Chan Santokhi
Chan Santokhi | |
---|---|
Forseti Súrínam | |
Núverandi | |
Tók við embætti 16. júlí 2020 | |
Varaforseti | Ronnie Brunswijk |
Forveri | Desi Bouterse |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 3. febrúar 1959 Lelydorp, Súrínam |
Þjóðerni | Súrínamskur |
Stjórnmálaflokkur | Framfarasinnaði umbótaflokkurinn |
Maki | Melissa Seenacherry (g. 2020) |
Chandrikapersad Santokhi, almennt kallaður Chan Santokhi (f. 3. febrúar 1959) er súrínamskur stjórnmálamaður og fyrrum lögreglustjóri. Hann hefur verið forseti Súrínam frá 16. júlí 2020.[1]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að hafa lokið grunnskólanámi sínu í Paramaribo hlaut Santokhi styrk til framhaldsnáms í Hollandi. Hann gekk í lögregluháskóla í Apeldoorn frá 1978 til 1982. Að loknu námi sneri Santokhi aftur til Súrínam í september 1982 til að hefja störf í lögreglunni. Þegar hann var 23 ára var Santokhi útnefndur yfirmaður í lögreglunni í héraðinu Wanica. Árið 1989 var hann útnefndur yfirmaður rannsóknarlögregludeildar landsins. Árið 1991 var hann hækkaður í tign og gerður lögreglustjóri.[2]
Í september árið 2005 var Santokhi útnefndur dóms- og lögreglumálaráðherra sem meðlimur Framfarasinnaða umbótaflokksins. Ráðherratíð hans einkenndist af harkalegri baráttu gegn glæpastarfsemi, sér í lagi gegn eiturlyfjaverslun í landinu. Desi Bouterse gaf Santokhi gælunafnið „fógetinn“.
Santokhi stýrði jafnframt rannsóknum á desembermorðum ársins 1982 í byrjun ráðherratíðar sinnar og setti á fót sérstakan dómstól í úthverfum Domburg til að fjalla um málið.[3]
Í þingkosningum ársins 2010 hlaut Santokhi flest atkvæði allra frambjóðanda fyrir utan Desi Bouterse þrátt fyrir að skipa sæti fremur neðarlega á kosningalista Framfarasinnaða umbótaflokksins. Í júlí sama ár var Santokhi útnefndur forsetaframbjóðandi Nýju fylkingarinnar, kosningabandalags sem Framfarasinnaði umbótaflokkurinn átti aðild að. Í forsetakosningum þingsins var Santokhi mótframbjóðandi Desi Bouterse, sem var að endingu kjörinn forseti.
Frá árinu 1995 var Santokhi fulltrúi Fíknivarnarnefndar Ameríkuríkja (CIDAD), sjálfstæðrar stofnunar á vegum Samtaka Ameríkuríkja sem vinnur gegn fíkniefnaverslun í Ameríku. Árið 2009 varð Santokhi varaforseti stofnunarinnar og síðan forseti næsta ár.[4]
Þann 3. júlí árið 2011 var Santokhi kjörinn forseti Framfarasinnaða umbótaflokksins (VHP). Flokkurinn hafði í upphafi aðallega verið flokkur landsmanna af indverskum uppruna en frá því að Santokhi varð flokksleiðtogi hefur flokkurinn náð breiðari skírskotun til annarra fólkshópa í Súrínam.
Eftir þingkosningar í maí árið 2020 vann Framfarasinnaði umbótaflokkurinn tuttugu af 51 þingsæti og varð stærsti flokkurinn á súrínamska þinginu. Þann 13. júlí árið 2020 var Santokhi einn í framboði þegar kosið var um forseta landsins á þinginu. Santokhi var því sjálfkjörinn forseti þann 16. júlí árið 2020.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Live blog: Inauguratie president en vicepresident“. De Ware Tijd (hollenska). Afrit af upprunalegu geymt þann 9 október 2020. Sótt 16. júlí 2020.
- ↑ Stieven Ramdharie (10. febrúar 2007). „De meest bedreigde man van Suriname“ (höllenska). de Volkskrant. Sótt 23. ágúst 2020.
- ↑ „Proces Decembermoorden wordt hervat“. Nederlands Dagblad (hollenska). Sótt 26. maí 2020.
- ↑ „Breaking news: Santokhi gekozen tot CICAD-voorzitter“ (hollenska). Starnieuws. 6. desember.
- ↑ „Live blog: Verkiezing president en vicepresident Suriname“. De Ware Tijd (hollenska). Afrit af upprunalegu geymt þann 15 janúar 2021. Sótt 13. júlí 2020.
Fyrirrennari: Desi Bouterse |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |