Fara í innihald

Myrku miðaldir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ítalski húmanistinn Petrarca (1304–1374) var fyrstur til að kenna tímabilið eftir fall Rómar við myrkur.

Myrku miðaldir eða myrku aldirnar er heiti sem er stundum notað yfir ármiðaldir (5. til 10. öld) eða allar miðaldir (5. til 15. öld). Heitið var fyrst notað í evrópskri sagnaritun á endurreisnartímanum yfir tímabilið sem fylgdi í kjölfar hruns Vestrómverska keisaradæmisins í þeirri merkingu að „ljósi“ klassískrar fornaldar hefði fylgt „myrkur“ í merkingunni vanþekking og villa. Ítalski fræðimaðurinn Petrarca notaði þessa líkingu fyrstur á 14. öld,[1] en fyrstur til að nota hugtakið „myrku aldirnar“ (saeculum obscurum) var sagnfræðingurinn Caesar Baronius í umfjöllun um sögu páfastóls á 10. og 11. öld. Með tímanum festist hugtakið í sessi í vesturevrópskri sagnaritun sem heiti á tímabilinu frá falli Rómaveldis árið 476 fram að upphafi endurreisnarinnar á 14. öld.

Sumir sagnfræðingar hafa notað þetta hugtak í þeirri merkingu að heimildir skortir fyrir sögu stórra hluta Evrópu á fyrri hluta miðalda. Myrku miðaldir hafa þannig smám saman runnið saman við ármiðaldir. Eftir því sem áhugi og skilningur á sögu þessa tímabils frá ólíkum hliðum (ekki aðeins frá sjónarhóli Rómaveldis) hefur aukist, hefur tilhneigingin verið að nota heldur hugtök eins og ármiðaldir og síðfornöld til að forðast það neikvæða viðhorf sem felst í hugtakinu „myrku miðaldir“.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jón Gunnar Þorsteinsson (24.1.2023). „Af hverju voru hinar myrku miðaldir kallaðar þessu nafni?“. Vísindavefurinn.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.