William Eggleston
William Egglestone (fæddur 27. júlí 1939) er bandarískur ljósmyndari þekktastur fyrir verk sitt The Red Ceiling.
Margar sögur eru til af William Eggleston og ein þeirra segir frá því að hann hafi verið fenginn til að taka myndir í brúðkaupi en lítið fór fyrir hefðbundinni myndatöku þar sem hann lá mest á bakinu og tók myndir af bláma himinsins.
Eggleston er fæddur í Memphis í Bandaríkjunum árið 1939 og ólstu upp á bómullarbúgarði í Tallahatchie héraði, Mississippi. Hann segist hafa sótt þrjá háskóla óreglulega en ekki lokið prófi frá neinum þeirra. 1957 fékk hann sína fyrstu myndavél og ári síðar var hann búinn að kaupa Leica myndavél.
Tímaritamyndir voru hans fyrstu kynni af ljósmyndum. 1960 eða þar um bil, komst hann yfir ljósmyndabækur Walkers Evans (1903-1975), Americans Photographs (1938) og bók Henri Cartier-Bressons (1908-2004)., The Decisive Moment (1952). (Holborn, 2004).
Áhrifavaldar
[breyta | breyta frumkóða]Walker Evans hafði kynnst verkum Eugène Atgets hjá bandaríska ljósmyndaranum Berenice Abbott (1898-1991). Abbot hafði unnið sem aðstoðarmaður Man Rays (1924-1926) í París en auk þess hafði hún numið ljósmyndun hjá Atget um svipað leyt. Eftir fráfall Atget tókst henni að eignast mikinn hluta af ljósmyndasafni hans og flutti með sér til Bandaríkjanna. Mikið af þessum ljósmyndum hafa síðan ratað í safnageymslur Museum of Modern Art í New York. (MoMA). Evans, eins og svo margir aðrir ljósmyndarar, varð fyrir miklum áhrifum af myndum Atgets.
Evans þóttist sjá í verkum Atgets hæverska en þunglyndislega sýn á umbreytingu borgarinnar í átt til nútímalegri uppbyggingar. Hann taldi sig einnig sjá í verkum Atgets næma sýn á umhverfi borgarinnar, æfða athygli, sérstaka tilfinningu fyrir ytri einkennum og áferð, hæfileika til þess að draga fram smáatriði og ljóðræna heildarsýn. (Marien, 2002 bls. 282). Hið óræða en sérstaka augnablik, hið óvenjulega í annars hversdagslegu umhverfi ásamt fyrrnefndum áherslum varð að yrkisefni Evans, Bressons og fleiri ljósmyndara. Báðir þessir ljósmyndarar höfðu sterk áhrif á Eggleston.
Alfred Stieglitz, Photo-Secession hópurinn, F64, ljósmyndabók Roberts Franks The Americans (1959) og hugmyndir um hina nýju hlutlægni voru stórir áhrifavaldar í listljósmyndun þessa tíma í Bandaríkjunum. Stieglitz var umhugað um að hin nýja hlutlægni tæki mið af modernisma í málaralist en þó ekki á forsendum málverksins. Ljósmyndin átti að vera áreiðanleg heimild sem hefði fræðslulegt gildi. (Hanna, 2005). Eggleston átti eftir að snúast öndverður gegn þessum hugmyndum.
The Red Ceiling og litljósmyndir Egglestons
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1964 byrjar Eggleston að taka litljósmyndir, fyrst á negatífar ljósmyndafilmur en síðar á sjöunda áratugnum fer hann að nota pósitífar filmur. Þrátt fyrir að Eggleston hafi upphaflega verið mjög upptekinn af svart/hvítri ljósmyndun þá verður hann stax spenntur fyrir litljósmyndun eftir fyrstu tilraunir sínar í þá veru. Árið 1967 fer hann með safn af litskyggnum til New York og hittir m.a. ljósmyndarana Diana Arbus, Lee Friedlander og Garry Winogrand. Myndir Eggleston vekja athygli þeirra og honum er bent á að tala við forstöðumann ljósmyndadeildar Museum of Modern Art (MoMA), John Szarkowski. Það verður síðan upphafið af undirbúningi fyrir sýningu Eggleston í MoMA árið 1976. Sýningin fékk hörmulega dóma en engu að síður er þessi sýning talin marka tímamót og vera upphafið af listrænni litljósmyndun eins og við þekkjum hana í dag. Ljósmyndin The Red Ceiling var meðal verka Eggleston á sýningu í MoMA.
Viðhorf til listljósmyndunar á sjöunda og snemma á áttunda áratugnum voru töluvert frábrugðin því sem við þekkjum í dag. Jafnvel þó ljósmyndarar litu á sig sem listamenn þá var listljósmyndun nokkuð sér á báti og úr tengslum við aðra myndlist. Lögð var mikil áhersla á tæknilega hlið ljósmyndunar og lýsandi og augljóst innihald þeirra. Litljósmyndun þótti of nálægt fjölskyldumyndum eða yfirborðslegri og tilgerðarlegri litanotkun í auglýsingaiðnaði og fjölmiðlum. Litljósmyndun var álitin “vulgar” eins og Walker Evans sagði eitt sinn. (Kernan, 2001:66).
Það hlýtur því að teljast nokkuð áræði af Eggleston að ráðast í litljósmyndagerð þegar flestir af samtímaljósmyndurum hans afneituðu litljósmyndun sem listformi. Jafnvel þó sýning Egglestons hafi fengið dræmar viðtökur í MoMA þá óx skilningur á því myndmáli sem hann lagði rækt við og ekki sakaði að hann hafði fengið þá viðurkenningu að sýna í MoMA. Verk hans voru þar í flokki með nútímalist, ljósmyndun varð smám saman viðurkennd sem einn angi nútímalistar.
Gagnrýnendur sáu í ljósmyndum Egglestons ákveðið andóf við modernisman og frávik frá kröfu um heimildar eða frásagnarlegt gildi (e. ''epic fictons'') sem lengi hafði loðað við listljósmyndun modernismans. Andóf Egglestons var reyndar í takt við vaxandi andstöðu listamanna við modernisman. Á Ítalíu lýsti einn talsmanna Arte Povera hópsins, Celan því yfir að hið ofurvenjulega hefði gert innreið sína í heim listarinnar. Hið ómerkilega eða léttvæga hefði öðlast líf og tilveru. (Oddy, 2002, bls. 88).
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Hanna G. Guðmundstóttir (2005). Helstu straumar og stefnur í ljósmyndasögunni 1880-1940. Fjölrit
- Holborn, Mark (2004). William Eggleston. Sótt 6. mars 2005, af http://www.egglestontrust.com/ancient_intro.html Geymt 10 janúar 2010 í Wayback Machine
- Kernan, Natan (November - Desember 2001). William Eggleston's Deomcratic Photography The Los Alamos Project. Art on Paper.
- Marien, Mary Warner (2002). Photography - A Cultural History. London: Laurence King Publishing.
- Oddy (Haust, 2002). A Democratic Eye. Modern Painters
- The J. Paul Getty Trust (2004a). Greenwood, Mississippi. Sótt 4. mars 2005, af http://www.getty.edu/art/collections/objects/o134392.html Geymt 5 janúar 2006 í Wayback Machine