Margaret Thatcher

Forsætisráðherra Bretlands (1925–2013)

Margrét Thatcher (eða að fullu Margaret Hilda Thatcher, Baroness Thatcher of Kesteven; 13. október 19258. apríl 2013) var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979-1990 og leiðtogi breska Íhaldsflokksins 1975-1990. Hún varð fyrst kvenna til að gegna þessum tveimur stöðum og sat einnig lengst allra samfellt sem forsætisráðherra Bretlands á 20. öld. Hún var í senn einhver dáðasti og hataðasti stjórnmálamaður lands síns. Thatcher lagði ríka áherslu á að draga úr hvers kyns ríkisafskiptum, sem og á frjálsan markað og frjálst framtak. Áhrifa Thatchers gætir enn innan Breska íhaldsflokksins.

Margaret Thatcher
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
4. maí 1979 – 28. nóvember 1990
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
ForveriJames Callaghan
EftirmaðurJohn Major
Persónulegar upplýsingar
Fædd13. október 1925
Grantham, Lincolnshire, Englandi
Látin8. apríl 2013 (87 ára) Ringmer, Austur-Sussex, Englandi
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiDenis Thatcher (d. 2005)
StarfStjórnmálamaður

Æviágrip

breyta

Thatcher fæddist í Grantham í Lincoln-skíri í Austur-Englandi og var skírð Margaret Hilda Roberts. Faðir hennar, Alfred Roberts, var smákaupmaður. Móðir hennar var Beatrice Roberts (fædd Beatrice Stephenson) frá Lincoln-skíri. Margrét átti eina eldri systur, Muriel. Þær systur voru aldar upp í kristinni trú. Faðir þeirra tók þátt í stjórnmálum sem sveitarstjórnarmaður.

Margrét gekk í Huntingtower Road Primary School. Þaðan hélt hún til Oxford (Somerville College) árið 1943 þar sem hún lauk B.A.-prófi í efnafræði þremur árum síðar frá Oxford-háskóla, og B.Sc.-prófi ári síðar. Oxford-háskóli breytti B.A.-gráðu hennar í M.A.-gráðu árið 1950. Hún varð fyrst kvenna til að vera forseti samtaka íhaldssamra stúdenta við skólann.

Frá upphafi stjórnmálaferils til kennslumálaráðuneytisins

breyta

Thatcher var yngsti frambjóðandi Breska Íhaldsflokksins í þingkosningunum 1950, en komst ekki á þing. Hún bauð sig aftur fram árangurslaust 1951. Það ár gekk hún að eiga efnaðan kaupsýslumann, Denis Thatcher, og hóf laganám sem hún lauk tveimur árum síðar. Hún settist á þing fyrir Finchley í Lundúnum 1959 og varð kennslumálaráðherra í ríkisstjórn Edwards Heaths 1970. Þeirri stöðu gegndi hún þangað til Heath varð að segja af sér eftir kosningaósigur 1974. Í endurminningum sínum segir Thatcher að hún hafi ekki verið í innsta hring Heaths og hafi haft lítil sem engin áhrif utan ráðuneytis síns.

Thatcher var óánægð með forystu Heaths, og þegar enginn annar virtist ætla að bjóða sig fram gegn honum í ársbyrjun 1975, gerði hún það og hafði óvæntan sigur. Hún markaði strax miklu afdráttarlausari stefnu en forveri hennar og hún tók með ánægju upp nafnið „járnfrúin“, eftir að rússneskt blað hafði haft það um hana.

Forsætisráðherra

breyta
 
Sálufélagarnir og vinirnir Thatcher og Ronald Reagan í Camp David 1986

Eftir sigur Íhaldsflokksins í þingkosningunum vorið 1979 myndaði Thatcher ríkisstjórn, sem létti þegar af margvíslegum höftum og tók upp stranga peningamálastefnu í anda Miltons Friedmans. Hún herti líka lagaákvæði um verkalýðsfélög, lenti í miklum útistöðum við samtök námumanna og hafði sigur. Í stjórnartíð hennar dró mjög úr valdi verkalýðshreyfingarinnar bresku, sem hafði verið mjög öflug og jafnvel sagt ríkisstjórnum fyrir verkum. Thatcher hóf stórfellda sölu ríkisfyrirtækja og húsnæðis í eigu opinberra aðila, og hafði það víðtækar afleiðingar í atvinnulífinu. Húseigendum og hluthöfum í atvinnufyrirtækjum snarfjölgaði. Thatcher var samstíga Ronald Reagan Bandaríkjaforseta í Kalda stríðinu. Þau hurfu frá hinni svonefndu slökunarstefnu, detente, og stórefldu þess í stað varnir landa sinna. Þegar herforingjastjórnin í Argentínu lagði vorið 1982 undir sig Falklandseyjar, sem höfðu lengi verið undir stjórn Breta, sendi Thatcher breska flotann suður í höf, og tókst honum að hrekja innrásarliðið á brott.

Afsögn

breyta

Thatcher sigraði í þingkosningunum 1983 og 1987, sem er einstæður árangur í Bretlandi á 20. öld. En þegar leið fram á þriðja kjörtímabil hennar, varð ljóst, að stuðningur við hana hafði minnkað. Margir þingmenn Íhaldsflokksins óttuðust ósigur í næstu kosningum á eftir, og Thatcher hafði með óbilgirni aflað sér margra fjandmanna innan flokks sem utan. Hún varð að segja af sér sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, eftir að hún hafði ekki fengið nægilegt fylgi í leiðtogakjöri í nóvember 1990. Í fyrstu studdi hún dyggilega John Major, sem tók við formennsku flokksins af henni, en stuðningur hennar við Major dvínaði þegar á leið.

Hún tók sæti í lávarðadeildinni 1992, gaf út endurminningar sínar og sagði hiklaust skoðun sína á mönnum og málefnum. Einkum varð henni tíðrætt um þá hættu, sem einstaklingsfrelsinu stafaði af miðstýringu Evrópusambandsins. Hún dró sig þó að mestu í hlé, eftir að hún hafði fengið vægt hjartaáfall, en árið 2003 missti hún mann sinn, Denis. Þau áttu tvö börn, tvíburana Mark og Carol.

Áhrif

breyta

Thatcher dró aldrei neina dul á að lærimeistarar hennar voru hagfræðingarnir Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman. Eins og þeir vildi hún takmarkað ríkisvald, en þó traust. Hún kvaðst vera stjórnmálamaður sannfæringar fremur en sátta. Hvaða skoðun sem menn hafa á henni, eru allir sammála um, að stjórnartíð hennar var mikið breytingaskeið á Stóra-Bretlandi. Stuðningsmenn hennar geta bent á það, sem bandaríska vikublaðið Newsweek setti í fyrirsögn á forsíðu, þegar Tony Blair sigraði í þingkosningunum 1997, að þetta var í raun sigur Thatchers, því að Blair datt ekki í hug að hreyfa við neinum þeim breytingum, sem Thatcher hafði gert í bresku atvinnulífi.

Áhrifa Thatchers innan Íhaldsflokksins gætir enn. Leiðtogar flokksins frá John Major til William Hague, Iain Duncan Smith og Michael Howard hafa allir reynt að fóta sig í arfleifð Thatcher og hafa meðal annars þurft að leggja mat á hverju í arfleifð hennar megi hreyfa við og hverju ekki.

Heimildir og ítarefni

breyta
  • Abse, Leo (1989). Margaret, daughter of Beatrice (Jonathan Cape).
  • Beckett, Francis (2006). Margaret Thatcher (Haus Publishing Limited).
  • Campbell, John (2000). Margaret Thatcher; Volume One: The Grocer's Daughter (Pimlico).
  • Campbell, John (2003). Margaret Thatcher; Volume Two: The Iron Lady (Pimlico).
  • Dale, Iain (ritstj.) (2000). Memories of Maggie (Politicos).
  • Jenkins, Peter (1987). Mrs. Thatcher's Revolution: Ending of the Socialist Era (Jonathan Cape).
  • Letwin, Shirley Robin (1992). The Anatomy of Thatcherism (Flamingo).
  • Pugh, Peter og Paul Flint (1997). Thatcher for Beginners (Icon Books).
  • Seldon, Anthony og Collings, Daniel (1999). Britain Under Thatcher (Longman).
  • Young, Hugo (1986). The Thatcher Phenomenon (BBC).
  • Young, Hugo (1989). One of Us: Life of Margaret Thatcher (Macmillan).
  • Young, Hugo (1989). The Iron Lady: A Biography of Margaret Thatcher (Farrar Straus & Giroux).

Tenglar

breyta
  • „Hver er merkasti leiðtogi breska Íhaldsflokksins?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur" Margrétar Thatcher afnuminn?“. Vísindavefurinn.

erlendir


Fyrirrennari:
James Callaghan
Forsætisráðherra Bretlands
(1979 – 1990)
Eftirmaður:
John Major