Fara í innihald

Winnie Mandela

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Winnie Mandela
Fædd26. september 1936
Dáin2. apríl 2018 (81 árs)
DánarorsökSykursýki
ÞjóðerniSuður-afrísk
StörfStjórnmálamaður
FlokkurAfríska þjóðarráðið
MakiNelson Mandela (g. 1958; sk. 1996)
Börn2

Winnie Madikizela-Mandela (fædd undir nafninu Nomzamo Winifred Zanyiwe Madikizela; 26. september 1936 – 2. apríl 2018), einnig kölluð Winnie Mandela, var suður-afrísk stjórnmálakona og baráttukona gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. Hún var önnur eiginkona Nelsons Mandela, fyrsta forseta Suður-Afríku eftir endalok aðskilnaðarstefnunnar. Winnie Mandela sat á þingi Suður-Afríku frá 1994 til 2003 og frá 2009 til dauðadags og var aðstoðarráðherra í lista- og menntamálum frá 1994 til 1996. Hún var meðlimur í Afríska þjóðarráðinu og sat í framkvæmdanefnd flokksins og leiddi kvennabandalag hans. Stuðningsmenn Winnie Mandela kölluðu hana „móður þjóðarinnar“.

Winnie Mandela fæddist undir nafninu Nomzamo Winifred Zanyiwe Madikizela í smábæ í Transkei í Suður-Afríku. Hún gekk í skóla í Jóhannesarborg og varð síðar fyrst suður-afrískra blökkumanna til að ljúka námi fyrir tiltekin læknastörf. Árið 1958 giftist hún Nelson Mandela, einum af leiðtogum frelsisbaráttu svartra Suður-Afríkumanna, og vann með honum í aðgerðarstefnu hans gegn hvítu minnihlutastjórninni.[1] Winnie og Nelson eignuðust saman tvíburadætur en þar sem Nelson var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1962 þurfti Winnie að mestu að ala þær upp ein.[2]

Vegna baráttu sinnar gegn minnihlutastjórninni var Winnie Mandela frá árinu 1968 oft handtekin, sett í stofufangelsi og gerð brottræk frá heimalandi sínu.[3] Árið 1977 var hún flutt með valdi frá heimili sínu í Soweto til bæjarins Brandfort. Eftir að bensínsprengju var kastað á heimili hennar þar fluttist hún aftur til Sowoto í óþökk stjórnvalda en var flutt aftur til Brandfort í lögreglufylgd árið 1985. Síðar var útlegðardómurinn yfir henni mildaður og henni leyft að búa hvar sem er í landinu nema í Jóhannesarborg og nágrenni, en hún fór ítrekað á sveig við þær takmarkanir.[1] Winnie Mandela varð einn þekktasti leiðtoginn í Afríska þjóðarráðinu og varð sameiningartákn í frelsisbaráttu suður-afrískra blökkumanna. Hún var meðal annars tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels og var kjörin rektor Háskólans í Glasgow.[4]

Eftir að Mandela sneri aftur til Soweto í seinna skiptið fór samband hennar við forystu þjóðarráðsins að versna. Hún varð fyrir áhrifum af yngri meðlimum hreyfingarinnar sem vildu beita ofbeldisfyllri aðferðum til að kollvarpa hvítu minnihlutastjórninni í Suður-Afríku. Í apríl árið 1986 lýsti Mandela yfir stuðningi við „hálsmenaaðferðina“ svokölluðu sem fólst í því að lífláta andstæðinga með því að varpa hjólbörðum yfir höfuð þeirra og kveikja síðan í þeim. Hún olli einnig deilum þegar hún lét reisa 22 herbergja stórhýsi fyrir sig og fjölskyldu sína í Soweto fyrir um 460.000 pund. Nelson bannaði henni að flytja inn í það og húsið stóð því autt.[4]

Winnie Mandela stofnaði fótboltaklúbbinn „Mandela United Football Club“, en meðlimir hans voru jafnframt lífverðir hennar. Klúbbfélagarnir urðu brátt þekktir fyrir ofbeldi og ofríki gagnvart íbúum Soweto. Árið 1989 voru átta klúbbfélagar ákærðir fyrir morð á 14 ára gömlum dreng að nafni Stompie Seipei og voru grunaðir um aðild að fleiri morðum.[5] Árið 1988 mótmæltu nemendur úr gagnfræðiskólanum Orlando West fyrir framan hús Mandela-fjölskyldunnar vegna ofbeldis og nauðgana fótboltakappanna úr Mandela-klúbbnum. Þegar ljóst var að Winnie var ekki heima réðust nemendurnir á húsið og kveiktu í því. Þessir atburðir vöktu heimsathygli á því hve Mandela var orðin umdeild og jafnvel hötuð af samborgurum sínum í Soweto.[4]

Ofbeldisverk fótboltaklúbbsins leiddu til þess að Winnie Mandela féll mjög í áliti annarra baráttumanna gegn aðskilnaðarstefnunni og að stjórnmálahreyfingar blökkumanna í Suður-Afríku fóru hver af öðrum að fordæma hana.[6] Orðstír Winnie bað enn frekari hnekki þegar F. W. de Klerk varð forseti Suður-Afríku og lét leysa Nelson úr haldi. Frelsisbarátta suður-afrískra blökkumanna varð friðsamlegri og ofbeldisverkin sem Winnie hafði stutt þóttu enn síður réttlætanleg en áður. Samband hjónanna versnaði jafnframt eftir að Nelson var leystur úr haldi og svo fór að leiðir þeirra skildu árið 1992 eftir að upplýst var að Winnie hafði átt í ástarsambandi við einn lífvarða sinna.[7][8]

Winnie var dæmd fyrir mannrán og líkamsárás á Stompie Seipei árið 1991 en dómurinn gegn henni var mildaður úr fangelsisvist í fjársekt. Þegar Nelson varð forseti Suður-Afríku árið 1994 varð Winnie aðstoðarráðherra í ríkisstjórn hans en var síðar rekin fyrir óhlýðni. Hún var dæmd fyrir fjársvik árið 2003 en tókst að snúa aftur á stjórnmálasviðið þegar hún náði kjöri á þing í kosningum árið 2009.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Winnie Mandela“. Morgunblaðið. 30. nóvember 1986. bls. 6-7.
  2. Jóhanna Kristjónsdóttir (21. janúar 1986). „Hún hefur ekki látið deigan síga í baráttu fyrir mannréttindum svertingja“. Morgunblaðið. bls. 19.
  3. Kolbrún Bergþórsdóttir (7. apríl 2018). „Konan sem Mandela gat ekki fyrirgefið“. Vísir. Sótt 28. desember 2021.
  4. 4,0 4,1 4,2 Guðmundur Halldórsson (5. mars 1989). „Fall svörtu Evitu“. Morgunblaðið. bls. 13.
  5. „Hafði safnað um sig liði misindismanna“. Tíminn. 31. mars 1989. bls. 14.
  6. „Winnie Mandela fordæmd“. Dagblaðið Vísir. 20. febrúar 1989. bls. 11.
  7. Anthony Heard (10. maí 1992). „Viðhorfsbreytingin varð „móður þjóðarinnar" að falli“. Morgunblaðið. bls. 4.
  8. 8,0 8,1 „Winnie Mandela: Um­deild hetja“. mbl.is. 3. apríl 2018. Sótt 30. ágúst 2020.