Við erum til taks

Með öflugri öryggis- og löggæslu, eftirliti, leit og björgun ber Landhelgisgæslunni að stuðla að öryggi sjófarenda, fólksins í landinu og verndun auðlinda með sem bestum og hagkvæmustum hætti.

Kynningarbæklingur


Ábendingar

Móttaka á þyrlu

Mikilvægar upplýsingar um móttöku þyrlu á sjó og landi

Samskipti við skip og loftför

Mikilvægar upplýsingar um kallrásir, merkjaflögg, ljós- eða hljóðmerki

Sjávarföll

Upplýsingar um tíma og hæð flóðs og fjöru í Reykjavík næstu sjö daga


Fréttayfirlit

Tilkomumikil sjón og söguleg stund

29.4.2009

Miðvikudagur, 29. apríl 2009

Nýtt fjölnota varðskip Landhelgisgæslunnar stóreykur björgunargetu Íslendinga og myndar öflugan hlekk í björgunarkeðju á Norður-Atlantshafi

Það var tilkomumikil sjón þegar nýtt fjölnota varðskip Íslendinga var í dag sjósett við hátíðlega athöfn í ASMAR skipasmíðastöð sjóhersins í Chile og um leið gefið nafnið Þór. Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar flutti hátíðarræðu við athöfnina en hann var viðstaddur hana ásamt Þórunni J. Hafstein skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Við athöfnina fluttu einnig erindi Cristian Gantes aðmíráll hjá Chileanska flotanum og Andres Fonzo aðmíráll og framkvæmdastjóri skipasmíðastöðvarinnar.

Á myndinni má sjá Georg Kr. Lárusson flytja ræðu sína við hlið þessa glæsilega skips.

Vefmiðillinn El Sur í Chile hefur birt myndskeið af sjósetningunni.

Áhugasamir geta smellt á tengilinn hér fyrir neðan og fundið myndbandið í þar til gerðu netsjónvarpi, undir titlinum „Asmar impresionó con barco para Islandia“, hægra megin á síðunni.

Vefsíða með myndbandi af sjósetningu varðskipsins Þórs

Thor01_Mannfjoldi
Yfirmenn Chileanska sjóhersins, starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar og
heimamenn fjölmenntu við athöfnina


Í hátíðarræðu sinni lýsti Georg ánægju með smíði nýja varðskipsins og ferlið allt sem gengið hefur afar vel. Sagði hann tilkomu þessa nýja varðskips vera sögulega stund fyrir íslenska þjóð og með þeim stærri í rúmlega 80 ára sögu Landhelgisgæslunnar. Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að standa vörð um fullveldisrétt Íslands á hafsvæðinu í kringum landið og hefur Landhelgisgæslan þannig skipað stóran sess í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar með því að berjast fyrir verndun hafsvæðisins í kringum landið og þeim dýrmætu auðlindum sem þar liggja en sjórinn skiptir höfuðmáli fyrir afkomu þjóðarinnar sagði Georg af þessu tilefni. „Til að vernda þessar dýrmætu auðlindir höfum við þurft að heyja stríð þar sem barist hefur verið við stórar flotaþjóðir um yfirráðin yfir fiskinum í sjónum. Með baráttuþreki og þrautseigju höfum við unnið þessi stríð og förum því með full yfirráð yfir hafsvæðinu í kringum landið okkar. Um þau hafsvæði þurfum við ávallt að standa vörð og aðlaga okkur að breyttri heimsmynd sem kallar fram nýjar og aðrar ógnir“ ; sagði Georg.

Thor05_GeorgKrLarussonChile
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar flytur hátíðarræðu sína

Hið nýja fjölnota varðskip sem afhent verður á fyrri hluta næsta árs er bylting í eftirlits- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar en það er fullkomnasta varðskip sinnar tegundar á Norður-Atlantshafi. Mun það gjörbreyta möguleikum í björgun og aðstoð við skip á hinu víðfeðma hafsvæði sem Ísland ber ábyrgð á jafnt innan sem utan efnahagslögsögunnar. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um aukna þýðingu þess að strandgæslustofnanir á Norður-Atlantshafi starfi nánar saman á sviði öryggis- og eftirlitsmála á hafinu, má þar m.a. nefna niðurstöður viðræðna Georgs Kr. Lárussonar og Sören Gade varnarmálaráðherra Danmerkur og nýútkomna skýrslu Stoltenbergs, fyrrv. utanríkisráðherra Noregs. Verður hið nýja varðskip mikilvægur hlekkur í því samstarfi þar sem gert er ráð fyrir gagnkvæmri aðstoð við öryggiseftirlit og björgunarþjónustu. Landhelgisgæsla Íslands spilar þar gríðarlega mikilvægt hlutverk.

Thor02_skiptilbuid
Varðskipið tilbúið fyrir sjósetningu

Varðskipið er fyrsta skipið af þessari tegund sem smíðað er hjá ASMAR skipasmíðastöðinni í Chile og fullkomnasta skip sem þar hefur verið smíðað bæði hvað varðar getu og tækniútfærslur. Til að mynda er um borð sérstakur búnaður til mengunarvarna, fjölgeislamælir og DPS kerfi (Dynamic Position /Joystick System) sem veitir aukna nákvæmni í stjórn skipsins við erfiðar aðstæður. Þannig er hægt að láta skipið sjálft halda kyrru fyrir í ákveðinni stöðu á sama stað með mikilli nákvæmni. Þetta eykur hæfni skipsins til að nálgast t.d. strandað skip og koma dráttarbúnaði milli skipanna. Þá gefur þessi búnaður aukna möguleika á að stjórna skipinu við þröngar aðstæður þar sem snúa má því á alla kanta þó það hafi annað skip á síðunni. Skipið er einnig búið öflugum eftirlitsbúnaði svo sem innrauðum og nætur myndavélum en allur eftirlitsbúnaður sameinast í sérstakri stjórnstöð inni í miðri brúnni. Þá er gert ráð fyrir að skipið geti virkað sem færanleg stjórnstöð í neyðaraðgerðum og tengt björgunarlið við samræmingarstöð í Skógarhlíð þó svo að allt venjulegt fjarskiptasamband liggi niðri t.d. vegna náttúruhamfara. Hægt er að taka stórtækan björgunarbúnað um borð sem og fjölda manns sem getur skipt sköpum við björgunaraðgerðir.

Thor03_TilkomumSjosetn
Tilkomumikil sjósetning

Thor_Dagblad_mynd

Þessi glæsilega mynd birtist í Chileanska dagblaðinu Diario El Sur
miðvikudaginn 30. apríl.


Smíði þessa fjölhæfa og fjölnota hátækniskips hefur vakið gríðarlega athygli og fylgjast strandgæslur víða um heim með gangi mála. Dráttargeta skipsins er 120 tonn og ganghraði 19,5 sjómílur. Skipið er búið tveimur 4.500 kw aðalvélum, það er 4.250 brúttótonn, 93,65 metrar að lengd og 16 metra breitt. Til samanburðar má nefna að varðskipið Týr er 71 metra langt og 10 metra breitt með 56 tonna dráttargetu. Nýja varðskipið hefur alla eiginleika dráttarskips þannig að snúningspunktur dráttarvírs er fyrir framan stýri og skrúfur og því auðvelt að breyta stefnu þó svo að verið sé að draga miklu stærra og þyngra skip. Skipið er búið öflugum slökkvibúnaði og getur gefið þyrlum á flugi eldsneyti. Skipið er hannað af Rolls Royce Marine í Noregi og er hannað á grunni norska varðskipsins Harstadt sem norska strandgæslan hefur verið með í rekstri frá árinu 2005.
Varðskipið hlaut nafnið Þór sem dregið er úr norrænni goðafræði. Þórunn J. Hafstein gaf varðskipinu nafn við sjósetninguna sem fram fór klukkan hálf sex að íslenskum tíma Við nafngiftina fór Þórunn með textann;

Guð í hjarta, Guð í stafni, gefur fararheill.
Ég nefni þig Þór.
Gifta og styrkur fylgi nafni þinu. Drottinn Guð geym það nafn í huga þér.
Gæt skips og áhafnar fyrir veðri og áföllum. Blessa gæslu þeirra landi og lýð til heilla. Drottinn verði með þér alla tíð.

Thor_Thorunn_gefur_nafn

„Ég nefni þig Þór“, Þórunn J. Hafstein gefur varðskipinu nafn


Nafnið Þór kemur fyrst fram í norrænni goðafræði en Þór er þrumuguð, sonur Óðins og Jarðar, verndari manna og Miðgarðs. Kona hans er Sif. Nafnið Þór táknar styrk og kraft sem svo sannarlega einkennir þessa glæsilegu smíð og um leið ber vitni um dugnað og fagmennsku allra þeirra sem að þessu mikla verki hafa komið, allt frá frumhönnun, eftirliti og til þess sem nú er.

Skip Landhelgisgæslunnar hafa áður borið nafnið Þór. Fyrsta björgunarskipið sem kom til landsins bar nafnið Þór en það var upphaflega keypt af Björgunarfélagi Vestmannaeyja þann 26. mars árið 1920 til björgunarstarfa við Vestmannaeyja. Skipið varð síðar eða árið 1926 upphafið að stofnun Landhelgisgæslunnar. Varðskip í þjónustu Landhelgisgæslunnar hafa borið þetta nafn frá þessum tíma og allt til ársins 1986. Nafnið fór svo úr eigu Landhelgisgæslunnar til útgerðarfélagsins Stálskipa ehf í Hafnarfirði en Guðrún Lárusdóttir framkvæmdastjóri þess fyrirtækis hefur heimilað Landhelgisgæslunni að nýta nafnið. Útgerðarfélag Guðrúnar gerir meðal annars út togarann Þór HF4 sem hefur reynst mikið happafley.

Thor02_A_sjo

Varðskipið Þór að lokinni sjósetningu

Til gamans má nefna að von er á Harstad, skipi norsku strandgæslunnar til Reykjavíkur í byrjun júní og verður skipið opið almenningi á sjómannadaginn 7. júní.

290409/HBS