Fara í innihald

Stefán Stephensen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stefán Ólafsson Stephensen (27. desember 176720. desember 1820) var íslenskur lögfræðingur sem var varalögmaður norðan og vestan frá 1790 og amtmaður í Vesturamti frá 1806 til dauðadags.

Stefán var fæddur á Bessastöðum og var sonur Ólafs Stephensen stiftamtmanns og konu hans Sigríðar Magnúsdóttur og bróðir þeirra Magnúsar Stephensen dómstjóra og Björns Stephensen dómsmálaritara. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1785 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla haustið 1788. Með konungsbréfi 4. júní 1790 var hann skipaður varalögmaður hjá Magnúsi bróður sínum og þegar Landsyfirréttur var stofnaður árið 1800 og Magnús varð dómstjóri var Stefán skipaður 1. assessor en var þó launalaus og skyldi ekki sitja í dómnum nema í forföllum bróður síns. Jafnframt var honum falið að semja nýja lögbók. Hann var einn nefndarmannanna í jarðamatsnefndinni sem skipuð var árið 1800.

Þann 6. júní 1806 var hann skipaður amtmaður í Vesturamti. Hann bjó á Innra-Hólmi frá 1790, flutti að Hvanneyri 1793 og bjó þar til 1801 en flutti sig þá að Hvítárvöllum og dó þar í árslok 1820.

Fyrri kona Stefáns var Marta María Hölter, dóttir Diðriks Hölters kaupmanns. Hún er skráð höfundur fyrstu íslensku matreiðslubókarinnar, sem nefnist Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur og kom út árið 1800, en líklega var þó Magnús mágur hennar höfundur bókarinnar að hluta eða öllu. Marta María lést 14. júní 1805. Börn þeirra voru Ólafur, auditör í danska hernum og síðar bæjarfógeti í Danmörku, Sigríður, fyrsta kona Ólafs Stephensen dómsmálaritara, frænda síns, Ragnheiður kona Helga Thordersens biskups, Magnús sýslumaður í Vatnsdal, Pétur prestur á Ólafsvöllum, Hannes prófastur á Ytra-Hólmi, Elín, kona Jóns Thorstenssen landlæknis, Stefán prestur á Reynivöllum og Marta, miðkona Ólafs dómsmálaritara sem áður hafði verið giftur systur hennar. Stefán amtmaður giftist öðru sinni Guðrúnu Oddsdóttur, sem var dóttir Odds Þorvarðarsonar prests á Reynivöllum, en synir þeirra dóu ungir.

  • „Candidati juris. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árgangur 1882“.