Fara í innihald

Auðlegð þjóðanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Auðlegð þjóðanna
HöfundurAdam Smith
TungumálEnska
ÚtgefandiW. Strahan & T. Cadell, London
Útgáfudagur
9. mars 1776

Auðlegð þjóðanna (e. An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) er eitt af þekktustu ritum hagfræðinnar og var skrifað af skoska hagfræðingnum og heimspekingnum Adam Smith. Bókin kom út árið 1776 og er almennt talin vera grundvallarrit hagfræðinnar og hefur haft mikil áhrif á markaðshagkerfi, kapítalismann og allar þær hugmyndir sem tengjast frjálsum markaði. Þegar Smith skrifar þessa bók leggur hann í raun grunninn að nútíma hagfræði og hugmyndum um efnahagslegt frelsi.[1]

Bakgrunnur og ritun

[breyta | breyta frumkóða]

Adam Smith (1723–1790) var heimspekingur og kennari í siðfræði við Háskólann í Glasgow. Hann hafði mikinn áhuga á því hvernig mismunandi efnahagskerfi virka og afhverju fólk tekur mismunandi efnahagslegar ákvarðanir. Þegar Auðlegð þjóðanna var gefin út voru miklar breytingar í gangi í Evrópu, iðnvæðingin var í mikilli uppsiglingu og nýjar hugmyndir um viðskipti og hagvöxt voru sífellt að verða fleiri. Á þessum tíma voru hugmyndir merkantílismans mjög vinsælar vegna þess að ríki lögðu áherslu á að safna gulli og silfri og að stjórna viðskiptum við önnur ríki til að hámarka eigin hagnað.[2]

Smith gagnrýndi merkantílismann í bókinni sinni og kynnti nýjar hugmyndir um frjáls viðskipti, hagnaðar möguleika einstakra þjóða og markaðsöfl sem stýrast af ósýnilegu höndinni. Hann sótti mikinn innblástur frá hagfræðingum eins og David Hume og François Quesnay, en tókst að skapa heildræna kenningu um hvernig hagkerfi starfa.[3]

Bók I: Orsök meiri framleiðslugetu vinnuafls

[breyta | breyta frumkóða]

Í fyrstu bókinni fjallar Smith um grundvallaratriði framleiðslu og hvernig vinnuafl er eitt mikilvægasta framleiðslutólið. Hann útskýrir hvernig vinnuskipting er mikilvægur þáttur í að auka framleiðni, vegna þess að hún gerir einstaklingum kleift að sérhæfa sig og bæta þannig afköst sín. Hann tekur dæmi um verksmiðju þar sem sérhæfð störf leiða til þess að framleiðsla margfaldast, samanborið við það þegar einstaklingar vinna sjálfstætt.

Einnig fjallar Smith um mikilvægi markaða og þess að stærð markaðarins hefur áhrif á hversu mikla vinnuskiptingu er hægt að ná. Hann útskýrir að vinnuskipting er grundvöllur fyrir hagvöxt og framleiðslu en hún er háð stærð og eftirspurn markaðarins. Því stærri sem markaðurinn er því meiri möguleikar eru á vinnuskiptingu. [1]

Bók II: Eðli uppsöfnunar fjármagns og notkun þess

[breyta | breyta frumkóða]

Önnur bókin fjallar um fjármagn, hvernig það myndast, safnast upp og hvernig það er notað í hagkerfinu. Smith útskýrir að fjármagn sé það sem er notað til að fjárfesta í vinnuafli, tækjum og öðrum þáttum sem auka framleiðni. Hann skiptir fjármagni í tvær tegundir:

  • Fastfjármagn: Þetta er fjármagnið sem er bundið í hlutum, eins og vélum, byggingum og tækjum sem notuð eru til framleiðslu.
  • Rekstrarfjármagn: Þetta er fjármagn sem er notað til að halda uppi framleiðslunni, eins og hráefni, birgðir og laun.

Í bókinni fjallar Smith um mikilvægi þess að spara fjármagn í samfélögum og hvernig sparnaður leiðir til fjárfestinga sem auka framleiðni í framtíðinni. Hann útskýrir hvernig einstaklingar og fyrirtæki nota fjármagn til að tryggja áframhaldandi hagvöxt.[1]

Bók III: Mismunandi þróun auðlegðar í ólíkum þjóðum

[breyta | breyta frumkóða]

Þriðja bókin fjallar um hvernig hagkerfi geta þróast á mismunandi hátt hjá þjóðum og samfélögum. Smith útskýrir hvernig sumar þjóðir vaxa hraðar en aðrar vegna mismunandi ytri og innri þátta. Hann bendir á að þróun og vöxtur efnahagslífs sé mjög háð stjórnmálalegum, landfræðilegum og sögulegum aðstæðum.

Hann tekur dæmi af landbúnaðarsamfélögum sem eiga það til að vaxa hægt miðað við þjóðir sem byggjast á verslun og iðnaði, sem hafa miklu hraðari þróun og vöxt. Smith fjallar um hvernig ólík samfélög einbeita sér að mismunandi sviðum og að það hefur mikil áhrif á hvernig auðlegð dreifist og þróast milli landa.[4]

Bók IV: Kerfi stjórnmálahagfræðinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Í fjórðu bókinni gagnrýnir Smith vinsælu hagfræðikenningar hans tíma, sérstaklega merkantílismann. Smith var á móti þeirri hugmynd að þjóðir ættu að safna gulli og silfri til þess að halda viðskiptahalla gagnvart öðrum löndum og setja tolla til að minnka innflutning.

Smith lagði til frjálsra viðskipta (e. free trade) og taldi að þjóðir ættu að sérhæfa sig í framleiðslu þeirra vara sem þær gátu framleitt á hagkvæmastan hátt og eiga viðskipti við aðrar þjóðir um þær vörur sem þær framleiddu ekki eins hagkvæmlega. Hann útskýrir að með því að leyfa frjáls viðskipti geta þjóðir hámarkað hag sinn og efnahagslegan vöxt. [5]


Bók V: Tekjur ríkisins eða þjóðfélagsins

[breyta | breyta frumkóða]

Fimmta bókin fjallar um hlutverk ríkisins í hagkerfinu. Þrátt fyrir að Smith sé almennt talsmaður takmarkaðrar íhlutunar ríkisins í efnahagslíf, þá viðurkennir hann að ríkið gegni mikilvægu hlutverki. Hann bendir á þrjú helstu hlutverk ríkisins:

  1. Að tryggja þjóðaröryggi, með því að vernda landið frá utanaðkomandi ógnunum.
  2. Að viðhalda réttlæti, með því að setja lög og reglur til að koma í veg fyrir glæpi og misnotkun.
  3. Að sjá um opinbera innviði, eins og vegi, brýr og menntun, sem eru nauðsynlegir fyrir hagkerfið en ekki endilega arðbærir fyrir einkaaðila að fjárfesta í.
Adam Smith

Smith útskýrir að ríkið þurfi tekjur til að fjármagna þessi verkefni og talar um hvernig skattkerfi getur verið byggt á sanngjarnan hátt. Hann er talsmaður þess að skattar séu lagðir á réttlátan hátt, þannig að þeir sem leggja mest á sig græða mest. [6]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „The Wealth of Nations“. Britannica. Sótt 21. september 2024.
  2. Smith, Adam (1776). An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations (PDF). Strahan and Cadell.
  3. Robert L. Heilbroner (1999). The Worldly Philosophers. Penguin Books.
  4. „Wealth of Nations PDF“ (PDF). Sótt 21. september 2024.
  5. Smith, Adam. (1776). An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations. Strahan and Cadell.
  6. Smith, Adam. (1776). An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations. Strahan and Cadell.