Fara í innihald

Frjálsi demókrataflokkurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 3. desember 2024 kl. 12:04 eftir Martin Macha 2111 (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. desember 2024 kl. 12:04 eftir Martin Macha 2111 (spjall | framlög)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Frjálsi demókrataflokkurinn
Freie Demokratische Partei
Fylgi 8,7%¹
Formaður Christian Lindner
Varaformaður Wolfgang Kubicki
Bettina Stark-Watzinger
Johannes Vogel
Aðalritari Marco Buschmann
Stofnár 12. desember 1948; fyrir 76 árum (1948-12-12)
Höfuðstöðvar Hans-Dietrich-Genscher-Haus, Reinhardtstraße 14, 10117 Berlín, Þýskalandi
Félagatal 73.000[1]
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Frjálslyndisstefna, klassísk frjálshyggja, Evrópusamvinna
Einkennislitur Gulur  
Sæti á sambandsþinginu
Sæti á Evrópuþinginu
Vefsíða fdp.de
¹Fylgi í þingkosningum 2021

Frjálsi demókrataflokkurinn (þýska: Freie Demokratische Partei; skammstafað FDP) er þýskur stjórnmálaflokkur. Flokkurinn kennir sig við félagslega og efnahagslega frjálslyndisstefnu, klassíska frjálshyggju og stuðning við veru Þýskalands í Evrópusambandinu. Frjálsi demókrataflokkurinn er skilgreindur sem miðjuflokkur eða mið-hægriflokkur og hefur í gegnum tíðina tekið þátt í samsteypustjórnum bæði með Kristilega demókrataflokknum og Jafnaðarmannaflokknum. Flokkurinn situr nú í stjórn ásamt Jafnaðarmönnum og Græningjum og flokksleiðtoginn Christian Lindner er fjármálaráðherra Þýskalands.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Kosningaplakat FDP frá árinu 1949.

Margir eldri frjálslyndir flokkar höfðu verið virkir í Þýskalandi á undan Frjálsa demókrataflokknum, meðal annars Lýðræðisflokkurinn, Þjóðfrelsisflokkurinn og Þýski þjóðarflokkurinn. Frjálsi lýðræðisflokkurinn var stofnaður með arfleifð þessara flokka í huga eftir seinni heimsstyrjöldina. Upphaflega hugðust þeir Theodor Heuss og Wilhelm Külz stofna nýjan þýskan frjálslyndisflokk undir nafninu „Lýðræðisflokkurinn“ (þ. Demokratische Partei Deutschlands) árið 1947 í Rothenburg ob der Tauber en þessar áætlanir runnu út í sandinn og Külz endaði með því að stofna frjálslyndan stjórnmálaflokk í Austur-Þýskalandi. Frjálsi demókrataflokkurinn var formlega stofnaður þann 11. desember 1948 í Heppenheim an der Bergstraße með samruna allra frjálslyndra flokka á hernámssvæðum vesturveldanna (í Vestur-Þýskalandi). Heuss og nýi flokkurinn léku lykilhlutverk við samningu nýrrar stjórnarskrár fyrir þýska sambandslýðveldið sem stofnað var eftir styrjöldina og Heuss varð fyrsti forseti þess.

Frá 1966 til 1969 var Frjálsi demókrataflokkurinn í stjórnarandstöðu á meðan Kristilegi demókrataflokkurinn og Jafnaðarmannaflokkurinn mynduðu samsteypustjórn.

Stjórnarsamstarf með Jafnaðarmönnum

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1969 gekk Frjálsi demókrataflokkurinn í samsteypustjórn ásamt Jafnaðarmannaflokknum og sat með þeim í stjórn næstu þrettán árin. Jafnaðarmaðurinn Willy Brandt varð þá kanslari en Walter Scheel, leiðtogi FDP, varð utanríkisráðherra og átti eftir að endurmóta vestur-þýska utanríkisstefnu í samráði við Brandt. Þegar Scheel varð forseti Vestur-Þýskalands árið 1974 tók Hans-Dietrich Genscher við af honum sem flokksleiðtogi FDP og utanríkisráðherra. Genscher átti eftir að gegna embætti utanríkisráðherra í alls 18 ár. Frá lokum áttunda áratugarins varð ágreiningur milli flokkanna æ ljósari en samsteypustjórnin hélt þó meirihluta í þingkosningum árið 1980 með jafnaðarmanninn Helmut Schmidt sem kanslaraefni. Árið 1982 varð svokallaður „vendipunktur“ (þýska: Wende) þegar Frjálsi demókrataflokkurinn, sem hafði tekið upp harðari hægristefnu, studdi vantrauststillögu gegn minnihlutastjórn Schmidt og gekk síðan í stjórnarsamstarf með Kristilegum demókrötum (CDU/CSU) þar sem Helmut Kohl varð kanslari og Genscher sat áfram sem utanríkisráðherra og varakanslari.

Stjórnarsamstarf með Kristilegum demókrötum

[breyta | breyta frumkóða]

Ákvörðunin um að ganga í stjórn með Kristilegum demókrötum leiddi til klofnings innan FDP. Um tuttugu prósent flokksmeðlima sögðu sig úr flokknum og í þingkosningum ársins 1983 tapaði flokkurinn tæplega fjögurra prósenta fylgi. Flestir liðhlauparnir gengu í Jafnaðarmannaflokkinn, Græningjaflokkinn eða aðra smærri frjálslyndisflokka.

Árið 1998 tapaði stjórn CDU/CSU og FDP kosningum fyrir Jafnaðarmönnum og Græningjum. Árið 2005 bættu Frjálsir demókratar nokkuð við sig, hlutu tæp tíu prósent atkvæða og urðu þar með þriðji stærsti flokkurinn á þinginu og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn.

FDP og sameining Þýskalands

[breyta | breyta frumkóða]

FDP studdi sameiningu Þýskalands árið 1990 sem Kohl átti frumkvæði að eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989. Við sameininguna gengu ýmsar frjálslyndar hreyfingar frá Austur-Þýskalandi í Frjálsa demókrataflokkinn, sem hlaut þannig strax sterkt bakland í nýju þýsku sambandslöndunum. Meðal flokkanna sem gengu í FDP voru flokkar sem höfðu áður verið meðlimir í „þjóðfylkingu“ þýska alþýðulýðveldisins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (LDP) og Þjóðarlýðræðisflokkurinn (NDPD).

Önnur ríkisstjórn Merkel

[breyta | breyta frumkóða]
Kosninganiðurstöður FDP frá 1948 til 2013.

Eftir þingkosningar árið 2009 gekk Frjálsi demókrataflokkurinn á ný í stjórnarsamstarf með Kristilegum demókrötum þar sem Angela Merkel var kanslari. Í kosningunum hlaut FDP 14,6 prósent atkvæða, bestu útkomu í sögu sinni, og fimm meðlimir flokksins urðu ráðherrar: Guido Westerwelle, Sabine Leutheusser-Schnarrenberger, Philipp Rösler, Rainer Brüderle og Dirk Niebel. Flokkurinn tapaði hins vegar miklu fylgi á meðan hann sat í stjórn með Kristilegum demókrötum. Eftir að FDP galt afhroð í sveitastjórnarkosningum árið 2011 sagði Westerwelle af sér sem flokksleiðtogi og Rösler tók við af honum auk þess sem hann varð varakanslari og heilbrigðisráðherra í stað þess að vera viðskipta- og tæknimálaráðherra.

Í stjórnarandstöðu

[breyta | breyta frumkóða]

Í þingkosningum ársins 2013 náði Frjálsi demókrataflokkurinn ekki yfir fimm prósenta þröskuldinn og fékk því engan fulltrúa kjörinn á þing. Daginn eftir kosningarnar 22. september sagði Rösler af sér sem flokksleiðtogi.[2]

FDP hlaut 10,7 prósent atkvæða í þingkosningum árið 2017 og komst því aftur inn á þing. Eftir kosningarnar fóru fram samningaviðræður um myndun svokallaðrar „Jamaíkustjórnar“ með aðkomu FDP, CDU/CSU og Græningja. Um miðjan nóvember fóru stjórnarmyndunarumræðurnar hins vegar út um þúfur þegar FDP hafnaði skilmálum hinna flokkanna.

Frjálsir demókratar hlutu 11,5 prósent atkvæða í þingkosningum ársins 2021.[3] Í kjölfar kosninganna gekk Frjálsi demókrataflokkurinn í svokallaða „umferðarljósastjórn“ með Jafnaðarmönnum og Græningjum þar sem Olaf Scholz varð kanslari. Stjórnin er fyrsta þriggja flokka samsteypustjórnin í sögu þýska sambandslýðveldisins.[4][5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „73.000 – FDP verzeichnet starkes Mitglieder-Wachstum“. welt (þýska). 17. október 2021.
  2. „Wahldesaster der Liberalen: FDP-Chef Rösler kündigt Rücktritt an“. Der Spiegel. 23. september 2013. Sótt 19. desember 2021.
  3. Bundeswahlleiter: Bundesergebnis – Vorläufiges Ergebnis der Bundestagswahl 2021
  4. Þorvaldur S. Helgason (24. nóvember 2021). „Fyrst­a þriggj­a flokk­a stjórn­in í sögu Þýsk­a­lands“. Fréttablaðið. Sótt 25. nóvember 2021.
  5. „Olaf Scholz kjörinn kanslari Þýskalands“. mbl.is. 8. desember 2021. Sótt 8. desember 2021.