Istanbúl
Istanbúl
İstanbul | |
---|---|
Hnit: 41°00′49″N 28°57′18″A / 41.01361°N 28.95500°A | |
Land | Tyrkland |
Sýsla | Istanbul-sýsla |
Stjórnarfar | |
• Borgarstjóri | Ekrem İmamoğlu (CHP) |
Flatarmál | |
• Stórborgarsvæðið | 2.576,85 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 537 m |
Mannfjöldi (23. desember 2023[1]) | |
• Stórborgarsvæðið | 15.655.924 |
• Þéttleiki | 5.939/km2 |
Tímabelti | UTC+03:00 |
Póstnúmer | 34000 til 34990 |
Svæðisnúmer | +90 212 (Evrópu megin) +90 216 (Asíu megin) |
Vefsíða | ibb.istanbul istanbul.gov.tr |
Istanbúl (tyrkneska: İstanbul) er stærsta borg Tyrklands og fyrrum höfuðborg Tyrkjaveldis frá því skömmu eftir fall borgarinnar fyrir her Mehmets 2. þar til það var leyst upp 1922. Borgin stendur beggja vegna Bosporussunds. Hún er eina borg heims sem stendur í tveimur heimsálfum; bæði í Evrópu (Þrakíu) og Asíu (Anatólíu). Árið 2020 bjuggu um 15,5 milljónir í borginni, eða tæpur fimmtungur allra íbúa Tyrklands, sem gerir hana að stærstu borg í Evrópu.
Borgin var stofnuð á 7. öld f.Kr. sem bærinn Býsantíon af grískum landnemum frá Megara.[2] Árið 330 gerði rómverski keisarinn Konstantínus mikli bæinn að höfuðborg sinni og nefndi hann fyrst Nýju Róm (Nova Roma)[3] en síðan Konstantínópólis eftir sjálfum sér.[3][4] Borgin óx hratt eftir það og varð ein af endastöðvum silkivegarins og ein af mikilvægustu borgum sögunnar.
Í nærri 16 aldir var borgin höfuðborg keisaraveldis, fyrst 330–1453 í Austrómverska veldinu og síðan 1453–1922 í Tyrkjaveldi. Borgin lék lykilhlutverk í framgangi kristni á tímum Rómaveldis. Þar voru haldin fjögur af fyrstu sjö kirkjuþingunum, þar á meðal kirkjuþingið í Kalkedón. Eftir fall Konstantínópel varð hún ein af helstu borgum íslam, sérstaklega eftir stofnun kalífadæmis Ottómana árið 1513.[5]
Eftir sjálfstæðisstríð Tyrklands 1923 tók Ankara við sem höfuðborg hins nýstofnaða lýðveldis Tyrklands. Árið 1930 var nafni borgarinnar formlega breytt í Istanbúl.
Árið 2018 komu yfir 13 milljón erlendir ferðamenn til Istanbúl eftir að borgin varð menningarborg Evrópu, sem gerði hana að 8. mest heimsóttu borg heims.[6] Í Istanbúl er fjöldi staða á heimsminjaskrá UNESCO og höfuðstöðvar margra tyrkneskra fyrirtækja.[7][8]
Nafn
Istanbúl hefur borið mörg nöfn. Hún var fyrst byggð af grískum nýlendumönnum frá Megöru um 660 f.Kr. og hét þá Βυζάντιον Býzantíon. Árið 330 gerði Konstantínus mikli, keisari Rómaveldis, borgina að höfuðstað hins rómverska ríkis og var bærinn síðan kallaður Κωνσταντινούπολις Konstantínúpólis („borg Konstantínusar“) eða Konstantínópel. Í fornkirkjuslavnesku var borgin nefnd Цѣсарьградъ Tsarjgradj („keisaraborg“). Á víkingaöldinni og lengur kölluðu norrænar þjóðir borgina Miklagarð („hina miklu borg“). Á tímum Tyrkjaveldis var borgin ýmist kölluð قسطنطينيه Ḳosṭanṭīnīye eða İstanbul.
Nafnið Istanbúl er talið dregið af grísku orðunum εἰς τὴν Πόλιν eis ten Pólin („til borgarinnar“).[9] Grikkir notuðu þetta heiti almennt til að vísa til borgarinnar, enda var hún eina borgin á þessu svæði. Ottómanar notuðu líka ýmis auknefni yfir borgina, eins og Der Saadet („gnægtahliðið“).[10] Aðrir höfundar hafa haldið því fram að Istanbúl sé dregið af Konstantínópel með fyrsta og þriðja atkvæði fellt niður.[11] Tyrkneskar heimildir frá 17. öld tala um það sem almennt heiti borgarinnar, en fyrstu peningarnir með heitinu اسلامبول Islambol voru slegnir árið 1730 í valdatíð soldánsins Mahmud 1. Í nútímatyrknesku er nafnið ritað İstanbul með punkti yfir i-inu. Áherslan í tyrknesku er á annað atkvæðið tan.
Saga Istanbúl
Upphaf borgarinnar
Fyrstu heimildir um borg þar sem Istanbúl er nú, eru frá árinu 657 fyrir Krist þegar grískir landnemar frá borgini Megara stofnuðu nýja borg sem þeir kölluðu Býsanskt. Borgin var hertekinn af mörgum nágrannaríkjum til dæmis Persíu, Aþenu og Spörtu. Eftir að Rómaveldi lagði undir sig Býsanskt sýndu þeir borginni meiri áhuga en önnur veldi og byrjuðu að byggja hana upp.
Rómaveldi og Býsanska veldið
Árið 285 var Rómaveldi skipt í tvennt og varð Býsanskt að höfuðborg austurhlutans árið 330. Nafnið borgarinnar var einnig breytt í Konstantínópel eftir Konstantínusi keisara. Barbarar sem komu frá austurhluta Evrópu réðust á vesturhluta Rómaveldis og leið það undir lok á 5.öld. Austurhluti Rómaveldis stóð enn, en býsanski keisarinn Justinianus I ákvað að byggja háa varnamúra utan um Konstantíópel. Þessir múrar voru frægir víða um álfuna og þekktir sem þeódósísku veggirnir. Árið 532 var gerð uppreisn geng Justinianus eftir að hann lagði þunga skatta á almúgann. Í uppreisninni brann nærri helmingur Konstantínópel og einnig kirkjan Hagía Sofía. Eftir að Justinianus var búinn að berja uppreisnina niður byrjaði hann strax að byggja Konstantínópel upp úr öskunni.
Hámiðaldir
Árið 1197 braust út mikill eldur í borginni sem olli töluverðri eyðileggingu. Árið 1202 varð Konstantínópel fyrir árás úr vestri þegar hermenn fjórðu krossferðarinnar ákváðu að ráðast á borgina. Þeir tóku borgina, lögðu hana í rúst og stofnuðu nýtt keisaraveldi. Nokkrum árum eftir að fjórðu krossferðinni lauk, risu grískumælandi íbúar Konstantínópel upp gegn innrásarhernum og hröktu keisara hans í burtu.
Fall Konstantínópel
Á síðmiðöldum var sótt víða að Konstantínópel og kepptust nágrannaríki um að leggja hana undir sig. Eftir stanslaus borgarastríð og landvinninga Tyrkja í Anatólíu, stóð borgin frami fyrir mikilli ógn. Árið 1453 gerðu Tyrkir umsátur um borgina. Borgin hefði átti að þola marga mánaða umsátur en þar sem gleymdist að verja eitt hliðið og nýttu Tyrkir sér það og réðust inn í borgina. Lögðu þeir hana í rúst en byggðu hana upp aftur. Tyrkir breyttu nafninu í Istanbul og varð hún höfuðborg Tyrkjaveldis.
Höfuðborg Tyrkjaveldis
Eftir að Tyrkir höfðu lagt borgina undir sig, hófst Tyrkjasoldán, Mehmet 2., þegar handa við að endurreisa borgina og gera hana að höfuðborg. Hann bauð alla velkomna þangað, bæði úr Evrópu og Asíu, og tyrknesk stjórnvöld reyndust mjög opin fyrir aðkomufólki af öllu tagi. Hann hóf miklar framkvæmdir í borginni, reisti vegi og áveitur, byggði Topkapı-höll sem var stærri en gamla keisarahöllin og yfirbyggðan markað. Borgin byggðist smám saman að nýju eftir langt hnignunarskeið undir síðustu keisurunum.
Árið 1517 gerði Tyrkjaveldi tilkall til þess að teljast kalífadæmi. Istanbúl var höfuðborg þessa síðasta kalífadæmis í fjórar aldir. Borgin blómstraði í valdatíð Súleimans mikla frá 1520 til 1566 þegar arkitektinn Mimar Sinan hannaði margar byggingar borgarinnar, eins og mosku Súleimans. Undir lok 18. aldar voru íbúar borgarinnar um 570.000. Á 19. öld voru nýjar brýr reistar yfir Gullhornið og borgin tengdist evrópska járnbrautarnetinu árið 1880. Nútímaveitukerfi voru smám saman innleidd í borginni, þótt það gerðist seinna en í mörgum öðrum evrópskum borgum.
Í miðju sjálfstæðisstríði Tyrklands, eftir ósigur í fyrri heimsstyrjöld, lýsti Mustafa Kemal Atatürk yfir stofnun nýs þings í Ankara árið 1920. Síðasti soldáninn, Mehmet 6., yfirgaf borgina 17. nóvember 1922 um borð í bresku herskipi. Hernámi Istanbúl lauk árið eftir og sveitir tyrknesku stjórnarinnar í Ankara héldu inn í borgina í október 1923. Eftir síðari heimsstyrjöld voru gerðar miklar breytingar á borginni með breiðari götum og nýjum torgum, sem oft fólu í sér niðurrif eldri bygginga. Borgin stækkaði ört vegna aðflutnings frá Anatólíu og nærliggjandi byggðir runnu saman við borgarsvæðið.
Tilvísanir
- ↑ „The Results of Address Based Population Registration System, 2023“. www.tuik.gov.tr. Hagstofa Tyrklands. 6. febrúar 2024. Sótt 6. febrúar 2024.
- ↑ Judith Herrin (28. september 2009). Byzantium: The Surprising Life of a Medieval Empire. Princeton University Press. bls. 5. ISBN 978-0-691-14369-9. OCLC 1091569907.
- ↑ 3,0 3,1 „Istanbul“. Encyclopædia Britannica.
- ↑ Mango, Cyril (1991). "Constantinople". In Kazhdan, Alexander (ed.). The Oxford Dictionary of Byzantium. Oxford and New York: Oxford University Press. pp. 508–512.
- ↑ Masters, Bruce Alan; Ágoston, Gábor (2009). Encyclopedia of the Ottoman Empire. New York: Infobase Publishing. pp=114–15.
- ↑ „Top city destinations by overnight visitors“. Statista. Sótt 1. desember 2020.
- ↑ Heper, Metin (2018). „Istanbul“. Historical dictionary of Turkey (4th. útgáfa). Lanham, MD: Rowman & Littlefield. ISBN 978-1-5381-0224-4.
- ↑ OECD Territorial Reviews: Istanbul, Turkey. mars 2008. ISBN 978-92-64-04383-1.
- ↑ Necdet Sakaoğlu (1993/94a): "İstanbul'un adları". Í: Dünden bugüne İstanbul ansiklopedisi, ed. Türkiye Kültür Bakanlığı, Istanbul.
- ↑ Grosvenor, Edwin Augustus (1895). Constantinople. 1. árgangur. Roberts Brothers. bls. 69. Sótt 15. mars 2021.
- ↑ Room, Adrian (2006). Placenames of the World: Origins and Meanings of the Names for 6,600 Countries, Cities, Territories, Natural Features, and Historic Sites (2nd ed.). Jefferson, NC: McFarland & Company.
Heimildaskrá
- Fyrirmynd greinarinnar var „Justinian I“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. Apríl 2018.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Istanbul“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. Apríl 2018.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Byzantium“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. Apríl 2018.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Fall of Constantinople“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. Apríl 2018.
Tenglar
- Siglaugur Brynleifsson (19. febrúar 1967). „Konstantínópel“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 5-6; 15.
- „Býzans“. Lesbók Morgunblaðsins. 20. september 1964. bls. 1; 12-13.