Fara í innihald

Betlehemsturninn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Betlehemturninn)
Betlehemsturninn í Lissabon

Betlehemsturninn (portúgalska: Torre de Belém) er 5 hæða viti (og virki) sem er í Betlehemshverfinu í Lissabon í Portúgal. Turninn var reistur á árunum 1515 til 1519 samkvæmt skipun frá Manuel I (1515 - 1520) með það að markmiði að verja höfnina í Betlehem og Híerónýmusarklaustrið. Upphaflega var turninn á eyju í Tagus-ánni miðri, en þar sem rennsli árinnar breyttist í kjölfar jarðskjálftans árið 1777 varð eyjan samvaxin landinu og breyttist í tanga. Turninn hafði áður staðið af sér jarðskjálftann mikla sem lagði Lissabon í rúst árið 1755.

Betlehemsturninn var hannaður af Diogo og Francisco Arruda í hinum portúgalska Manueline-stíl og er í reynd eina dæmið um byggingu í Portúgal sem eingöngu er í þeim stíl.

Turninn hefur verið notaður sem fangelsi, bæði af spænsku hernámsliði og Dom Miguel (1828 - 1834). Árið 1807 eyðilögðu franskar hersveitir efstu tvær hæðirnar en þær voru síðar endurbyggðar. Turninn er hins vegar frægastur fyrir að vera sá staður þaðan sem landkönnuðir Portúgala lögðu af stað til að kanna ný lönd á 16. og 17. öldinni.

Turninn er opinn ferðamönnum og geta gestir skoðað dýflissurnar og fetað sig eftir þröngri leið upp á 35 metra hátt útsýnissvæði þar sem hægt er að horfa yfir Tagus-ána auk minnismerkisins um landvinninga Portúgala (Padrão dos Descobrimentos).

Turninn er á heimsminjaskrá UNESCO.