J. R. R. Tolkien
John Ronald Reuel Tolkien (3. janúar 1892 – 2. september 1973) var enskur málvísindamaður og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir skáldsögurnar sínar The Lord of the Rings og The Hobbit, eða Hringadróttinssögu og Hobbitann, eins og þær nefnast á íslensku.
Tolkien fæddist í Suður-Afríku og varði þar fyrstu þremur árum sínum, þangað til hann flutti til Englands með móður sinni og bróður. Þau voru fátæk og því buðust bræðrunum fá tækifæri. Tolkien sannaði þó snemma hversu góður námsmaður hann var. Tolkien stundaði nám við háskólann í Oxford og eftir að hafa lokið námi þaðan fór hann með breska hernum á vígstöðvar í Frakklandi en fyrri heimsstyrjöldin geisaði um þessar mundir.
Fræðimennska hans sneri fyrst og fremst að fornensku og enskum bókmenntum. Tolkien starfaði sem prófessor í enskum málvísindum, fyrst við háskólann í Leeds og síðar við Oxford-háskóla. Eftir að fyrri heimsstyrjöldina fór hann að sinna ritstörfum. Tolkien var þekktur fyrir frjótt ímyndunarafl sem að birtist í ævintýrum hans. Þekktustu verk hans er barnaævintýrið Hobbitinn og framhald þess, þríleikurinn Hringadróttinssaga. Tolkien lést í Oxford árið 1973, 81 árs gamall.
Tvær bækur komu út að honum látnum, Silmerillinn og The Children of Húrin. Sonur Tolkiens, Christopher Reuel Tolkien sá um að setja saman heilstæðar sögur úr gífurlegu ritsafni Tolkiens og náði að koma saman tveimur bókum. Tolkien sjálfur var haldinn talsverðri fullkomnunaráráttu og gat ekki með nokkru móti sent frá sér efni nema það væri algjörlega fullkomið. Þess vegna náði hann ekki að gefa þetta út sjálfur áður en hann lést. Honum vannst einfaldlega ekki tími til þess.
Uppvaxtarárin
[breyta | breyta frumkóða]Á seinni hluta 19. aldar flutti maður að nafni Arthur Tolkien til smábæjarins Bloemfontein í Suður-Afríku. Honum hafði verið boðið starf í banka þar í landi, fljótlega tókst honum að klífa metorðastigann og gat þá boðið æskuástinni sinni, Mabel Suffield, að koma og búa hjá sér. Þann 3. janúar árið 1892 fæddist þeim sonur, hann var nefndur John Ronald Reuel Tolkien.[1]
Barnæskan í Afríku var mjög frábrugðin því sem önnur ensk börn upplifðu heima á Bretlandi. Móður Johns leið ekki vel með syni sína í þessu umhverfi og því fluttust hún, John og bróðir hans, Hilary, aftur til Birmingham á Englandi árið 1895. Arthur kom ekki með því hann var hræddur um að missa stöðu sína í bankanum.[2]
Fyrst um sinn hafðist fjölskyldan við hjá systur Mabelar sem að bjó í litlu húsnæði í iðnaðarhverfi í Birmingham. Eftir að fjölskyldan fékk fréttir af því að Arthur hefði látist eftir skammvinn en erfið veikindi fluttist hún í lítið fallegt hús í smáþorpinu Sarhole, rétt fyrir utan borgina. Móðir drengjanna kenndi þeim heima og tók strax eftir því að John var efni í mikinn bókaorm. Þar má segja að John hafi byrjað að blómstra.[3] En Adam var ekki lengi í paradís því samfélagið á þessum tíma var ekki sniðið fyrir einstæða móður með 2 börn. Drengirnir áttu fá tækifæri í skóla og þurftu oftar en ekki að taka pásur í náminu vegna peningaskorts. Árið 1903 fékk John styrk til að stunda nám við King Edwards skólann, sem hann þurfti þó að yfirgefa þegar móðir hans veiktist. John hafði svo mikinn áhuga á námi að þegar hann var ekki í skóla las hann mikið sjálfur.[4]
Árið 1904, þegar John var einungis 12 ára, lést Mabel móðir hans úr sykursýki. Drengirnir voru þá orðnir munaðarlausir en fluttu til frænku sinnar, þar sem þeir fengu húsaskjól og mat og gátu sótt skóla þaðan.[5] Bræðurnir áttu gott samband við kaþólskan prest, séra Francis Xavier Morgan, sem hafði reynst þeim og móður þeirra afskaplega vel. Þetta góða samband við prestinn olli því að Tolkien var alla tíð einlægur fylgismaður kaþólskrar trúar.[6]
Þegar Tolkien var 16 ára kynntist hann tilvonandi eiginkonu sinni, Edith Bratt. Hún bjó þá á sama heimili og Tolkien bræðurnir. Þau felldu snemma hugi saman og eyddu miklum tíma saman. Í fyrstu hafði enginn neitt að segja við þessu sambandi en þegar fór að nálgast þann tíma að Tolkien ætti að taka inntökupróf í Oxford-háskólann bannaði séra Francis, sem var forráðamaður drengjanna, honum að eiga í samskiptum við Edith þangað til hann væri orðinn lögráða. Í millitíðinni átti hann að einbeita sér að náminu.[7]
Náms- og stríðsárin
[breyta | breyta frumkóða]Tolkien féll á inntökuprófinu í fyrsta skipti sem hann reyndi, en komst inn í annað skiptið með glæsibrag sem tryggði honum skólastyrk. Auk þess fékk hann styrk frá King Edwards skólanum sem hann stundaði áður nám við og frá forráðamanni sínum, séra Francis.[8]
Tolkien byrjaði að nema klassísk fræði við Exester háskólann í Oxford. Það nám hentaði honum þó ekki mjög vel og hann skipti seinna, í samráði við kennara sína yfir í enska tungu og bókmenntir. Þá var hann kominn á rétta braut og fann sig afskaplega vel við að rýna í uppruna enskrar tungu.[9] Tolkien útskrifaðist með fyrstu einkunn frá háskólanum árið 1915.
Fyrri heimsstyrjöldin hófst í júní árið 1914 og margir nemendur í Oxford gengu í breska herinn svo heldur tómlegra var á skólalóðinni á síðasta ári Tolkiens. Hann kláraði námið en þurfti strax eftir það að fara í æfingabúðir fyrir hermenn. Hann, sem menntamaður, var gerður að undirforingja í hersveit.[10] Árið 1916 var Tolkien sendur til vígstöðvanna í Frakklandi. Stuttu eftir komuna þangað var hann og hans deild send til Somme. Þar starfaði Tolkien sem merkjamaður en barðist einnig í skotgröfunum. Eins og fyrir flesta var stríðið Tolkien mjög erfitt. Hann hafði séð marga deyja, drepið sjálfur og það sem honum fannst verst, misst einhvern nákominn sér.[11] Eftir að hafa dvalist í Frakklandi í fimm mánuði fékk Tolkien skotgrafarveiki, sem var hitasótt af völdum bakteríusýkingar og var í kjölfarið fluttur heim til Englands.[12]
Tolkien og Edith Bratt
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að parið sameinaðist á ný þegar Tolkien náði lögræðisaldri var samband þeirra enginn dans á rósum. Það olli strax nokkurri togstreitu á milli þeirra að Tolkien var gallharður kaþólikki en Edith var alin upp við ensku biskupakirkjuna sem Tolkien fyrirleit. Edith samþykkti þó að skipta um trú og árið 1914 var hún tekin inn í rómversk-kaþólsku kirkjuna.[13]
Tolkien og Edith ákváðu að gifta sig áður en hann hélt til Frakklands í stríð, þau giftu sig þann 22. mars árið 1916.[14] Eftir að Tolkien kom heim úr stríðinu tók í hönd tími mikillar óvissu. Unga parið var hrætt því það vissi ekki hvað framtíðin bar í skauti sér en voru samt sem áður nokkuð hamingjusöm, þau höfðu nú meiri tíma fyrir hvort annað en þau höfðu nokkurn tímann átt. Edith varð ólétt af þeirra fyrsta barni og þann 16. nóvember 1917 fæddist sonur þeirra, John Francis Reuel.[15]
Enn og aftur var dvöl þeirra í paradís ekki löng. Þangað til stríðinu lauk var Tolkien í sífellu kallaður út og suður um England í herbúðir. Það olli því að hann náði sér aldrei almennilega af veikindunum, lenti nokkru sinnum á sjúkrahúsi og fjölskyldan þurfti sí og æ að flytja.[16]
Við stríðslok var þungu fargi létt af Tolkien fjölskyldunni eins og svo mörgum öðrum. Fjölskyldan flutti til Oxford þar sem Tolkien hafði boðist starf sem málvísindamaður við gerð orðabókar. Þá var líf fjölskyldunnar komið í nokkuð fastar skorður þó hún hafi reyndar flutt nokkru sinnum eftir þetta. Tolkien bauðst staða í kennslu við háskólann í Leeds. Þar meðfram kennslu stofnaði hann með öðrum Viking Club þar sem Íslendingasögur voru lesnar og sunguð var á fornum málum. Eftir það starfaði hann sem prófessor við háskólann í Oxford í 34 ár.[17]
Hjónin Edith og Tolkien eignuðust fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur. Þau hétu John Francis, Michael Hilary, Christopher John og Priscilla Mary Anne.[18]
Skáldastörf
[breyta | breyta frumkóða]Börn Tolkiens frjóvguðu huga hans. Hann skrifaði ýmis ævintýri fyrir þau og jákvætt viðmót þeirra til ævintýranna varð honum hvatning til að gera meira. Ævintýrin sem hann sagði börnum sínum voru létt og falleg en meðfram því skrifaði hann líka sögur um ýmsar drungalegar verur. Eitt af þessum ævintýrum átti eftir að vekja sérstaklega mikla lukku, árið 1937 kom Hobbitinn út. Hobbitinn var barnaævintýri sem varð til í hugarheimi Tolkiens þegar hann var að fara yfir próf hjá nemendum. Sú bók átti sér framhald í þríleiknum Hringadróttinssögu, sögurnar þrjár komu út á árunum 1954-5. Nokkur önnur verk liggja eftir Tolkien en engin hafa náð jafn miklum vinsældum og þessi fjögur.[19][20]
Fáir rithöfundar í gegnum tíðina geta státað sig af jafn litríku ímyndunarafli og J.R.R.Tolkien. Bækur hans eru enn mjög vinsælar og eiga eflaust aldrei eftir að gleymast. En skáldargáfa hans var honum þó ekki alveg meðfædd, hann átti strembna ævi en var algjör grúskari og bókaormur. Hann sökkti sér algjörlega í bækur og forn rit, talaði mörg tungumál og vann margar rannsóknir á fornum handritum, eins og til dæmis gömlu konungasögunum og íslendingasögunum. Tolkien talaði íslensku og hann og góðvinur hans, C.S. Lewis, höfundur Narniu-ævintýranna, voru saman í leshring í Oxford sem einsetti sér að rýna í íslendingasögurnar.[21][22]
Útgefið efni
[breyta | breyta frumkóða]Á meðan Tolkien var á lífi
[breyta | breyta frumkóða]- 1937 The Hobbit or there and back again (Hobbit, 1978 í þýðingu Úlfs Ragnarssonar og Karl Á. Úlfssonar, og Hobbitinn: eða út og heim aftur, 2012 í þýðingu Þorsteins Thorarensen)
- 1945 Leaf by Niggle,
- 1947 On Fairy-Stories ,
- 1949 Farmer Giles of Ham (Gvendur bóndi á Svínafelli, 1979, í þýðingu Ingibjargar Jónsdóttur)
- 1954 The Fellowship of the Ring (Föruneyti Hringsins, bindi 1 af Hringadróttinssögu, 1993 í þýðingu Þorsteins Thorarensen)
- 1954 The Two Towers (Tveggjaturna-tal, bindi 2 af Hringadróttinssögu, 1994 í þýðingu Þorsteins Thorarensen)
- 1955 The Return of the King (Hilmir snýr heim, bindi 3 af Hringadróttinssögu, 1995 í þýðingu Þorsteins Thorarensen)
- 1962 The Adventures of Tom Bombadil,
- 1964 Tree and Leaf
- 1967 Smith of Wooton Major
- 1967 The Road Goes Ever On
Eftir dauða Tolkiens
[breyta | breyta frumkóða]Tolkien skrifaði um sögu Miðgarðs til dauðadags. Sonur hans, Christopher Tolkien, með aðstoð höfundarins Guy Gavriel Kay, gekk frá nokkrum hluta þess efnis og gaf út sem Silmarillion 1977. Christopher Tolkien hefur einnig gefið út bakgrunnsefni um Miðgarð:
- 1977 The Silmarillion 1978 (Silmerillinn, 1999 í þýðingu Þorsteins Thorarensen)
- 1980 Unfinished Tales
- 1981 The Letters of J. R. R. Tolkien
- 1983 The Monsters and the Critics (greinasafn)
- 2007 The Children of Húrin
Útgefið í seríunni The History of Middle-earth
[breyta | breyta frumkóða]- 1974 Bilbo's Last Song
- 1983 The Book of Lost Tales 1
- 1984 The Book of Lost Tales 2
- 1985 The Lays of Beleriand
- 1986 The Shaping of Middle-earth
- 1987 The Lost Road and Other Writings
- 1988 The Return of the Shadow
- 1989 The Treason of Isengard
- 1990 The War of the Ring
- 1992 Sauron Defeated
- 1993 Morgoth's Ring
- 1994 The War of the Jewels
- 1996 The Peoples of Middle-earth
Eftirfarandi útgáfur er í seríunni The History of The Hobbit:
- 2007 The History of The Hobbit Part One: Mr. Baggins
- 2007 The History of The Hobbit Part Two: Return to Bag-end
Barnabækur sem hann skrifaði fyrir börn sín þar sem sögusviðið var ekki Miðgarður
[breyta | breyta frumkóða]Fræðilegt efni sem ekki fjallaði um Miðgarð
[breyta | breyta frumkóða]- 1975 Sir Gawain and the Green Knight, Pearl, Sir Orfeo (miðaldakvæði þýdd af Tolkien)
- 1982 Finn and Hengest (engilsaxnesk kvæði)
- 2002 Beowulf and the Critics (engilsaxnesk kvæði) (Bjólfskviða : forynjurnar og fræðimennirnir; íslensk þýðing eftir Arndísi Þórarinsdóttur; með inngangi og skýringum eftir Ármann Jakobsson)
- 2009 The Legend of Sigurd & Gudrún (endurskrifað kvæði um fornnorrænu hetjuna Sigurð)
Safn af list Tolkiens, í söguheimi Miðgarðs og utan:
Síðustu árin
[breyta | breyta frumkóða]Tolkien hagnaðist seint af ritstörfum sínum, hann var kominn á gamalsaldur þegar hann græddi á Hringadróttinssögu sem hafði notið vinsælda. Þá fluttu hann og Edith á nýjan stað, í rúmgott hús með stórum garði sem hann dundaði sér við að rækta. Tolkien þótti smámunasamur og oft erfiður í samskiptum.[23]
Árið 1971 varð Edith mjög veik, hún hafði fengið gallblöðrukast og lést 29. nóvember sama ár. Missirinn tók Tolkien þungt en hann flutti til Oxford aftur eftir að yngsti sonur hans, Christopher fann handa honum stað þar til búa á.
Þessi síðustu ár Tolkiens voru nokkuð góð þrátt fyrir konumissinn. Honum leið vel að vera aftur kominn til Oxford og hann hlaut margar viðurkenningar. Hann var meðal annars gerður að heiðursfélaga í háskólasamfélaginu og heiðursdoktor við marga háskóla. Vænst þótti honum um þá nafnbót frá sínum háskóla, Oxford.
Tolkien naut sín einnig við að fá heimsóknir og heimsækja gamla vini og ættingja en heilsufar hans var ekki orðið upp á marga fiska. Hann þjáðist meðal annars af gigt og meltingartruflunum. Eitt sinn var hann í heimsókn hjá gömlum vinum sínum og skemmti sér vel. Um nóttina vaknaði hann hins vegar við sáran verk og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús þar sem kom í ljós svæsið magasár. Þremur dögum síðar lést Tolkien, þann 2. september 1973, þá 81 árs að aldri.[24]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ White, Michael: bls. 20-23
- ↑ White, Michael: bls. 24
- ↑ White, Michael: bls. 26-28
- ↑ White, Michael: bls. 29-33
- ↑ White, Michael: bls. 39
- ↑ White, Michael: bls. 40
- ↑ White, Michael: bls. 43
- ↑ White, Michael: bls. 47
- ↑ White, Michael: bls. 54
- ↑ White, Michael: bls. 65
- ↑ White, Michael: bls. 70-72
- ↑ White, Michael: bls. 73-74
- ↑ White, Michael: bls. 61
- ↑ White, Michael: bls. 67
- ↑ White, Michael: bls. 74-76
- ↑ White, Michael: bls. 76-77
- ↑ Ármann Jakobsson (2002)
- ↑ White, Michael: bls. 242
- ↑ White, Michael: bls. 115-117
- ↑ Hammond, Wayne G.
- ↑ Ármann Jakobsson (2002)
- ↑ Hammond, Wayne G.
- ↑ White, Michael: bls. 207-209
- ↑ White, Michael: bls. 210-211
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Ármann Jakobsson, „Fyrir hvað stendur JRR í nafni Tolkiens?“, Vísindavefur Háskóla Íslands, 20.mars 2002, sótt: 27.febrúar 2010. Vefslóð: http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=2219 Geymt 14 júní 2011 í Wayback Machine
- Hammond, Wayne G., „Tolkien, J.R.R.“, Britannica Online Encyclopedia, sótt: 28. febrúar 2010. Vefslóð: http://search.eb.com/eb/article-9072803
- White, Michael, Tolkien. Ágúst B. Sverrisson íslenskaði. (Reykjavík: PP forlag, 2002).