Sambandið 90/Græningjarnir
Sambandið 90/Græningjarnir Bündnis 90/Die Grünen | |
---|---|
Fylgi | 14,0%¹ |
Leiðtogi | Annalena Baerbock Robert Habeck |
Varaleiðtogi | Jamila Schäfer Ricarda Lang |
Stofnár | 14. maí 1993 |
Höfuðstöðvar | Platz vor dem Neuen Tor 1, 10115 Berlín |
Félagatal | 106.000[1] |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Græn stjórnmál, Evrópusamvinna |
Einkennislitur | Grænn |
Sæti á sambandsþinginu | |
Sæti á sambandsráðinu | |
Sæti á Evrópuþinginu | |
Vefsíða | gruene.de/ |
¹Fylgi í þingkosningunum 2021 |
Sambandið 90/Græningjarnir (þýska: Bündnis 90/Die Grünen), yfirleitt bara kallaðir Græningjarnir (þ. Die Grünen) í daglegu tali, eru þýskur stjórnmálaflokkur. Flokkurinn var stofnaður árið 1993 með samruna Græningjaflokksins (frá Vestur-Þýskalandi) og Sambandsins 90 (frá Austur-Þýskalandi). Flokkurinn rekur uppruna sinn til grasrótarhreyfinga og félagasamtaka „nýju þjóðfélagshreyfinganna“ sem nutu áhrifa í Þýskalandi á áttunda áratugnum og til vinstrihreyfinga sem andmæltu einræðis- og valdboðsstjórnum. Flokkurinn hefur því verið álitinn forveri og fyrirmynd aðra græningjaflokka.
Græningjarnir sátu í samsteypustjórn ásamt Jafnaðarmannaflokknum frá 1998 til 2005. Í þingkosningum árið 2017 fékk flokkurinn 8,9 % atkvæða og 67 þingmenn kjörna af 709.[2] Flokkurinn fékk fjórtán prósent atkvæða í þingkosningum ársins 2021 og settist að þeim loknum í þriggja flokka samsteypustjórn ásamt Jafnaðarmönnum og Frjálsum demókrötum.[3][4]
Í apríl árið 2020 voru meðlimir flokksins um 100.000 talsins.[5] Núverandi leiðtogar flokksins eru Annalena Baerbock og Robert Habeck.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Upphaf á áttunda áratugnum
[breyta | breyta frumkóða]Saga Græningjanna hefst í Vestur-Þýskalandi snemma á áttunda áratugnum. Eftir gagnmenningu og stúdentaóeirðir ungmenna á árinu 1968 var til fjöldi grasrótarhreyfinga á borð við umhverfisverndarhreyfingar, friðarhreyfingar, kvenréttindahreyfingar, hreyfingar gegn kjarnorku, mannréttindahreyfingar og samstöðuhreyfingar með ríkjum þriðja heimsins. Í Þýskalandi gengu þessar hreyfingar sameiginlega undir nefninu „nýju þjóðfélagshreyfingarnar.“ Leiðtogar þessara hreyfinga gerðu sér brátt grein fyrir því að til þess að geta haft raunverulegt áhrif var nauðsynlegt af hafa fulltrúa á þingi. Á sama tíma voru einnig virkar marxískar hreyfingar á vinstri væng þýskra stjórn sem sóttust eftir sameiginlegum grundvelli til að stofna nýjan flokk.
Árið 1978 söfnðust vinstrisinnar í fyrsta sinn saman á græna kosningalista í héraðskosningum. Síðar sama ár stofnuðu græningjar fyrstu kosningalista í kosningum sambandríkja Þýskalands og í kosningum á Evrópuþingið árið 1979 mynduðu þeir kosningabandalag sem hlaut 3,2 % atkvæðanna. Á sama tíma voru fyrstu fulltrúar græningja kjörnir í borgarstjórn Bremen.
Velgengni kosningalistanna leiddi til þess að árið 1980 var myndaður sérstakur stjórnmálaflokkur undir formerkjum Græningja, Die Grünen. Stofnþing flokksins var haldið í Karlsruhe, þar sem stefnuskrá var samþykkt og August Haußleiter, Petra Kelly og Norbert Mann voru kjörin fyrstu leiðtogar flokksins.
Þingseta á níunda áratugnum
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1982 kom í fyrsta sinn til innanflokksdeilna meðal Græningja þegar íhaldsvængur flokksins klauf sig í annan flokk, Umhverfissinnaða lýðræðisflokkinn (þ. Ökologische Demokratische Partei) og valdi fyrrum Evrópuþingsframbjóðandann Herbert Gruhl sem formann. Vinstriarmur Græningja, sem varð ofan á í innanflokksdeilunum, tók út af fyrir allan vafa um að flokkurinn ætti að vera framfarasinnaður, félagssinnaður og á móti hvers kyns valdboðsstefnu. Græningjarnir ættu að vera lýðræðislegt stjórnmálaafl sem staðsetti sig vinstra megin við Jafnaðarmannaflokkinn.
Eftir að hafa nokkrum árangri í héraðs- og sveitastjórnarkosningum fengu Græningjar loks kjörna fulltrúa á sambandsþing Þýskalands árið 1983, þegar flokkurinn vann 27 þingsæti.
Alþjóðatengsl
[breyta | breyta frumkóða]Sambandið 90/Græningjarnir eru aðilar að sambandi evrópskra græningjaflokka, Evrópskum græningjum, sem er aðili að alþjóðasambandi græningja, Global Greens.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Parteimitglieder: Grüne legen zu, AfD und SPD verlieren“. RedaktionsNetzwerk Deutschland (þýska). 14. febrúar 2021.
- ↑ „Bundestagswahl 2017“ (þýska). Der Bundeswahlleiter. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. nóvember 2017. Sótt 20. desember 2021.
- ↑ Þorvaldur S. Helgason (24. nóvember 2021). „Fyrsta þriggja flokka stjórnin í sögu Þýskalands“. Fréttablaðið. Sótt 25. nóvember 2021.
- ↑ „Olaf Scholz kjörinn kanslari Þýskalands“. mbl.is. 8. desember 2021. Sótt 8. desember 2021.
- ↑ „Grüne knacken 100.000er-Marke“ (þýska). ARD. 27. apríl 2020. Sótt 20. desember 2021.