Fara í innihald

Chan Santokhi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Chan Santokhi
Forseti Súrínam
Núverandi
Tók við embætti
16. júlí 2020
VaraforsetiRonnie Brunswijk
ForveriDesi Bouterse
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. febrúar 1959 (1959-02-03) (65 ára)
Lelydorp, Súrínam
ÞjóðerniSúrínamskur
StjórnmálaflokkurFramfarasinnaði umbótaflokkurinn
MakiMelissa Seenacherry (g. 2020)

Chandrikapersad Santokhi, almennt kallaður Chan Santokhi (f. 3. febrúar 1959) er súrínamskur stjórnmálamaður og fyrrum lögreglustjóri. Hann hefur verið forseti Súrínam frá 16. júlí 2020.[1]

Eftir að hafa lokið grunnskólanámi sínu í Paramaribo hlaut Santokhi styrk til framhaldsnáms í Hollandi. Hann gekk í lögregluháskóla í Apeldoorn frá 1978 til 1982. Að loknu námi sneri Santokhi aftur til Súrínam í september 1982 til að hefja störf í lögreglunni. Þegar hann var 23 ára var Santokhi útnefndur yfirmaður í lögreglunni í héraðinu Wanica. Árið 1989 var hann útnefndur yfirmaður rannsóknarlögregludeildar landsins. Árið 1991 var hann hækkaður í tign og gerður lögreglustjóri.[2]

Í september árið 2005 var Santokhi útnefndur dóms- og lögreglumálaráðherra sem meðlimur Framfarasinnaða umbótaflokksins. Ráðherratíð hans einkenndist af harkalegri baráttu gegn glæpastarfsemi, sér í lagi gegn eiturlyfjaverslun í landinu. Desi Bouterse gaf Santokhi gælunafnið „fógetinn“.

Santokhi stýrði jafnframt rannsóknum á desembermorðum ársins 1982 í byrjun ráðherratíðar sinnar og setti á fót sérstakan dómstól í úthverfum Domburg til að fjalla um málið.[3]

Í þingkosningum ársins 2010 hlaut Santokhi flest atkvæði allra frambjóðanda fyrir utan Desi Bouterse þrátt fyrir að skipa sæti fremur neðarlega á kosningalista Framfarasinnaða umbótaflokksins. Í júlí sama ár var Santokhi útnefndur forsetaframbjóðandi Nýju fylkingarinnar, kosningabandalags sem Framfarasinnaði umbótaflokkurinn átti aðild að. Í forsetakosningum þingsins var Santokhi mótframbjóðandi Desi Bouterse, sem var að endingu kjörinn forseti.

Frá árinu 1995 var Santokhi fulltrúi Fíknivarnarnefndar Ameríkuríkja (CIDAD), sjálfstæðrar stofnunar á vegum Samtaka Ameríkuríkja sem vinnur gegn fíkniefnaverslun í Ameríku. Árið 2009 varð Santokhi varaforseti stofnunarinnar og síðan forseti næsta ár.[4]

Þann 3. júlí árið 2011 var Santokhi kjörinn forseti Framfarasinnaða umbótaflokksins (VHP). Flokkurinn hafði í upphafi aðallega verið flokkur landsmanna af indverskum uppruna en frá því að Santokhi varð flokksleiðtogi hefur flokkurinn náð breiðari skírskotun til annarra fólkshópa í Súrínam.

Eftir þingkosningar í maí árið 2020 vann Framfarasinnaði umbótaflokkurinn tuttugu af 51 þingsæti og varð stærsti flokkurinn á súrínamska þinginu. Þann 13. júlí árið 2020 var Santokhi einn í framboði þegar kosið var um forseta landsins á þinginu. Santokhi var því sjálfkjörinn forseti þann 16. júlí árið 2020.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Live blog: Inauguratie president en vicepresident“. De Ware Tijd (hollenska). Afrit af upprunalegu geymt þann 9 október 2020. Sótt 16. júlí 2020.
  2. Stieven Ramdharie (10. febrúar 2007). „De meest bedreigde man van Suriname“ (höllenska). de Volkskrant. Sótt 23. ágúst 2020.
  3. „Proces Decembermoorden wordt hervat“. Nederlands Dagblad (hollenska). Sótt 26. maí 2020.
  4. „Breaking news: Santokhi gekozen tot CICAD-voorzitter“ (hollenska). Starnieuws. 6. desember.
  5. „Live blog: Verkiezing president en vicepresident Suriname“. De Ware Tijd (hollenska). Afrit af upprunalegu geymt þann 15 janúar 2021. Sótt 13. júlí 2020.


Fyrirrennari:
Desi Bouterse
Forseti Súrínam
(16. júlí 2020 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti