Zemla-uppreisnin
Zemla uppreisnin (Zemla Intifada) vísar til fjöldamorða spænskra hermanna á mótmælendum í Zemla-hverfinu í El Aaiún þann 17. júní árið 1970. Atburðirnir mörkuðu endalok friðsamrar baráttu Sahrawi-fólksins fyrir sjálfstæði og upphaf vopnaðrar þjóðfrelsisbaráttu.
Harakat Tahir-hreyfingin hafði starfað með leynd um nokkurra ára skeið fyrir atburðina örlagaríku. Leiðtogar hennar, þar á meðal stofnandinn Muhammad Bassiri ákváðu að efna til opinberra mótmæla gegn spænskum yfirráðum og afhenda spænska landsstjóranum, hershöfðingjanum José María Pérez de Lema y Tejero ávarp sem fól í sér ákall um sjálfstæði og jafnan rétt íbúa landsins.Skipuleggjendunum var leyft að afhenda áskorunina en þegar samkomunni var að ljúka reyndu lögreglumenn að handtaka forsprakkana. Við það brutust út átök sem leiddi til þess að spænskir hermenn skutu á mannfjöldann og drápu að minnsta kosti ellefu og særðu fjölda annarra.
Í kjölfarið var mörgum forystumanna Harakat Tahir varpað í fangelsi, þar á meðal Muhammad Bassiri sem hvarf í varðhaldi. Hin hörðu viðbrögð spænskra yfirvalda urðu því til þess að að hin róttæka POLISARIO-hreyfing var stofnuð þremur árum síðar. 17. júní er því talinn marka upphaf vopnaðrar baráttu Sahrawi-þjóðarinnar, fyrst gegn Spánverjum en síðar stjórnvöldum í Marokkó.