Fara í innihald

Stokely Carmichael

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fred Hampton
Carmichael árið 1966.
Fæddur29. júní 1941
Dáinn15. nóvember 1998 (57 ára)
ÞjóðerniBandarískur
MenntunHoward-háskóli (BA)
StörfAðgerðasinni, byltingarmaður
FlokkurSvörtu hlébarðarnir
MakiMiriam Makeba (g. 1968; sk. 1973)​
Marlyatou Barry (skilin)
Börn2

Stokely Standiford Churchill Carmichael (29. júní 1941 - 15. nóvember 1998), einnig þekktur sem Kwame Ture, var einn af leiðtogum réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar, og síðar innan alþjóðahreyfingar Afríkueiningarstefnunnar. Hann var einn af stofnendum Svörtu hlébarðanna, samhliða því að leiða Student Nonviolent Coordinating Committee (SNCC).[1] Stokeley Charmichael var einn mikilvægustu leiðtoga hins Nýja vinstris í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratugnum.

Seinna meir varð hann heiðursmaður innan Svörtu hlébarðanna (e. Black Panther Party, BPP)[2] og að lokum leiðtogi All-African People's Revolutionary Party (A-APRP).

Charmichael var fæddur í Port of Spain, höfuðborg Trínidad og Tóbagó þar sem hann ólst upp til 11 ára aldurs. Foreldrar hans fluttust til Bandaríkjanna þegar hann var tveggja gamall og skildu hann og þrjár systur hans eftir í umsjón ömmu þeirra þar til þau sendu eftir honum. Fjölskyldan bjó fyrstu árin í Harlem-hverfi í New York en fluttu síðan í innflytjendahverfi í Bronx.

Charmichael hóf þátttöku í mannréttindabaráttu blökkumanna meðan hann var nemandi við Bronx High School of Science, þá nítján ára gamall.[3] Sama ár, 1960, hóf Charmichael hóf nám í heimspeki við Howard-háskóla í Washington, D.C. og gekk í kjölfarið í samtökin SNCC, stærstu grasrótarsamtök ungs baráttufólks fyrir borgaralegum réttindum blökkumanna. Auk þess að taka virkan þátt í mótmælum og ýmsum aðgerðum hópa sem börðust fyrir réttindum blökkumanna var Charmichael afburða námsmaður og var boðin skólavist við Harvard-háskóla þegar hann útskrifaðist árið 1964. Charmichael afþakkaði boðið og helgaði mannréttindabaráttunni alla starfskrafta sína.

Mannréttindabarátta bandarískra blökkumanna 1961-1969

[breyta | breyta frumkóða]

Freedom Riders og Freedom Summer, 1961-1964

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1961 tók Carmichael þátt í aðgerðum svokallaðra Freedom Riders, sem skipulögðu mótmælaaðgerðir gegn aðskilnaði hvítra og svartra í langferðabílum sem ferðuðust milli fylkja í norður- og suðurhluta Bandaríkjanna. Þótt Hæstiréttur Bandaríkjanna hefði árið 1946 og aftur 1960 dæmt kynþáttaaðskilnað í almenningssamgöngum milli fylkja brot á stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna var aðskilnaðarstefnu áfram framfylgt í flestum Suðurríkja Bandaríkjanna. Freedom Riders-hópferðir svartra og hvítra aðgerðarsinna sem ferðuðust með langferðabílum til Suðurríkjanna og ögruðu þannig rasískum hefðum og reglum sem enn voru við lýði. Þátttakendur í Freedom Riders-aðgerðunum urðu fyrir árásum bæði almennra borgara og lögreglu.

Charmichael var margsinnis handtekinn ásamt öðrum þátttakendum í Freedom Riders-aðgerðunum fyrir brot á Jim Crow-löggjöf í ýmsum Suðurríkjanna. Þann 4 júní 1961 var hann handtekinn ásamt átta öðrum fyrir að fara inn á kaffistofu í Jackson, Mississippi, sem var aðeins ætluð hvítum og sat í fangelsi í nærri tvo mánuði.

Carmichael stóð í fremstu víglínu í ýmsum mótmælum og aðgerðum í baráttu fyrir kosningarétti blökkumanna í Mississippi og Alabama. Hann naut leiðsagnar Ellu Baker[4] og Bob Moses[5] sem voru meðal fremstu skipuleggjenda mannréttindabaráttuhreyfingar blökkumanna á sjötta og sjöunda áratugnum. Sumarið 1964 tók Charmichael þátt í herferð til að fá blökkumenn í Mississippi til að skrá sig sem kjósendur. SNCC lék forystuhlutverk í skipulagningu herferðarinnar sem var kölluð Frelsissumarið (e. Freedom Summer). Hann tók meðal annars þátt í því að skipulegga Mississippi Freedom Democratic Party sem mótvægi við Demókrataflokk Mississippi sem hélt fast í arfleið aðskilnaðarstefnunnar.

Eftir að landsfundur Demókrataflokksins haustið 1964 neitaði að viðurkenna fulltrúa Mississippi Freedom Democratic Party missti Charmichael trú á flokkinn og hið hefðbundna flokkakerfi Bandaríkjanna.

SNCC og Svörtu hlébarðarnir

[breyta | breyta frumkóða]

Á næstu árum hélt Carmichael áfram að skrá svarta kjósendur og tók þátt í myndun nokkurra pólitískra hópa og hreyfinga sem börðust fyrir réttindum blökkumanna, eins og Lowndes County Freedom Organization. Meðlimir hreyfingarinnar gengu um vopnaðir til að verjast árásum, meðal annars frá liðsmönnum Ku Klux Klan. Merki Lowndes County samtakanna var svartur hlébarði, og samtökin urðu innblástur Svörtu hlébarðanna (e. Black Panthers) sem Huey P. Newton og Bobby Seale stofnuðu í október 1966.

Árið 1966 var Charmichael kjörinn formaður SNCC eftir að formaður samtakanna, John Lewis, var kjörinn á Bandaríkjaþing. Lewis sat á þingi fyrir Demókrataflokkinn til 2019.

Sem formaður SNCC varð Charmichael einn af fremstu talsmönnum Black Power, hugmynda sem Malcolm X er einna þekktastur fyrir. Undir forystu Charmichael urðu samtökin róttækari í málflutningi sínum og kröfum og léku lykilhlutverk í mótmælum gegn þátttöku Bandaríkjanna í Vietnamstríðinu á árunum 1966 og 1967. Ögrandi málflutningur og mælska Charmichael varð til þess að hann var einn af dáðustu leiðtogum hins nýja vinstris (e: The New Left) og gagnmenningar (e: counter culture) sem reis upp á þessum árum. Deilur um hversu langt skyldi ganga í mótmælum og hvort mótmæli þyrftu að vera friðsöm til að eiga rétt á sér urðu til þess að Charmichael lét af embætti sem formaður SNCC í maí 1967 og gekk til liðs við Svörtu hlébarðana.

Bandaríska alríkislögreglan gegn Carmichael

[breyta | breyta frumkóða]

Carmichael varð að einu helsta skotmarki bandarísku alríkislögreglunnar sem taldi hann arftaka Malcolm X. Charmichael var einn fórnarlamba COUNTELPRO aðgerða FBI á árunum 1956-71 sem beindust gegn samtökum og einstaklingum sem FBI taldi ógna innra öryggi Bandaríkjanna. Aðgerðirnar miðuðu meðal annars að því að grafa undan tiltrú og trúverðugleika baráttufólks fyrir mannréttindum minnihlutahópa, femínistum, friðarsinnum og öðrum róttæklingum, og sá misklíð í röðum þeirra.[6]

Pan-Africanismi 1969-1998

[breyta | breyta frumkóða]

Afleiðingar ofsókna bandarísku alríkislögreglunar leiddu til þess að Carmichael flúði land árið 1969 og settist að í Afríku, fyrst í Ghana en síðar í Gíneu. Charmichael, sem breytti nafni sínu í Kwame Ture árið 1978 hélt áfram að berjast fyrir réttindum blökkumanna, nú undir fána Afríkueiningarstefnu og sósíalisma. Síðustu 30 ár ævi sinnar helgaði Charmichael All-African People's Revolutionary Party (A-APRP) sem hafði á stefnuskrá sinni að sameina alla Afríkubúa og afkomendur þeirra í sósíalískri fjöldahreyfingu og byltingu gegn kapítalískri heimsvaldastefnu.

  1. „Student Nonviolent Coordinating Committee (SNCC)“, Encyclopedia of African American Society, SAGE Publications, Inc., doi:10.4135/9781412952507.n615, ISBN 978-0-7619-2764-8
  2. Graham, James (19. mars 2007), „Black Panther Party“, African American Studies Center, Oxford University Press, doi:10.1093/acref/9780195301731.013.47317, ISBN 978-0-19-530173-1
  3. „Meet the Players: Freedom Riders | American Experience | PBS“. www.pbs.org (enska). Sótt 27. október 2020.
  4. „Ella Baker“, Wikipedia (enska), 1. nóvember 2020, sótt 7. nóvember 2020
  5. „Bob Moses (activist)“, Wikipedia (enska), 23. september 2020, sótt 7. nóvember 2020
  6. Warden, Rob (February 10, 1976). "Hoover rated Carmichael as 'black messiah'" (PDF). Chicago Tribune.