Fara í innihald

Kjörmannaráð (Bandaríkin)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kjörmannaráð (e. Electoral College) hefur það eiginlega hlutverk að kjósa um það hver verður Forseti Bandaríkjanna á fjögurra ára fresti. Þetta kjörmannaráð sitja 538 manns og er það samanlagður fjöldi allra þingmanna og öldungadeildaþingmanna ríkjanna 50. Þeir eiga, strangt til getið að kjósa eftir vilja síns ríkis sem fram kemur í kosningum þriðjudaginn eftir fyrsta mánudaginn í nóvember fjórða hvert ár[1]. Þetta gerir það að verkum að Forseti Bandaríkjanna er ekki kosinn í beinni kosningu heldur er ætlunin sú að þessir kjörmenn endurspegli vilja þjóðarinnar þegar að það kemur að því að kjósa forsetann í raun og veru. Þessi kosning fer fram fyrsta mánudaginn eftir annan miðvikudaginn í desember eftir almenningskosningarnar. Þá hittast kjörmenn hvers fylkis og kasta atkvæði sínu um það hver skal verða Forseti og hver verður Varaforseti Bandaríkjanna [2]. Til þess að verða Forseti verður frambjóðandinn að hljóta 270 af 538 atkvæðum og getur það gerst, og hefur það gerst a.m.k. 5 sinnum í sögunni, að sá sem vinnur vinsældarkosninguna tapar hinni raunverulegu kosningu. Það er reyndar um 5% líkur á því að vinsælli frambjóðandinn tapi hinni raunverulegu kosningu og gerðist það síðast árið 2016 þegar að Donald Trump sigraði Hillary Clinton þrátt fyrir að Clinton hefði hlotið um þremur milljónum fleiri atkvæði.[3][4]

Í langflestum ríkjum gildir sú regla að sá forsetaframbjóðandi sem vinnur ríkið fái alla kjörmenn ríkisins hvort sem úrslitin ráðist á örfáum atkvæðum eða miljónum atkvæða. Kjörmenn geta greitt atkvæði í andstöðu við úrslit kosninga en það heyrir til undantekninga að slíkt gerist þar sem mörg ríki hafa sett viðurlög við því. Það hefur þó nokkrum sinnum gerst en aldrei hafa þeir verið nógu margir til að snúa við úrslitum kosninga.

Ef hvorugur frambjóðandinn nær 270 kjörmönnum þarf Fulltrúadeild Bandaríkjaþings að kjósa forsetann þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði og síðan þarf Öldungadeild Bandaríkjaþings að kjósa varaforsetann þar sem allir öldungadeildarþingmenn hafa eitt atkvæði. Ef frambjóðendur flokkanna tveggja fá 269 kjörmenn hvor mun Fulltrúadeildin kjósa á milli þeirra tveggja en ef frambjóðandi utan stóru flokkanna tveggja fær nógu mörg atkvæði til að koma í veg fyrir að annar hvor frambjóðandinn geti fengið meirihluta kjörmanna þarf Fulltrúadeildin að kjósa á milli þeirra þriggja frambjóðenda sem fengu flest kjörmannaatkvæði. Í þessum aðstæðum mun Öldungadeildin kjósa á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem fengu flest atkvæði til varaforseta sama á hvorn veginn kosningin væri.

Eftir að kjörmenn hafa allir kosið og báðar þingdeildir hafa talið atkvæðin er forsetinn svarinn í embætti þann 20. janúar árið eftir.[5].

Skekkja í kjörmannaráðinu

[breyta | breyta frumkóða]

Eins og fram hefur komið þá er forsetinn kjörinn af kjörmannaráðinu og það þarf 270 kjörmenn til að sigra kosningarnar. Sú regla um að sá frambjóðandi sem vinnur ríki fái alla kjörmenn ríkisins hefur gert það að verkum að það getur skapast veruleg skekkja á milli hlutfalls atkvæða á landsvísu og fjölda kjörmanna sem forsetaframbjóðandi fær. Það hefur gerst fimm sinnum að forseti Bandaríkjanna var kjörinn á færri atkvæðum á landsvísu en það gerðist síðast 2016 þegar Donald Trump var kjörinn forseti þrátt fyrir að Hillary Clinton hafi fengið 2,8 miljón fleiri atkvæði á landsvísu.[6]

Reglur um búsetu forsetaefnis og varaforsetaefnis

[breyta | breyta frumkóða]

Það er ekkert sem bannar forsetaefni að velja varaforsetaefni sem býr í sama ríki og viðkomandi en hins vegar er kveðið á um í stjórnarskrá Bandaríkjanna að kjörmenn megi ekki kjósa tvo einstaklinga sem búa í sama ríki og þeir sjálfir. Fyrir kosningarnar 2000 bjuggu George W. Bush og Dick Cheney báðir í Texas en Cheney flutti lögheimili sitt til Wyoming til þess að forðast slíkar lagaflækjur. Hefði Cheney ekki gert það þá hefði hann getað lent í að geta ekki fengið nein kjörmannaatkvæði frá Texas sem hefði gert það að verkum að hann fengi ekki meirihluta kjörmanna til varaforsetakjörs.

Jafntefli í kjörmannaráðinu

[breyta | breyta frumkóða]

Kjörmenn eru 538 talsins og til að sigra kosningarnar þarf forsetaframbjóðandi að fá 270 kjörmenn. Það getur komið upp sú staða að báðir forsetaframbjóðendur fái 269 kjörmenn eða að frambjóðandi utan stóru flokkanna tveggja fái nógu marga kjörmenn til að koma í veg fyrir að frambjóðandi nái meirihluta kjörmanna. Ef þessi staða kemur upp þá þarf Fulltrúadeild Bandaríkjaþings að kjósa forsetann þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði (sem ræðst af því hvor flokkurinn er með fleiri þingmenn í því ríki) og síðan þarf Öldungadeildin að kjósa Varaforsetann þar sem allir öldungadeildarþingmenn hafa eitt atkvæði. Ef báðir forsetaframbjóðendur fá 269 kjörmenn þá kýs Fulltrúadeildin á milli þeirra tveggja frambjóðenda en ef frambjóðendur utan stóru flokkanna tveggja fá nógu marga kjörmenn til að koma í veg fyrir að einn frambjóðandi nái meirihluta þá þarf Fulltrúadeildin að kjósa á milli þeirra þriggja sem fengu flesta kjörmenn. Öldungadeildin kýs hinsvegar eingöngu á milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði til varaforseta. Ekki er ljóst hvort varaforseta Bandaríkjanna sé heimilt að beita oddaatkvæði ef atkvæði falla á jöfnu í slíkri atkvæðagreiðslu.

Ef þessi staða kemur upp þá getur það gerst að forseti og varaforseti séu kjörin úr sitthvorum stjórnmálaflokknum, þá ef einn flokkurinn er með fleiri fulltrúadeildarþingmenn í fleiri ríkjum en hinn flokkurinn er með meirihluta í Öldungadeildinni. Ef ekki tekst að kjósa forseta fyrir 20. janúar þá myndi varaforseti taka tímabundið við embættisskyldum forseta. Ef ekki tekst að kjósa varaforseta fyrir 20. janúar þá er forseti Fulltrúadeildarinnar fyrstur í erfðaröð forsetaembættisins og gæti þurft að taka tímabundið við embættisskyldum forseta ef ekki næst að kjósa forseta og varaforseta.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. www.archives.gov. „What is the Electoral college?“. Sótt 11.nóvember 2014.
  2. www.archives.gov. „What is the Electoral College?“. Sótt 11.nóvember 2014.
  3. „Clinton fékk nærri þremur milljónum fleiri atkvæði en Trump“. Kjarninn. 8. janúar. Sótt 22. desember 2019.
  4. C.G.P. Grey. „The Trouble With the Electoral College“. Sótt 11.nóvember 2014.
  5. www.archives.gov. „What is the Electoral College?“. Sótt 11.nóvember 2014.
  6. „How Trump won the White House in 2016 despite losing the popular vote: Here's how US electoral college works“. WION (bandarísk enska). 3. október 2024. Sótt 25. október 2024.
  Þessi stjórnmálagrein sem tengist Bandaríkjunum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.