Íslenskur landbúnaður
Íslenskur landbúnaður er sú grein atvinnulífsins sem snýst um að yrkja landið og rækta dýr og/eða jurtir til manneldis eða annarra nytja. Bændasamtök Íslands halda saman ólíkum greinum samtakanna og öllum búnaðarsamtökum í landinu. Líkt og í öðrum Evrópulöndum er íslenskur landbúnaður styrktur af hinu opinbera, bæði í gegnum beingreiðslur til einstakra greina samkvæmt búvörusamningum[1] og með tollvernd.[2]
Landbúnaður hefur verið stór hluti af lifibrauði Íslendinga allt frá landnámi og byggðist landið að mestu leyti upp þar sem góð ræktunar- og búskaparskilyrði voru til staðar. Suðurlandsundirlendið, Borgarfjarðarhérað, Fljótsdalshérað, Eyjafjörður, Skagafjörður og Húnavatnssýslur hafa því lengst af verið þéttbýlustu svæði landsins, eða allt þar til fólksflutningarnir til höfuðborgarinnar breyttu því. Á Íslandi voru bæir í ábúð voru 4.638 árið 1994 en þá eru taldar allar jarðir sem voru skráð lögheimili einhvers, hvort sem þar var stundaður einhver búskapur eða ekki. Sama ár voru skráðar eyðijarðir 1.836.[3]
Á 20. öld var langstærstur hluti landbúnaðarframleiðslunnar á Íslandi framleiðsla á mjólk, kindakjöti og ull. Hlutur sauðfjárræktar hefur minnkað jafnt og þétt, meðan önnur kjötframleiðsla, einkum alifuglarækt og svínarækt, hefur aukist. Árið 2021 fór framleiðsla á kjúklingakjöti í fyrsta sinn fram úr framleiðslu á kindakjöti. Árið 2022 var framleiðsla á kindakjöti um 8400 tonn, alifuglakjöti 9700 tonn, svínakjöti 6200 tonn og nautakjöti 4900 tonn.[4] Jarðrækt á Íslandi felst aðallega í ræktun á heyi fyrir kvikfjárrækt (2 milljón rúmmetrar). Jarðrækt á matvælum er aðallega ræktun á byggi (9000 tonn) og kartöflum (7000 tonn), og í minna mæli í ylrækt á tómötum (1400 tonn) og agúrkum (2000 tonn), en fjölbreyttar afurðir eru ræktaðar í litlum mæli bæði til manneldis og sem fóður. Um 150.000 tonn af mjólk eru framleidd árlega og um 4500 tonn af eggjum.[5]
Hlutur landbúnaðar í vergri landsframleiðslu á Íslandi var 0,8% árið 2022[6] og hlutfall starfandi í geiranum 1,6%.[7] Ársvelta árið 2022 var um 60 milljarðar króna[8] og fjöldi fyrirtækja um 1300.[9] Stærstu fyrirtækin í íslenskum landbúnaði eru matvælaframleiðendur og afurðastöðvar eins og Mjólkursamsalan, Sláturfélag Suðurlands, Sölufélag garðyrkjumanna, Kaupfélag Skagfirðinga, Kjarnafæði/Norðlenska, Stjörnugrís og Ísfugl; eða birgjar bænda eins og Fóðurblandan og Lífland. Nokkur landbúnaðarfyrirtæki stofnuðu Samtök fyrirtækja í landbúnaði árið 2022.[10]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Arnhildur Hálfdánardóttir (22.2.2016). „Samningarnir tryggja framtíð fjölskyldubúsins“. RÚV.
- ↑ Elín Margrét Böðvarsdóttir (5.3.2018). „Tollverndin er hætt að bíta“. Vísir.is.
- ↑ „„Hvað eru margir sveitabæir á Íslandi?" Vísindavefurinn, skoðað 15. ágúst 2020“.
- ↑ „Framleiðsla“. Hagstofan. Sótt 4.3.2024.
- ↑ „Búfé og uppskear“. Hagstofan. Sótt 4.3.2024.
- ↑ „Hlutur atvinnugreina í landsframleiðslu 1997-2022“. Hagstofan. Sótt 4.3.2024.
- ↑ „Starfandi í aðalstarfi eftir atvinnugreinum (bálkar), kyni og búsetu 1991-2023“. Hagstofan. Sótt 4.3.2024.
- ↑ „Velta eftir atvinnugreinum og vsk-tímabilum 2008-“. Hagstofan. Sótt 4.3.2024.
- ↑ „Fjöldi skráðra fyrirtækja og félaga eftir atvinnugreinum 2008-2023“. Hagstofan. Sótt 4.3.2024.
- ↑ VH (9. júní 2022). „Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu“. Bændablaðið (11): 1.