Gottorp
Gottorp er eyðibýli við vestanvert Hópið í Vestur-Húnavatnssýslu, rétt vestan við ósa Víðidalsár. Lauritz Gottrup lögmaður á Þingeyrum stofnaði býlið út úr jörðinni Ásbjarnarnesi, á rústum gamals eyðibýlis sem hét Þórdísarstaðir, rétt fyrir aldamótin 1700 (líklega 1694 eða 95) og lét býlið heita Gottrup eða Gottorph í höfuðið á eigandanum. Orsök þess að lögmaðurinn lét byggja ætla menn að hafi verið að jörðin sjálf, Ásbjarnarnes myndi eyðileggjast vegna ágangs sands. Í Sjávarborgarannál (skr. 1727-1729) segir svo frá árið 1692: Þá féll sandur yfir allan bæinn Ásbjarnarnes í Vestarahópi (er Víga-Barði bjó á forðum) og aftók hann hreint, ásamt tún allt. Kom þetta sandfallsrok og drif úr Þingeyrasandi í sterku norðanveðri. Var þar eftir bærinn (sem nú er nefndur) Gottrup settur á einn útarm eður tanga áðurtéðrar jarðar, og er nú 10 hndr. leiga. (Annálar 1400-1800, IV, 314-315).
Ættarnafnið Gottrup er frá Suður-Slésvík, kennt við Gottorp Slot. Fyrri liður nafnsins er talinn vera mannsnafnið Goti en seinni liðurinn samsvarar orðinu þorp. Hertogaættin sem kennd var við Gottorp var komin af Friðriki I Danakonungi. Suðurjóskir hertogar sátu í Gottorp frá 1268-1713 en síðan voru þar herbúðir frá 1850-1945. Frá 1947 er þar minja- og skjalasafn fyrir Suður-Slésvík.
Í Gottorp þykir fagurt um að litast niður við Hópið þar sem Skollanes gengur norður í vatnið. Stapi er um 60 metra hár klettur sem er í miðju landi jarðarinnar og sést víða að.
Síðari hluta 19. aldar áttu þeir Þingeyrarfeðgar Ásgeir Einarsson, f. 1809, alþingismaður og síðar sonur hans, hinn kunni hesta- vísna- kvenna- og vínmaður Jón Ásgeirsson, f. 1839 Gottorp, ásamt fleiri jörðum við Húnafjörð og vötnin þar (Þingeyrar, Leysingjastaði, Geirastaði, Sigríðastaði, Ásbjarnarnes og Gottorp).
Um skeið, 1836-37 bjó í Gottorp Vatnsenda-Rósa, sem löngu var landskunn af vísum sínum, en ekki síður vegna ástamála sinna. Í Gottorp bjó hún ásamt elskhuga sínum, Gísla Gíslasyni áður en þau fluttust til Ólafsvíkur og giftust þar. Vatnsenda-Rósa bjó áður um skeið á Vatnsenda sem er býli vestan við sem Gottorp og stendur við norðurenda Vesturhópsvatns. Rósa bjó þar með manni sínum Ólafi og viðhaldi sínu Natani Ketilssyni sem frægur var fyrir lækningar sínar, en var síðar myrtur og morðingjarnir (Friðrik og Agnes) tekin af lífi í síðustu aftöku á Íslandi 12. janúar 1830.
Á fyrri hluta 20. aldar (1908-1942) bjó í Gottorp rithöfundurinn og hestamaðurinn Ásgeir Jónsson frá Gottorp, f. 1876, sonur Jóns Ásgeirssonar frá Þingeyrum, en Ásgeir er jafnan er kenndur við Gottorp. Ásgeir skrifaði bækurnar Horfnir góðhestar, I og II bindi Forystufé og Samskipti manns og hests eftir miðja öldina.
Við Kerlingarsíki er heimagrafreitur sem gerður var árið 1963 og var það síðasti heimagrafreitur sem leyfi var gefið fyrir á Íslandi. Þar voru hjónin frá í Gottorp, Ásgeir og kona hans Ingibjörg Björnsdóttir, f. 1886, lögð til hvílu í steyptu grafhýsi. Þar hjá var Blesi, hinn frægi hestur Ásgeirs, heygður á staðnum þar sem hann stóð jafnan og horfði yfir til æskustöðvanna í Vatnsdalnum.
Um miðja 20 öldina eignaðist bróðursonur Ásgeirs, Steinþór Ásgeirsson, f. 1912 verktaki í Reykjavík, jörðina og rak þar hrossabú um áratugaskeið, en bjó þar ekki sjálfur. Í dag er jörðin enn í eigu þessarar sömu ættar, því hana eiga dóttir Steinþórs og tveir synir hennar. Íbúðarhúsið í Gottorp stendur enn og er notað sem sumarbústaður.