Fara í innihald

Baldur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ásinn Baldur.

Baldur (norræna: Baldr) var í norrænni goðafræði annar sonur Óðins á eftir Þór, þar með einn af ásum og bjó á stað sem var kallaður Breiðablik og var á himninum fyrir ofan Ásgarð. Þar var allt tandurhreint og óspillt.

Fjölskylduhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Kona Baldurs hét Nanna Nepsdóttir og afkvæmi þeirra Forseti. Forseti átti heima nálægt föður sínum á himninum fyrir ofan Ásgarð en í „sal“ eða höll sem kallaðist Glitnir. Glitnir var nokkurs konar „sáttahöll“ þar sem Forseti fyrirgaf sakir eða „sakavandræði“ þeirra sem komu þangað. Nönnu þótti einstaklega vænt um Baldur og jafn vel þó nánast allir í heiminum lofuðu hann og dáðu elskaði hún hann óskaplega mikið en vel er hægt að merkja það af viðbrögðum hennar við útför hans.

Dauði Baldurs

[breyta | breyta frumkóða]

Það eru til a.m.k. tvær mismunandi útgáfur af sögninni af dauða Baldurs, aðdraganda hans og afleiðingum. Þær eru ritaðar í Danmörku af Saxo Grammaticus á tólftu öld og á Íslandi af Snorra Sturlusyni á þeirri þrettándu og eru mjög frábrugðnar og þó að útgáfa Saxo Grammarticus sé eldri og eflaust nær upprunanum þá mun í þessari grein vera stuðst við söguna eins og hún kemur fram í Gylfaginningu Snorra-Eddu vegna þess að stuðst er við hana til kennslu á Íslandi.

Í Gylfagynningu segir frá því þegar Baldur fór að fá martraðir og hann vissi að þær væru fyrir dauða sínum. Þetta endaði með því að nánast allt í heiminum, kvikt eða ókvikt sem gæti mögulega skaðað Baldur samdi við Frigg, móður hans, um að veita honum grið.

Þessu tók bragðarefurinn Loki af mikilli öfund og vildi leita hefnda. Þar sem hann var mikill hamskiptingur ákvað hann að breyta sér í konu og fá Frigg til að segja sér hvort það væri einn einasti hlutur í heiminum sem hefði ekki samið við Frigg um að veita Baldri skaða og hún svaraði því að vestan við Valhöll yxi mistilteinninn en hann hafði ekki samið um að veita Baldri grið.

„Vex viðarteinungur einn fyrir vestan Valhöll. Sá er mistilteinn kallaður. Sá þótti mér ungur að krefja eiðsins.“

Þetta gat Loki nýtt sér og flýtti sér vestur fyrir Valhöll, sleit upp mistiltein og fann ás að nafni Höður en hann var mjög sterkur en þó blindur og stóð þar af leiðandi aðeins fyrir utan hópinn sem hafði myndast í kring um Baldur því hann sá hvort eð er ekki neitt. Loki plataði Höð til að skjóta mistilteininum að Baldri en mistilteinninn fór í gegn um Baldur sem hné niður og dó. Þetta olli miklum harmleik meðal ása og ásynja en þau gátu ekki hefnt sín á honum undir eins því Ásgarður var griðastaður sem þýddi að ekki mætti drepa neinn þar hins vegar átti þessi grikkur Loka eftir að hafa slæmar afleiðingar fyrir hann þegar lengra leið á.

Útför Baldurs

[breyta | breyta frumkóða]

Útför Baldurs var mjög átakanleg fyrir alla íbúa Ásgarðs og var hún mikilfengleg í alla staði. Skip Baldurs, Hringhorni sem var stærsta skip heimsins var notað við útförina en það fékkst ekki til að reka út á haf fyrr en eftir mikið vesen (væntanlega vegna þess hversu stórt það var) og þegar lík Baldurs var sett í skipið dó Nanna kona hans úr sorg þannig að henni var bætt í skipið líka ásamt hestinum Léttfeta sem var fullbeyslaður. Þór lagði síðan eld að skipinu með hamrinum sínum, mjölni en þá varð hann svo sorgbitinn að hann sparkaði dverg sem hét Litur í skipið og hann brann með eigum Baldurs.

För Hermóðs til Heljar eftir Baldri

[breyta | breyta frumkóða]

Ás að nafni Hermóður hinn hvati var sendur af Frigg til að leita Baldurs hjá Hel rétt eftir dauða hans. Þegar hann var kominn á leiðarenda hitti hann fyrir Baldur sitjandi í öndvegi og gisti þar um nóttina. Morguninn eftir grátbað Hermóður Hel um að hleypa Baldri aftur heim í Ásgarð þar sem allir væru að gráta hann og að allir hlutir heimsins gætu gert slíkt hið sama. Hel samdi þá við hann um að ef allir hlutir heimsins myndu gráta Baldur myndi hann fá að snúa aftur til baka. Hermóður reyndi þá að fá alla hluti heimsins til að gráta en hann fann þó tröllkonu í helli sem kallaði sig Þökk en hún vildi ekki gráta Baldur heldur fór með eftirfarandi vísu.

„Þökk mun gráta
þurrum tárum
Baldurs bálfarar.
Kviks né dauðs
naut-k-a eg Karls sonar.
Haldi Hel því er hefur.“

Út frá vísunni er vel hægt að geta sér þess til að hér hafi verið Loki á ferð en þetta varð til þess að Baldur gat ekki snúið aftur frá Hel.

Hefnd Ásanna

[breyta | breyta frumkóða]

Eins og gefur að skilja voru goðin orðin öskureið yfir þessu og hefndu sín herfilega á Loka sem var núna búinn að fela sig inni í fjalli þar sem hann gat þó séð í allar áttir en breytti sér þó í lax öðru hvoru til að fela sig fyrir hinum ásunum. En þó kom að því að Óðinn komst að því hvar hann var og goðin komu til hans og gátu hefnt sín á honum þar sem hann var ekki lengur í Ásgarði.

Ásarnir veiddu Loka þegar hann var í laxlíki og fóru með hann í helli. Þeir sóttu syni Loka og breyttu Vála, öðrum syni loka í varg sem reif Narfa bróður sinn í sundur og bundu Loka við eggsteina með görnum hans sem urðu síðan að járni. Síðan skildu þeir Loka eftir illa farin og bundinn og öðru hvoru drýpur á andlit hans eitur úr snáki en það eru kallaðir jarðskjálftar þegar það gerist s.k. Snorra-Eddu. Auk þess mun Loki ekki snúa aftur fyrr en um Ragnarök.

  • Snorra-Edda. 2003. Heimir Pálsson annaðist útgáfuna. Mál og menning, Reykjavík.
  • Ólafur Briem. 1985. Norræn goðafræði. Fimmta prentun. Skálholt.
  • Gylfaginning. 1999. Netútgáfan. Vefslóð: http://www.snerpa.is/net/snorri/gylf.htm.
  • Anatoly Liberman, "Some Controversial Aspects of the Myth of Baldr," Alvíssmál 11 (2004): 17-54 [1]