Fara í innihald

Elinóra af Akvitaníu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Elinóra af Akvitaníu (11221. apríl 1204) var hertogaynja af Akvitaníu, sem hún erfði eftir föður sinn, drottning Frakklands 1137-1152 og síðan drottning Englands 1154-1189. Hún var móðir Ríkharðs ljónshjarta og Jóhanns landlausa. Hún var ein auðugasta og valdamesta kona í Vestur-Evrópu á miðöldum.

Elinóra var elst þriggja barna Vilhjálms 10., hertoga af Akvitaníu, og konu hans, Aenor de Châtellerault. Yngri bróðir hennar dó í bernsku og móðir þeirra um leið en systirin Petrónilla lifði. Hún átti líka tvo óskilgetna hálfbræður. Elinóra var erfingi föður síns en hertogadæmið Akvitanía var stærsta og auðugasta hérað Frakklands og hún var því besti kvenkostur landsins og þótt víðar væri leitað. Faðir hennar var sjálfur vel menntaður listunnandi og kappkostaði að veita dætrum sínum bestu fáanlega menntun. Elinóra talaði og skrifaði latínu, var vel að sér í tónlist og bókmenntum en einnig í reiðlist og veiðum. Hún er sögð hafa verið mjög vel gefin, lífsglöð, mannblendin og sterkur persónuleiki.

Árið 1137 lagði Vilhjálmur hertogi af stað í pílagrímsferð til Santiago de Compostela á Spáni og skildi dætur sínar eftir í umsjá erkibiskupsins í Bordeaux. En hann dó á leiðinni, 9. apríl 1137, og varð Elinóra þá hertogaynja. Vilhjálmur fól í erfðaskrá sinni Loðvík 6. digra Frakkakonungi forræði hennar og bað konung að finna henni hentugan eiginmann. Þar sem hætta var á að Elinóru yrði rænt og hún neydd til að giftast einhverjum sem vildi krækja í auð hennar fól hann förunautum sínum að leyna dauða sínum þar til konungurinn hefði verið látinn vita og Elinóra væri örugg.

Drottning Frakklands

[breyta | breyta frumkóða]

Loðvík digri, sem sjálfur var fárveikur, var ekki seinn á sér að grípa tækifærið. Ríkisarfinn, Loðvík sonur hans, var ókvæntur og innan fárra klukkustunda var hann lagður af stað til Bordeaux með fríðu föruneyti og þann 25. júlí 1137 voru þau Elinóra gefin saman þar. Um leið varð Loðvík hertogi af Akvitaníu við hlið Eleónóru en þó var það skilyrði sett að hertogadæmið héldi sjálfstæði sínu þar til elsti sonur Elinóru hefði tekið við bæði hertogadæminu og frönsku krúnunni. Þann 1. ágúst dó svo Loðvík digri og Loðvík 7. varð konungur. Hann var þá 17 ára en Elinóra 15 ára.

Vinstri helmingur myndarinnar sýnir brúðkaup Elinóru og Loðvíks; á þeim hægri sést Loðvík leggja af stað í krossferðina.

Ungu konungshjónin áttu ekki vel saman. Loðvík var vel menntaður en strangtrúaður og siðavandur, enda hafði honum verið fyrirhugaður frami innan kirkjunnar, þar til eldri bróðir hans dó óvænt. Elinóra á einhvern tíma að hafa sagt: „Ég hélt að ég hefði gifst konungi en ég giftist munki.“ Elinór var ekki vinsæl við hirðina, þótti léttúðug og ekki nægilega alvörugefin.

Loðvík var þó mjög ástfanginn af konu sinni og lét allt eftir henni. Petrónilla, systir Elinóru, hafði fylgt henni og var í tygjum við aðalsmann nokkurn, Raoul af Vermandois, en sá hængur var að hann var giftur Elinóru, systur Teóbalds greifa af Champagne og Stefáns Englandskonungs. Að beiðni Elinóru leyfði Loðvík Raoul að segja skilið við konu sína og giftast Petrónillu en fyrir það voru þau bannfærð af páfanum og Loðvík átti í tveggja ára stríði við Teóbald greifa.

Árið 1145 ákvað Loðvík að taka sjálfur þátt í Annarri krossferðinni og Elinóra krafðist þess að fara með. Þau komust til Antiokkíu eftir mikið harðræði - Loðvík hafði meðal annars sloppið naumlega þegar Tyrkir slátruðu hluta af her hans af því að hann var klæddur hversdagslegum kufli eins og pílagrímur en einkennisklæddir lífverðir hans voru strádrepnir. Í Antiokkíu réði Raymond af Poitiers, föðurbróðir Elinóru, ríkjum og fór ákaflega vel á með þeim, enda höfðu þau verið mjög náin í bernsku, en Raymond var fáeinum árum eldri en Elinóra. Gekk jafnvel orðrómur um að þau væru elskendur en ekkert er nú talið benda til að það sé rétt. Eftir fleiri ósigra franska hersins komust konungshjónin til Jerúsalem og héldu þaðan til Rómar og svo til Frakklands.

Samkomulag Loðvíks og Elinóru fór síversnandi og konungsríkið skorti erfingja - þau áttu tvær dætur en engan son. Elinóra vildi segja skilið við mann sinn og hann samþykkti það loksins. Þann 21. mars 1152 var hjónaband þeirra dæmt ógilt með páfaleyfi á þeiri forsendu að þau væru of skyld til að eigast, en þau voru bæði afkomendur Róberts 2. Frakkakonungs. Dætur þeirra tvær, María og Alix, skyldu þó teljast skilgetnar. Elinóra skyldi jafnframt fá hertogadæmið og aðrar eignir sínar aftur.

Drottning Englands

[breyta | breyta frumkóða]
Elinóra og Hinrik 2.

Elinóra var 32 ára, miðaldra á þeirra tíma mælikvarða, en enn glæsileg kona og hún var á ný orðin einn álitlegasti kvenkostur Vestur-Evrópu. Hún hélt heim til Poitiers en á leiðinni reyndu tveir aðalsmenn, Teóbald 5., greifi af Blois (sem seinna giftist Alix dóttur Elinóru(), og Geoffrey greifi af Nantes (18 ára bróðir Hinriks hertoga af Normandí) að ræna henni í þeim tilgangi að giftast henni og krækja þar með í eignir hennar. Báðar tilraunirnar mistókust en 18. maí 1152, sex vikum eftir að hjónaband Elinóru og Loðvíks var ógilt, giftist hún Hinrik hertoga af Normandí. Hann var um 11 árum yngri en hún og skyldari henni en Loðvík hafði verið. Áður hafði komið til greina að Hinrik giftist Maríu, eldri dóttur Elinóru, en það var þá ekki talið koma til greina vegna skyldleika þeirra; hins vegar sagði enginn neitt þegar hann giftist móður hennar, sem var þó skyldari honum.

Hinrik varð konungur Englands 25. október 1154 og Elinóra drottning. Þau eignuðust saman fjóra syni og þrjár dætur sem lifðu til fullorðinsára. Hjónabandið var sagt mjög stormasamt. Hinrik var kvennabósi og átti hjákonur og nokkur börn með þeim en þekktust ástkvenna var Rosamund Clifford eða Rósamunda fagra. Þegar Rosamund dó fóru af stað miklar sögur um að Elinóra hefði byrlað henni eitur en enginn fótur er talinn vera fyrir þeim.

Í desember 1167, ári eftir fæðingu yngsta barnsins, Jóhanns, hélt Elinóra til Akvitaníu og bjó um sig í Poitiers, þar sem hún og María dóttir hennar höfðu um sig Ástarhirðina svonefndu, miðstöð riddaramennsku og rómantíkur, umkringdar trúbadorum og listamönnum. Margar sagnir spunnust um Ástarhirðina en í raun er fátt vitað um hana og jafnvel hefur verið dregið í efa að hún hafi í raun verið til.

Í mars 1173 efndi Hinrik ungi, elsti sonur Elinóru og Hinriks, til uppreisnar gegn föður sínum. Yngri bræður hans, Ríkharður og Geoffrey, höfðu verið hjá móður sinni í Akvitaníu og nú sendi hún þá til að leggja bróður sínum lið gegn föðurnum og hvatti aðalsmenn í Akvitaníu til að styðja þá. Sjálf fór hún á eftir en menn konungs náðu henni á liðinni og sendu hana til Hinriks 2. sem staddur var í Rouen. Allt næsta ár vissi enginn hvar drottningin var en á meðan braut Hinrik mótspyrnu sonanna á bak aftur. Elinóra var svo flutt til Englands og höfð í stofufangelsi næstu fimmtán árin, eða meðan Hinrik lifði. Hún fékk þó stundum að koma aftur til hirðarinnar, til dæmis um jólin, en sá syni sína sjaldan.

Ekkjudrottning

[breyta | breyta frumkóða]

Hinrik ungi dó 1183 og var það Elinóru mikið áfall en hún hélt þó enn meira upp á Ríkharð, sem hafði aðsetur í Akvitaníu. Um sama leyti fékk hún aukið frelsi og ferðaðist stundum með manni sínum en var þó alltaf undir eftirliti. Hinrik dó 6. júlí 1189 og Ríkharður tók við krúnunni. Eitt fyrsta verk hans var að senda skipun til Englands um að sleppa Elinóru úr haldi en gæslumenn hennar höfðu þá þegar gefið henni frelsi. Hún hélt til London og tók við stjórn ríkisins þar til Ríkharður kom til landsins. Fáeinum mánuðum síðar hélt Ríkharður af stað í Þriðju krossferðina og gerði móður sína að ríkisstjóra. Þegar hann var á heimleið 1192 handsamaði Leópold hertogi af Austurríki hann og seldi hann síðar í hendur Hinriks 6. keisara. Elinóra fór til Þýskalands og samdi um lausn hans gegn geysiháu gjaldi en henni tókst að afla peninganna með þungum skattaálögum og gat keypt Ríkharð lausan 1194.

Ríkharður varð fyrir örvarskoti þegar hann sat um kastala uppreisnarmanna í Frakklandi og dó úr blóðeitrun 6. apríl 1199 í örmum móður sinnar. Jóhann landlausi bróðir hans tók við konungdæminu. Hann gerði friðarsamning við Filippus 2. Frakkakonung og í honum fólst meðal annars að Loðvík, krónprins Frakklands, skyldi giftast einni af dætrum Elinóru drottningu af Kastilíu, systur Jóhanns. Konungur sendi Elinóru móður sína, 77 ára gamla til Kastilíu til að velja úr prinsessunum. Hún var handsömuð á leiðinni af einum af fjandmönnum Plantagenetættar en tókst að fá sig lausa og komast alla leið til Kastilíu. Þar valdi hún Blönku, ellefu ára dótturdóttur sína, sem brúði franska prinsins og hélt síðan með hana til baka yfir Pýreneafjöllin en komst ekki lengra en til Bordeaux, þar var hún orðin örmagna og fékk erkibiskupinn í Bordeaux til að fylgja Blönku á leiðarenda. Sjálf hélt hún í Fontevraud-klaustur í Loiredalnum og dvaldist þar við fremur bága heilsu.

gröf Elinóru og Hinriks 2. í Fontevaud.

Árið 1201 braust út stríð milli Jóhanns og Filippusar Frakkakonungs. Elinóra studdi Jóhann og fór frá Fontevraud til Poitiers til að hindra sonarson sinn, Arthúr hertoga af Bretagne, í að leggja Akvitaníu undir sig en Arthúr gerði tilkall til ensku krúnunnar og raunar réttilega, þar sem Geoffrey faðir hans hafði verið eldri en Jóhann. Arthúr frétti af ferð ömmu sinnar og gerði umsátur um Mirabeau-kastala, þar sem hún var þá stödd. Jóhann kom þar að, handsamaði Arthúr og varpaði honum og Elinóru systur hans í fangelsi, þar sem Arthúr hvarf 1203 en systirin var höfð í haldi til dauðadags, eða í fjörutíu ár.

Elinóra amma þeirra fór aftur til Fontevraud og gerðist nú nunna. Hún lést 1204 og var grafin í klaustrinu, við hlið Hinriks manns síns og Ríkharðs sonar sins. Þegar hún dó, 82 ára að aldri, voru öll börn hennar látin nema Jóhann og Elinóra Kastilíudrottning.