Fara í innihald

Ullarkambur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vélkambur greiðir úr lamaull.

Ullarkambur er áhald til að kemba ull sem getur verið gert í höndunum eða með vél. Þegar kembt er í höndunum eru ætíð notaðir tveir kambar sem dregnir eru hvor yfir annan til að greiða úr hárunum.

Ef framleiða átti klæði var garn kembt með tiltekinni tegund af kömbum. Kambar voru misgrófir, þeir grófari voru notaðir til forkembingar. Kambar voru með fjölmörgum stuttum bognum vírtönnum sem voru settir í leðurpjötlu sem var svo fest á fjalarbút með handfangi. Ull var kembd með tveimur kömbum og ullarhárin lágu meira og minna á misvíxl eftir kembingu. Það hentaði í garn sem átti að vera loftmikið og loðið og þóttu stutt ullarhár henta vel í slíkt garn. Íslenskir kambar hafa verið nefndir kambar, þelkambar, handkambar, karkambar, karrar, körrur eða körður. Slíkir kambar voru notaðir fram á 20. öld. Einnig voru notaðir grófari kambar sem voru þannig að annar kamburinn var stundum festur á stól eða bekk og voru slíkir kambar kallaðir stólkambar. Garn var svo spunnið úr kembum(einnig nefnd band eða loðband).

Ef notaðir voru langtenntir kambar þá kemdist ull þannig að ullarhárin lögðust sem mest samsíða. Ullin var eftir kembingu dregin fram úr kömbunum í lyppu og passað að hárin röskuðust sem minnst. Garn sem spunnið var úr slíkri lyppu var oftast slétt og loftlítið og gat verið mjög sterkt.


  Þessi landbúnaðargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.