Fara í innihald

Filippa af Englandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stytta Filippu drottningar eftir Herman Wilhelm Bissen.

Filippa af Englandi (4. júní 13947. janúar 1430) var ensk konungsdóttir og drotting Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs frá 1406 til dauðadags. Hún var ríkisstjóri Danmerkur og Noregs frá 1423 til 1425.

Filippa var dóttir Hinriks Bolingbroke, sem varð svo Hinrik 4. Englandskonungur, og Maríu de Bohun. Skömmu eftir aldamótin 1400 fóru Hinrik konungur og Margrét Danadrottning að ræða hugsanlegt bandalag milli Englands og Kalmarsambandsins og átti að innsigla það með því að Eiríkur af Pommern, sem þá var orðinn konungur allra Norðurlanda þótt Margrét héldi um stjórnartaumana, giftist Filippu og Hinrik prins af Wales, bróðir hennar, giftist Katrínu systur Eiríks.

Af bandalaginu varð ekki því Margrét gat ekki samþykkt þau skilyrði sem Englendingar settu en þó var gengið frá trúlofun Filippu og Eiríks og þau giftust 26. október 1406, þegar Filippa var tólf ára. Hún er fyrsta prinsessa sögunnar sem staðfest er að hafi gift sig í hvítum brúðarklæðum, kyrtli og yfir honum hvítri silkiskikkju bryddaðri með grárum íkorna- og hermelínskinnbryddingum.

Ungu hjónin bjuggu í Kalmar í Svíþjóð fyrstu árin og Filippa átti raunar eftir að eyða miklum hluta drottningarára sinna í Svíþjóð, þar sem henni höfðu hlotnast miklar lendur. Sagt er að hún hafi stýrt Svíþjóð að meira eða minna leyti, hvort sem Eiríkur var þar eða ekki, hún sat í forsæti í sænska ríkisráðinu 1422 þegar skera þurfti úr deilu milli aðalsætta, og þegar Eiríkur ferðaðist um Evrópu og til Jerúsalem á árunum 1423 til 1425 gerði hann hana að ríkisstjóra allra Norðurlandanna á meðan.

Bæði samtímamönnum og seinni tíma fræðimönnum ber saman um að hún hafi staðið sig vel í hlutverki ríkisstjóra og að sumu leyti verið betri stjórnandi en maður hennar. Hún gerði til dæmis samkomulag við Hansaborgirnar Lübeck, Hamborg, Lüneburg og Wismar um sameiginlega myntsláttu. Myntbandalagið var reyndar úr sögunni 1426 þegar átök hófust milli Dana og Hansasambandsins. Árið 1428 stýrði Filippa vörnum Kaupmannahafnar gegn umsátri Hansasambandsins og þótti standa sig mjög hetjulega.

Árið 1429, eftir 23 ára hjónaband, ól Filippa eina barnið sem vitað er til að hún hafi átt og fæddist það andvana. Fæðingin virðist hafa verið henni mjög erfið og rétt eftir áramótin 1430 dó hún í Svíþjóð og var grafin í klausturkirkjunni í Vadstenaklaustri. Hún hafði notið mikilla vinsælda víða um ríki sitt, ekki síst í Kaupmannahöfn, og tóku borgarbúar það mjög óstinnt upp þegar Eiríkur konungur tók Sessilíu hirðmey hennar sem frillu sína.