Fara í innihald

Ari Magnússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Ari Magnússon (eða Ari í Ögri) (157111. október 1652) var sýslumaður á Vestfjörðum og bjó í Ögri við Ísafjarðardjúp og er oftast kenndur við þann stað.

Foreldrar Ara voru Magnús Jónsson prúði, sýslumaður í á Rauðasandi, og kona hans, Ragnheiður dóttir Eggerts lögmanns Hannessonar. Jón kallaður murti móðurbróðir Ara, hafði flúið land eftir að hafa orðið mannsbani og sest að í Hamborg, eins þreytti Eggert afi hans þar síðustu æviárin. Ari átti því nána ættingja þar og var sendur þangað ungur til náms; í erfiljóði segir að hann hafi verið þar í níu ár fyrir tvítugt. Hann mun því hafa verið mjög vel menntaður á síns tíma vísu.

Ari var fyrst sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en síðar í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Hann var einnig umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu og mun því hafa verið mjög valdamikill maður og stórauðugur. Hann þótti harður í horn að taka.

Einna þekktastur er hann fyrir Spánverjavígin svokölluðu, þegar þrjú basknesk hvalveiðiskip brotnuðu á Reykjarfirði á Ströndum en 83 menn björguðust. Þeir skiptu sér í hópa og dreifðust um Vestfirði. Sumir þeirra voru drepnir í Dýrafirði, Ari stýrði herleiðangri út í Æðey, þar sem átján menn voru vegnir, en flestir Baskanna þraukuðu um veturinn á Vatneyri við Patreksfjörð og náðu um vorið erlendu fiskiskipi og komust á brott. Konungur hafði fellt þann úrskurð að þeir væru réttdræpir, en alltaf hafa þessi víg þótt heldur nöturleg í Íslandssögunni.

Ari er sagður hafa verið einkar höfðinglegur ásýndum, jötunn að burðum og manna hávaxnastur. Kona hans, gift 1594, var Kristín Guðbrandsdóttir (1574-1652), dóttir Guðbrands Þorlákssonar, biskups á Hólum. Börn þeirra voru Magnús sýslumaður á Reykhólum, Þorlákur bóndi í Súðavík, Halldóra kona Guðmundar Hákonarsonar sýslumanns á Þingeyrum, Helga og Jón, skólameistari í Skálholti og síðar lengi prestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp.

Tenglar