Fara í innihald

Guillermo Subiabre

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Guillermo Subiabre.

Guillermo Subiabre Astorga (f. 25. febrúar 1903 - d. 11. apríl 1964) var knattspyrnumaður frá Síle. Hann sem keppti fyrir hönd þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum 1928 og fyrstu heimsmeistarakeppninni árið 1930 þar sem hann skoraði tvö mörk.

Ævi og ferill

Guillermo Subiabre fæddist í borginni Osorno þar sem hann hóf að leika með áhugamannaliðinu Rangers F.C. Hann skráði sig í sjóherinn og gekk um leið til liðs við Santiago Wanderers frá Valparaiso, elsta knattspyrnufélag Síle og eitt það elsta í Rómönsku Ameríku. Frammistaðan þar tryggði honum sæti í landsliðinu sem lék á heimavelli í Copa America árið 1926. Þar skoraði Subiabre tvö mörk, í stórsigri á Bólivíu og í tapi gegn Úrúgvæ.

Lykilmaður síleska landsliðsins í keppninni 1926 var framherjinn David Arellano, fyrirliði og markakóngur keppninnar. Hann hafði skömmu fyrr stofnað knattspyrnufélagið Colo-Colo ásamt hópi ungra manna í Santíagó. Kynni þeirra leiddu til þess að Subiabre gekk til liðs við Colo-Colo í kjölfar Suður-Ameríkukeppninnar í árslok 1926 og varð þegar hluti af gríðarsterkri sveit sem var nýbúin að vinna Santíagó-meitarakeppnina, sterkasta knattspyrnumót Síle, án þess að tapa leik.

Colo-Colo réðst í hálfs árs keppnisferð í janúar 1927 þar sem leiknir voru 43 leikir í 8 löndum, í Suður-Ameríku, Norður-Ameríku en flestir þó á Spáni og í Portúgal. Sá sorgaratburður varð um miðbik ferðarinnar að í leik gegn Real Valladolid að David Arellano meiddist alvarlega og lést í kjölfarið vegna innri blæðinga. Keppnisferðinni var þó haldið áfram og tók Subiabre við leiðtogahlutverkinu af hinum fallna félaga.

Subiabre hélt aftur til Evrópu sumarið 1928, í það skiptið til að leika með landsliði Síle á Ólympíuleikunum í Amsterdam. Sautján lið voru skráð til keppni og þurfti Síle því að keppa um laust sæti í 16-liða úrslitunum við Portúgal. Leikurinn tapaðist 4:2. Ferðalagið var þó ekki alveg til einskis því skipuleggjendur settu upp aukakeppni fjögurra liða sem fallið höfðu snemma úr leik. Þar unnu Sílebúar lið Mexíkó 3:1, þar sem Subiabre skoraði þrennu. Í úrslitaleiknum gerðu Síle og Holland 2:2 jafntefli. Eftir leikinn var varpað hlutkesti um hvort liðið teldist sigurvegari. Hollendingar unnu en í ands góðrar íþróttamennsku var ákveðið að afhenda Sílebúum bikarinn.

Tveimur árum síðar mætti Síle til leiks á HM í Úrúgvæ og lenti í eina fjögurra liða riðlinum í keppninni. Í fyrsta leik unnu Sílemenn lið Mexíkó 3:0, þar sem athygli vakti að Subiabre gat ekki dulið óánægju sína í leikslok, þrátt fyrir sigurinn, yfir að hafa ekki náð að skora sjálfur. Í næsta leik skoraði hann eina markið í 1:0 sigri á Frökkum. Við tók hreinn úrslitaleikur gegn Argentínu um sigur í riðlinum. Subiabre náði þar að minnka muninn í 2:1 snemma leiks en Argentína bætti við þriðja markinu og þar við sat.

Subiabre varð þrívegis Santíagó-meistari með Colo-Colo á árunum 1928-30 og var útnefndur heiðursfélagi árið 1934 eftir að hafa lagt skóna á hilluna. Að knattspyrnuferlinum loknum gerðist hann starfsmaður hjá sílesku skattstofunni en átti þó reglulega eftir að koma að málum hjá Colo-Colo sem stjórnarmaður eða þjálfari. Hann lést árið 1964.

Heimildir