Jean-Claude Duvalier

41. forseti Haítí (1951-2014)

Jean-Claude Duvalier (3. júlí 1951 – 4. október 2014), kallaður Baby Doc eða Bébé Doc, var haítískur stjórnmálamaður. Hann réð yfir Haítí sem forseti og einræðisherra landsins frá dauða föður síns, forsetans François „Papa Doc“ Duvalier, árið 1971 þar til honum var steypt af stóli árið 1986. Duvalier var aðeins nítján ára gamall þegar hann tók við embætti forseta og var á þeim tíma yngsti þjóðhöfðingi í heimi. Valdatíð Duvaliers einkenndist af bæði spillingu og mannréttindabrotum og stjórn hans er jafnan talin til þjófræðisstjórna.

Jean-Claude Duvalier
Jean-Claude Duvalier árið 2011.
Forseti Haítí
Í embætti
22. apríl 1971 – 7. febrúar 1986
ForveriFrançois Duvalier
EftirmaðurHenri Namphy
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. júlí 1951
Port-au-Prince, Haítí
Látinn4. október 2014 (63 ára) Port-au-Prince, Haítí
ÞjóðerniHaítískur
StjórnmálaflokkurÞjóðeiningarflokkurinn
MakiMichèle Bennett (g. 1980–1990)
Börn2
ForeldrarFrançois Duvalier og Simone Duvalier
HáskóliRíkisháskóli Haítí
StarfStjórnmálamaður

Eftir að honum var steypt af stóli dvaldist Duvalier í um 25 ár í útlegð frá heimalandi sínu í París. Hann sneri óvænt aftur til Haítí árið 2011 og var í kjölfarið handtekinn og ákærður fyrir spillingu á forsetatíð sinni. Duvalier lést árið 2014 áður en búið var að rétta yfir honum.

Æviágrip

breyta

Jean-Claude Duvalier fæddist árið 1951 og var einkasonur haítíska læknisins François Duvalier, öðru nafni „Papa Doc“. Papa Doc Duvalier varð forseti Haítí árið 1957 og tók sér einræðisvald stuttu síðar.[1] Samband Jean-Claude við föður sinn var ekki gott og Duvalier eldri mun hafa haldið meira upp á elstu dóttur sína, Marie-Denise. Jean-Claude var aftur á móti eftirlæti móður sinnar, forsetafrúarinnar Simone Duvalier.[2]

Papa Doc Duvalier lést árið 1971 og lét völdin ganga til sonar síns, sem var þá aðeins nítján ára gamall. Jean-Claude var brátt lýstur forseti til lífstíðar. Í upphafi stjórnartíðar Baby Doc fór klíka valdsmanna úr stjórnartíð föður hans með flest eiginleg völd í landinu. Líkt og á valdatíð Papa Doc var dauðasveitum áfram beitt til þess að kveða niður allt andóf gegn ríkisstjórninni. Öryggissveitir Baby Doc voru kallaðar „hlébarðarnir“ og voru í seinni tíð þjálfaðar af bandarískum herforingjum.[2] Baby Doc var talinn mikill glaumgosi og hann dró sér verulegar fjárhæðir úr ríkissjóði til þess að fjármagna lúxuslíferni sitt.[3]

Stjórn Duvaliers neyddist til þess að leyfa vísi að stjórnarandstöðu í landinu á áttunda áratugnum vegna þrýstings frá stjórn Jimmy Carter Bandaríkjaforseta. Stjórnarandstæðingum var þó ekki leyft að komast til verulegra áhrifa. Þegar leið á níunda áratuginn reyndi Duvalier að sannfæra heiminn um að lýðræði ríkti á Haítí, meðal annars með því að ferðast um suðurhluta landsins og dreifa peningaseðlum til landsmanna út um gluggann á bifreið sinni.[4]

Duvalier olli nokkrum usla árið 1980 þegar hann kvæntist Michele Pasquet, dóttur auðugs viðskiptamanns. Papa Doc hafði á valdatíð sinni lagt áherslu á yfirburði hins þeldökka meirihluta landsmanna. Mörgum Haítum mislíkaði að Baby Doc skyldi ganga að eiga hörundsljósa kreólakonu og þannig rjúfa traust Duvalier-feðganna við svarta meirihlutann. Auk þess blöskraði mörgum landsmönnum hve dýrt brúðkaup þeirra var, en það mun hafa kostað rúmlega þrjár milljónir Bandaríkjadala.[3] Hjónabandið varð Duvalier til frekari óvinsælda vegna eyðslusemi forsetafrúarinnar, sem fór oft í innkaupaferðir til Evrópu og sankaði að sér miklu safni af minkapelsum, þrátt fyrir að í Haítí ríki hitabeltisloftslag sem ekki kallar á slíkan klæðaburð.[5]

Andstaða við stjórn Duvaliers jókst þegar líða tók á níunda áratuginn, sér í lagi eftir að Jóhannes Páll 2. páfi heimsótti landið árið 1983 og sagði að eitthvað þyrfti þar til bragðs að taka.[3] Árið 1986 breyttust stjórnlaus fjöldamótmæli í byltingu og Duvalier neyddist til að segja af sér og flýja land ásamt fjölskyldu sinni. Talið er að hann hafi haft með sér um hálfan milljarð Bandaríkjadala úr ríkissjóði í farteskinu.[6]

Baby Doc settist að í París og bjó þar í vellystingum í útlegð sinni í um 25 ár. Auður hans minnkaði nokkuð eftir að Michele skildi við hann árið 1993 en hann var áfram vel stæður.[3]

Duvalier sneri óvænt aftur til Haítí í janúar árið 2011. Hann sagðist vera kominn til landsins til að „hjálpa til við endurbyggingu“ eftir jarðskjálfta sem hafði riðið yfir landið árið áður. Um 200 stuðningsmenn Duvalier-feðganna tóku á móti Baby Doc þegar hann steig út úr flugvél sinni í höfuðborginni Port-au-Prince.[3] Þann 18. janúar var Duvalier stefnt og honum bannað að yfirgefa landið.[7] Hann var síðan ákærður fyrir að hafa dregið sér rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala úr ríkissjóðum Haítí.[8] Í febrúar árið 2014 var bætt við tillögu um að Duvalier skyldi ákærður fyrir glæpi gegn mannúð á stjórnartíð sinni.[9]

Þann 4. október árið 2014 fékk Duvalier hjartaáfall og lést.[10] Hann var því aldrei dæmdur fyrir glæpi sína.

Tilvísanir

breyta
  1. „Francois Duvalier“. Lesbók Morgunblaðsins. 23. maí 1965. Sótt 19. febrúar 2019.
  2. 2,0 2,1 „HAITI – Perla Antillueyja?“. Tíminn. 7. janúar 1973. Sótt 11. mars 2020.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Björn Teitsson (19. janúar 2011). „Baby Doc snýr aftur til Haítí“. DV. Sótt 11. mars 2020.
  4. „Lýðræði, draumsýn í ríki Baby Doc“. Dagblaðið Vísir. 3. júní 1983. Sótt 11. mars 2020.
  5. „Dagar Baby Doc brátt taldir?“. Þjóðviljinn. 30. janúar 1986. Sótt 11. mars 2020.
  6. Gylfi Páll Hersir (14. október 1994). „Haití: Ógnarstjórnir undir verndarvæng Bandaríkjamanna“. Vikublaðið. Sótt 11. mars 2020.
  7. « Duvalier inculpé pour corruption et vol en Haïti », Le Figaro, 19. janúar 2011
  8. « La justice rattrape Duvalier »[óvirkur tengill], Le Devoir, 19. janúar 2011.
  9. Nouvelle instruction contre Jean-Claude Duvalier, Courrier international, 21. febrúar 2014
  10. Sunna Karen Sigurþórsdóttir (4. október 2014). „Baby Doc látinn“. Vísir. Sótt 30. september 2024.


Fyrirrennari:
François Duvalier
Forseti Haítí
(22. apríl 19717. febrúar 1986)
Eftirmaður:
Henri Namphy