Fara í innihald

Landsfeður Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málverk af nokkrum landsfeðrum Bandaríkjanna að undirrita sjálfstæðisyfirlýsinguna árið 1776.

Með hugtakinu Landsfeður Bandaríkjanna er yfirleitt átt við þá stjórnmálamenn sem tóku þátt í samningu tveggja grundvallarskjala Bandaríkjanna, Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna árið 1776 eða Stjórnarskrár Bandaríkjanna á árunum 1788-89. Í Bandaríkjunum er stundum gerður greinarmunur er stundum gerður á þessum tveimur hópum með því að vísa til þeirra sem sömdu sjálfstæðisyfirlýsinguna sem „the signers“ og þeirra sem sömdu stjórnarskrána sem „the framers“.

Uppruni hugtaksins

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstur til að nota hugtakið landsfeður Bandaríkjanna var Warren G. Harding árið 1916. Harding notaði hugtakið nokkrum sinnum á næstu árum, meðal annars í ræðu sem hann flutti er hann sóð embættiseið sem forseti Bandaríkjanna, 1921.

Skilgreining

[breyta | breyta frumkóða]

Sagnfræðingar notast yfirleitt við mun breiðari skilgreiningu á hugtakinu landsfeður. Í stað þess að vísa einvörðungu til stjórnmálamanna sem sátu á Öðru meginlandsþingi Bandaríkjanna sem samdi og samþykkti sjálfstæðisyfirlýsinguna eða Sambandsþinginu sem samdi og samþykkti Stjórnarskrá Bandaríkjanna, tala sagnfræðingar ekki aðeins um alla þá stjórnmálamenn, lögspekinga og blaðamenn sem tóku þátt í umræðum um þessi skjöl sem landsfeður Bandaríkjanna, heldur líka alla þá sem börðust í bandarísku byltingunni eða tóku með öðrum hætti þátt í því að leggja grunn að sjálfstæði Bandaríkjanna. Að undanförnu hefur hugtakið landsfeður sætt gagnrýni á þeim forsendum að það sé óeðlilega karllægt og geri lítið úr hlut kvenna við stofnun Bandaríkjanna. Í því sambandi hefur verið talað um landsmæður en margir sagnfræðingar og stjórnmálamenn tala nú orðið einfaldlega um stofnendur Bandaríkjanna (e: The Founders).

Sjö mikilvægustu landsfeðurnir, að mati bandaríska sagnfræðingsins Richard B. Morris eru: Benjamin Franklin, George Washington, John Adams, Thomas Jefferson, John Jay, James Madison, og Alexander Hamilton. Meðal annarra þekktra landsfeðra Bandaríkjanna má nefna Samuel Adams, og John Hancock.

  • Beneke, Chris, „The New, New Political History“, Reviews in American History, 33:3 (September 2005), bls. 314-324.
  • Isenberg, Nancy, „Founding Mothers, Myths, and a Martyr“, Journal of Women's History 19:3, (2007), bls. 185-194.
  • Morris, Richard B. Seven Who Shaped Our Destiny: The Founding Fathers as Revolutionaries, (New York 1973).