Neuchâtel (fylki)
Höfuðstaður | Neuchâtel |
Flatarmál | 803 km² |
Mannfjöldi – Þéttleiki |
171.848 214/km² |
Sameinaðist Sviss | 1814 |
Stytting | NE |
Tungumál | Franska |
Vefsíða | [1] |
Neuchâtel (þýska: Neuenburg) er kantóna í vesturhluta Sviss. Hún er aðallega frönskumælandi. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Neuchâtel.
Lega og lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Neuchâtel liggur í Júrafjölllum, vestarlega í Sviss. Kantónan er því hálend. Aðeins austurröndin er láglend, en þar nemur kantónan við Neuchâtelvatn. Fyrir vestan liggur hún að Frakklandi. Aðrar kantónur sem að Neuchâtel liggja eru Bern fyrir norðan, Fribourg fyrir austan og Vaud fyrir sunnan. Langflestir íbúar eru frönskumælandi, en minnihluti þýskumælandi. Íbúar eru um 170 þús og er Neuchâtel því frekar fámenn.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Neuchâtel merkir Nýi kastali. Hann dregur nafn sitt af kastala sem Rúdolf III af Búrgúnd reisti eiginkonu sinni Irmengarde árið 1011 í samnefndri borg. Reyndar hét kastalinn í upphafi Novum Castellum, en merkingin er sú sama.
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Neuchâtel er líkt ítalska þjóðfánanum, þ.e. þrjár lóðréttar rendur. Græn til vinstri, hvít fyrir miðju og rauð til hægri. Auk þess er hvítur kross efst í rauðu röndinni. Skjaldarmerkið var tekið upp 1848, er kantónan sagði sig úr lögum frá Prússlandi. Græni liturinn merkir sjálfstæði, en hvíti og rauði liturinn var tekinn úr skjaldarmerki borgarinnar. Hvíti krossinn merkir Sviss. 1954 var ráðgert að yfirtaka skjaldarmerki borgarinnar Neuchâtel, en tillagan var felld í atkvæðagreiðslu íbúanna í kantónunni.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Héraðið var hluti af þýska ríkinu síðan 1032, en var áður hluti af Búrgúnd. Keisararnir veittu héraðinu hinum ýmsum greifum að léni. 1643 varð Neuchâtel að furstadæmi. Það gerði friðarsamning við Bern, en síðar við Sviss. Árið 1707 erfði Friðrik Prússakonungur héraðið Neuchâtel. Þegar Frakkar hertóku Sviss 1798, létu þeir Neuchâtel í friði, enda ríkti friður milli Frakklands og Prússlands þá. Það var ekki fyrr en 1806 að Prússar eftirlétu Napoleon héraðið, sem varð að frönsku leppríki. Franski landstjórinn þar steig hins vegar aldrei fæti í héraðið og því héldust aðstæður þar eins og áður. Við fall Napoleons 1814 varð Neuchâtel prússneskt furstadæmi á ný, en fékk jafnframt inngöngu í Sviss. Þetta var einstakt meðal svissneskra kantóna að tilheyra tveimur ríkjasamböndum. Á Vínarfundinum 1815 var Neuchâtel viðurkennt bæði sem ‚svissnesk kantóna og sem prússneskt furstadæmi.‘ Þetta tvíríkjasamband gat hins vegar ekki staðið til lengdar.
1831 reyndu íbúar kantónunnar að gera uppreisn, en það var ekki víðtækt og var brotið á bak aftur. En á byltingarárinu 1848 var gerð önnur uppreisn. Íbúaher náði að taka helstu vígi prússneska konungsins og lýsa yfir sambandslitum við Prússland. Prússar, sem þá réðu yfir einum besta her Evrópu á þessum tíma, létu málið hins vegar afskiptalaust og sendu aðeins mótmælaskjal. Samin var ný stjórnarskrá í skyndi og kallaði héraðið sig nú Lýðveldið og kantónan Neuchâtel. 2. september 1856 gerðu konungssinnar hliðhollir Prússlandi gagnbyltingu og hertóku kastalann í Neuchâtel. Þar flögguðu þeir prússneska svart/hvíta fánanum. 4. september söfnuðu lýðveldissinnar saman her og gerðu árás á kastalann. Konungssinnar voru sigraðir og leiðtogum þeirra varpað í fangelsi. Við þetta gat Prússakonungur ekki sætt sig við og heimtaði að öllum uppreisnarmönnum yrðu gefnar upp sakir. Þegar ekki var orðið við þeirri kröfu, hótaði Friðrik Vilhjálmur IV Prússakonungur stríði á hendur Sviss. Svisslendingar sjálfir undirbjuggu sig fyrir stríð og settu herflokka við Rínarfljót í norðri landsins. Napoleon III frá Frakklandi tókst að sætta andstæðar fylkingar í júní ári síðar. Prússar hættu öllu tilkalli til Neuchâtel, en Svisslendingar slepptu öllum byltingarmönnum úr fangelsi.
Frekar lítið bar á iðnbyltingunni í Neuchâtel. Kantónan er mikið landbúnaðarhérað.
Borgir
[breyta | breyta frumkóða]Stærstu borgir Neuchâtel:
Röð | Borg | Íbúar | Ath. |
---|---|---|---|
1 | La Chaux-de-Fonds | 37 þús | |
2 | Neuchâtel | 32 þús | Höfuðborg kantónunnar |
3 | Le Locle | 10 þús |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Kanton Neuenburg“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt maí 2011.