sinn fyrsta landsleik. Hann lék alls 22 landsleiki fyrir Pólland á árunum 1934-39 og skoraði í þeim 21 mark. Eftirminnilegastur þeirra leikja var á móti Brasilíumönnum á HM í Frakklandi 1938 þar sem hann skoraði fjögur mörk og fiskaði vítaspyrnu að auki. Allt kom þó fyrir ekki og Pólverjar töpuðu 6:5. Síðasti landsleikur hans var í minnisstæðum sigri gegn afar sterku liði Ungverja árið 1939, fjórðum dögum áður en seinni heimsstyrjöldin braust út.

Eins og flestir aðrir íbúar austur-Slesíu, tók Willimowski upp þýskan ríkisborgararétt eftir hernám Þjóðverja. Fyrir vikið mátti hann halda áfram að leika knattspyrnu, en nasistar bönnuðu Pólverjum þátttöku í keppnisíþróttum. Engu að síður treystu stjórnendur hernámsliðsins Willimowski varlega, þar sem hann hafði fyrir stríð leikið með pólskum félagsliðum en ekki bara liðum þýska minnihlutans. Móðir hans var sett í fangabúðir en komst lífs af úr þeim.

Þegar leið á stríðið flutti Willimowski sig um set og gekk til liðs við 1860 München og varð bikarmeistari árið 1942. Undir lok stríðsins var hann skráður í herinn, en fékk þó að leika knattspyrnu samhliða herþjónustu. Hann lék átta leiki og skoraði heil þrettán mörk fyrir þýska landsliðið frá 1941-42, en í kjölfarið var starfsemi landsliðsins hætt vegna stríðsins.

Í stríðslok litu pólsk stjórnvöld á Willimowski sem svikara og var honum óheimilt að snúa aftur til heimaslóða sinna. Hann settist því að í Þýskalandi, lék fyrir fjölda liða en sinnti jafnframt ýmsum störfum enda hafði hreinræktuð atvinnumennsta ekki verið tekin upp í landinu. Hann keppti vel fram yfir fertugt sem var fáheyrt í þá tíð.

Willimowski er almennt talinn einn mesti markaskorari knattspyrnusögunnar og áætlaði knattspyrnublaðið Kicker að hann hefði skorað 1.175 mörk á ferlinum. Útilokað er að sannreyna þá tölu sem inniheldur ýmsa vináttu- og æfingarleiki. Ef aðeins er horft til opinberra kappleikja er áætlað að talan sé 554 mörk, sem engu að síður skipar honum ofarlega á lista yfir markahæstu menn.