Fara í innihald

Gulrót

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gulrót
Nokkur afbrigði af gulrót
Nokkur afbrigði af gulrót
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Sveipjurtabálkur (Apiales)
Ætt: Sveipjurtaætt (Apiaceae)
Ættkvísl: Daucus
Tegund:
D. carota

Tvínefni
Daucus carota
L.
Daucus carota subsp. maximus

Gulrót (fræðiheiti: Daucus carota) er rótargrænmeti af sveipjurtaætt. Plöntuhlutinn sem mest er nýttur er stólparótin. Gulrætur eru tvíærar þar sem plantan safnar næringarforða í rótina fyrra árið en blómgast seinna árið. Blómstilkurinn verður um metri á hæð og ber uppi blómsveip með hvítum blómum. Gulrætur finnast í hvítum, fjólubláum, rauðum, gulum og appelsínugulum afbrigðum en við þekkjum appelsínugul afbrigðið best,

Appelsínugulum gulrótum er lýst í riti frá því um 512 e.Kr.

Villtar gulrætur vaxa í mörgum afbrigðum víða á tempruðum svæðum en þær eru best þekktar í Asíu og við Miðjarðarhafið. Talið er að menn hafi nýtt gulrætur sem krydd og til lækninga í mörg þúsund ár og löngu áður en farið var að rækta þær sem rótargrænmeti. Villtar gulrætur eru forfeður þeirra gulróta sem nú eru ræktaðar. Upphaflega voru gulrætur grannar, greinóttar og fölar. Enda höfðu menn í upphafi ekki áhuga á rót plöntunnar, heldur fræjunum.

Að baki gulrótanna eins og við þekkjum þær í dag er margra alda vinna að kynbótum. Talið er að ræktun með áherslu á rót plöntunnar, hafi hafist í Afganistan, Íran og Írak fyrir 1000 árum. Þá voru þær gular eða fjólubláar á litinn. Þegar þær bárust til Evrópu á 14. öld voru afbrigðin gul, hvít og fjólublá. Appelsínugula afbrigðið varð þekkt í Evrópu á 15. öld en allt bendir til að þær hafi komið fram á sjónarvöllinn á 6. öld. Hollendingar tóku appelsínugula afbrigðið að sér og á 19. öld höfðu þeir náð miklum árangri í að rækta fram sætar og stökkar rætur. Í dag er appelsínugula afbrigðið ríkjandi í ræktun gulróta. Fjólublá afbrigði eru enn ræktað í Afganistan og úr þeim bruggað sterkt áfengi.

Sagan segir að Hollendingar hafi ræktað fram appelsínugular gulrætur á 17. öld til heiðurs William Orange sem leiddi sjálfstæðisbaráttu Hollendinga undan spænskum yfirráðum og varð síðan konungur. Ekki eru til neinar heimildir sem styðja við þessa sögu enda var appelsínugula afbrigðið komið fram löngu fyrr.

Notkun í lækningaskyni

[breyta | breyta frumkóða]

Fræ gulrótarplöntunnar voru notuð í lækningaskini meðal annars við sársaukafullum þvaglátum og óreglulegum tíðablæðingum. Í dag eru gulrætur taldar geta bætt meltingu, minnkað náttblindu og gagnast krabbameinsveikum.

Næringargildi

[breyta | breyta frumkóða]

Í gulrótum er mikið af litarefniu beta-karóten. Líkaminn getur notað karoten til að búa til A-vítamín. Auk þess er í gulrótum B- og C-vítamín ásamt mikilvægum steinefnum eins og kalíum, kalki, járni og fosfór. Líkaminn á auðveldara með að taka upp beta-karoten úr gulrótum ef þær eru steiktar eða bakaðar í olíu. Í matreiðslu eru gulrætur notaðar á fjölbreyttan hátt, í salöt, grænmetisrétti, súpur, kökur og búðinga. Gulrætur innihalda sáralitla sterkju. Mjög mikil neysla á gulrótum veldur því að húðin verður appelsínugul.

Gulrætur eru upprunnar í mun hlýrra loftslagi en er á Íslandi. Í gulrótnarækt til heimilisnota verður því að búa svo um að þær fái aukinn varma. Hægt er að nálgast greinagóðar upplýsingar um það hvernig mest er að bera sig að hjá Garðyrkjufélagi Íslands. [1] Bændur rækta gulrætur í sífellt stærra mæli. Árið 2008 voru framleidd 653 tonn af gulrótum á [2]Íslandi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Garðyrkjuritið 1994
  2. Hagtölur landbúnaðarins 2010
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.