Nansenskrifstofan
Alþjóðlega Nansenskrifstofan fyrir flóttamenn (fr. Office International Nansen pour les Réfugiés) var stofnun sem tók til starfa innan Þjóðabandalagsins árið 1930 og var nefnd eftir Fridtjof Nansen eftir dauða hans. Skrifstofan sá um alþjóðahjálp fyrir flóttamenn frá stríðshrjáðum svæðum á árunum 1930 til 1939. Skrifstofan þróaði svokallaða Nansenpassa sem heimiluðu fólki án ríkisfangs að ferðast milli landa. Stofnunin hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1938.[1][2]
Saga
Þjóðabandalagið stofnaði Nansenskrifstofuna árið 1930, stuttu eftir dauða Fridtjofs Nansen, til þess að halda áfram störfum Nansens til aðstoðar flóttamönnum. Skrifstofan var því arftaki stofnunarinnar sem Nansen hafði komið á fót í Genf árið 1921.[1] Þjóðabandalagið sá einnig um að fjármagna stjórn Nansenskrifstofunnar, en aðeins til að greiða fyrir útgáfu Nansenpassanna þar sem hjálparstörf skrifstofunnar voru fjármögnuð með einkaframlögum.
Tilgangur skrifstofunnar var að sjá flóttamönnum fyrir birgðum og pólitískri aðstoð. Hjálp Nansenskrifstofunnar náði ekki til flóttamanna frá þriðja ríkinu eða Spáni á tímum spænsku borgarastyrjaldarinnar þótt mörg lönd hafi neitað að taka við flóttamönnum þaðan.
Þrátt fyrir þessi vandamál vann Nansenskrifstofan til friðarverðlauna Nóbels árið 1938 en þar sem stofnunin var leyst upp stuttu síðar rann verðlaunaféð til nýrra flóttamannastofnana Þjóðabandalagsins. Þær stofnanir voru síðar leystar upp vegna vandræða með þýska flóttamenn eftir upplausn þriðja ríkisins.
-
Forsíða á Nansenpassa,
lögreglustöð í Prag, 1930 -
Stimpill í Nansenpassa,
Nansenskrifstofunni
Afrek
Nansenskrifstofan innti ýmis verk af hendi á meðan hún starfaði. Skrifstofan stóð fyrir því að fjórtán ríki samþykktu flóttamálasáttmála með nokkrum grunnmannréttindum árið 1933.[3][4][5][6] Skrifstofan lék lykilhlutverk í að byggja skýli fyrir 40.000 armenska flóttamenn í þorpum í Sýrlandi og Líbanon eftir að 10.000 aðrir höfðu verið fluttir til Jerevan.
Nansenskrifstofan sá einnig um að flytja flóttamenn frá Saarlandi til Paragvæ eftir að Þýskaland tók aftur við stjórn Saarlands árið 1935.[7]
Friðarverðlaun Nóbels
Nansenskrifstofan hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1938 fyrir að þróa Nansenpassana.[8][9]
Tengt efni
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 „Nansen International Office for Refugees - History“. www.nobelprize.org.
- ↑ „Archived copy“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2015. Sótt 10. apríl 2020.
- ↑ Beck, RobertJ (20. október 1999). „Britain and the 1933 Refugee Convention: National or State Sovereignty?“. International Journal of Refugee Law. 11 (4): 597–624. doi:10.1093/ijrl/11.4.597.
- ↑ Refugees, United Nations High Commissioner for. „Refworld - Convention Relating to the International Status of Refugees“.
- ↑ „Convention on the International Status of Refugees“. 28. október 1933.
- ↑ Gilbert Jaeger, “On the History of the International Protection of Refugees,” International Review of the Red Cross (Revue Internationale de la Croix-Rouge), vol. 83, no. 843 (September 2001).
- ↑ „Nansen International Office for Refugees - History“. www.nobelprize.org.
- ↑ Fridtjof Nansen Geymt 26 maí 2013 í Wayback Machine, Nobelprize.org, 1922. Skoðað 10. apríl 2020.
- ↑ „The Nansen International Office for Refugees - Nobel Lecture“. www.nobelprize.org.