Fara í innihald

Mótmælin í Hong Kong 2019–20

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 5. október 2023 kl. 17:56 eftir Snaevar-bot (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. október 2023 kl. 17:56 eftir Snaevar-bot (spjall | framlög) (laga CS1 villur using AWB)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Hong Kong-búar í mótmælagöngu þann 9. júní árið 2019.

Mótmælin í Hong Kong voru fjöldamótmæli í kínversku sérstjórnarborginni Hong Kong sem hófust í júní árið 2019. Mótmælin beindust upphaflega gegn umdeildu lagafrumvarpi sem átti að leyfa framsal dæmdra glæpamanna frá Hong Kong til meginlandsstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína. Mótmælendur telja frumvarpið vera lið í þvinguðu aðlögunarferli Hong Kong að stjórnarkerfi alþýðulýðveldisins sem brjóti í bága við þau fyrirheit sem gefin voru um að Hong Kong fengi að viðhalda eigin stjórn, stjórnarháttum og lagakerfi í 50 ár frá því að borgin komst undir kínverska stjórn árið 1997.[1] Formlega var hætt við frumvarpið þann 4. september en mótmælin hafa haldið áfram, enda beinast þau einnig af víðari samfélagslegum þáttum, meðal annars áhyggjum af mannréttindum, málfrelsi og kynfrelsi.[2]

Þann 9. júní mótmæltu tugþúsundir íbúa Hong Kong lagafrumvarpi um framsal glæpamanna til meginlandsstjórnar alþýðulýðveldisins. Mótmælendurnir töldu frumvarpið gera kommúnistastjórn landsins kleift að áreita pólitíska andstæðinga sína í Hong Kong en stuðningsmenn frumvarpsins bentu hins vegar á að fyrirvarar væru í lagafrumvarpinu sem kæmu í veg fyrir framsal á grundvelli trúar- eða stjórnmálaskoðana.[3] Lögin áttu einnig að leyfa framsal glæpamanna frá Hong Kong til Taívan og Maká, en samkvæmt stjórnvöldum átti að setja lögin til þess að heimila framsal Hong Kong-búa sem hafði myrt kærustu sína í fríi á Taívan en flúið heim til Hong Kong áður en til hans náðist.[4] Í mótmælunum kom til átaka milli mótmælenda og lögreglunnar, sem beitti kylfum og piparúða til að hafa hemil á mannfjöldanum.[5]

Efnt var til frekari mótmæla á næstu dögum eftir að Carrie Lam, stjórnarformaður Hong Kong, neitaði að draga frumvarpið til baka eða fresta því.[6] Þegar mótmælendur komu saman á ný þann 12. júní kom til frekari átaka við lögregluna, sem skaut gúmmíkúlum að mótmælendunum og beitti táragasi til að ná stjórn á mótmælunum.[4] Vegna óeirðanna var ríkisstofnunum Hong Kong lokað og umræðu um frumvarpið á löggjafarþingi Hong Kong frestað þann 13. júní.[7] Tveimur dögum síðar tilkynnti Carrie Lam síðan að hlé hefði verið gert á áformum um frumvarpið og að engin dagsetning hefði verið ákveðin um að taka það upp að nýju.[8] Tilkynning Lams nægði ekki til að sefa mótmælendurna, sem komu áfram saman á næstu dögum og kröfðust þess að alfarið yrði hætt við öll áform um að leyfa framsal glæpamanna til meginlandsins.[9]

Þann 1. júlí, 22 ár upp á dag frá því að Bretar afhentu Kínverjum stjórn yfir Hong Kong, brutust mótmælendur inn í þinghús borgarinnar og óeirðalögregla var kölluð á vettvang til að hrekja þá út.[10] Lam lýsti því yfir þann 9. júlí að frumvarpið sem leiddi til mótmælanna væri í reynd „dautt“ og að vinna við það hefði verið „algjört klúður“.[11]

Þann 4. september 2019 tilkynnti Lam að frumvarpið umdeilda hefði verið formlega dregið til baka. Margir leiðtogar mótmælendanna töldu þetta þó vera of lítið og of seint og settu fram frekari kröfur, meðal annars um óháða rannsókn á framgöngu lögreglu á undanförnum mánuðum, sakaruppgjöf þeirra sem höfðu verið handteknir í mótmælunum og að stjórnvöld Alþýðulýðveldisins hefðu ekki frekari afskipti af kosningum í Hong Kong.[12]

Í aðdraganda 70 ára afmælis Alþýðulýðveldisins þann 1. október efndu Hong Kong-búar til fjögurra sólarhringa mótmæla sem ætlað var að draga athyglina frá hátíðarhöldum og hersýningum stjórnvalda í Peking.[13] Á afmælisdegi Alþýðulýðveldisins var mótmælandi skotinn í bringuna og fluttur á sjúkrahús. Að minnsta kosti 14 til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús vegna ýmissa áverka.[14]

Þann 4. október virkjaði Lam gömul neyðarlög frá tíma breskra yfirráða í Hong Kong og bannaði Hong Kong-búum að bera grímur. Margir þátttakendur í fyrri mótmælum ársins höfðu hulið andlit sín til að forðast að kínversk stjórnvöld leiti hefnda gegn þeim.[15]

Héraðskosningar fóru fram í Hong Kong þann 24. nóvember í skugga mótmælanna. Kjörsókn var mjög góð, eða rúm sjötíu prósent.[16] Í kosningunum tapaði helsti flokkurinn sem styður náið samstarf við meginlandsstjórn Alþýðulýðveldisins 155 af 182 þingsætum sínum á héraðsþingi borgarinnar en flokkar sem styðja aukið lýðræði og sjálfstjórn bættu við sig samtals um 263 sætum og náðu þingmeirihluta. Litið var á kosningarnar sem prófstein á stuðningi Hong Kong-búa við mótmælin en Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, sagði útkomu þeirra þó engu breyta um samband Alþýðulýðveldisins við Hong Kong.[17]

Mótmælunum hafði að mestu verið hætt um miðjan mars 2020 vegna kórónaveirufaraldursins sem átti upptök sín í Wuhan á meginlandi Kína.[18]

Í maí árið 2020 var frumvarp lagt fram á kínverska Alþýðuþinginu um öryggislög sem banna uppreisnaráróður, landráð og sjálfstæðisumleitanir sérstjórnarhéraðsins.[19] Öryggislögin voru samþykkt á kínverska þinginu þann 22. maí og er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir mótmæli af sömu stærðargráðu og áður í Hong Kong.[20]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Af hverju skiluðu Bretar Hong Kong aftur til Kínverja?“. Vísindavefurinn.
  2. „„Rafmagnað" andrúmsloft í Hong Kong“. mbl.is. 18. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  3. „Fjöldamótmæli Í Hong Kong vegna framsalsfrumvarps“. mbl.is. 9. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  4. 4,0 4,1 „Mótmæli magnast í Hong Kong“. mbl.is. 12. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  5. „Átök vegna fjöldamótmæla í Hong Kong“. mbl.is. 9. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  6. „Boða ný fjöldamótmæli“. mbl.is. 10. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  7. „Ríkisstofnanir lokaðar eftir óeirðir“. mbl.is. 13. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  8. „Stjórnvöld í Hong Kong hætta við áform“. mbl.is. 15. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  9. „Mótmælin halda áfram í Hong Kong“. mbl.is. 16. júní 2019. Sótt 2. október 2019.
  10. „Rýmdu þinghúsið með gasi og kylfum“. mbl.is. 1. júlí 2019. Sótt 2. október 2019.
  11. „Framsalsfrumvarpið „dautt". mbl.is. 9. júlí 2019. Sótt 2. október 2019.
  12. „Umdeilt frumvarp formlega dregið til baka“. RÚV. 4. september 2019. Sótt 2. október 2019.
  13. Ásgeir Tómasson (27. september 2019). „Fjögurra sólarhringa mótmæli í Hong Kong“. RÚV. Sótt 2. október 2019.
  14. „Mótmælandi skotinn af lögreglu í Hong Kong“. mbl.is. 1. október 2019. Sótt 2. október 2019.
  15. Gunnar Reynir Valþórsson; Samúel Karl Ólason (4. október 2019). „Yfirvöld Hong Kong banna grímur“. Vísir. Sótt 4. október 2019.
  16. Dagný Hulda Erlendsdóttir (24. nóvember 2019). „Kjörsókn í Hong kong í hæstu hæðum“. RÚV. Sótt 25. nóvember 2019.
  17. Róbert Jóhannsson (25. nóvember 2019). „Segir niðurstöðu kosninga engu breyta fyrir Hong Kong“. RÚV. Sótt 25. nóvember 2019.
  18. Davidson, Helen (15. mars 2020). „Hong Kong: with coronavirus curbed, protests may return“. The Guardian.
  19. „Vilja innleiða ný öryggislög í Hong Kong“. mbl.is. 21. maí 2020. Sótt 1. júlí 2020.
  20. „Umdeild öryggislög um Hong Kong samþykkt“. mbl.is. 22. maí 2020. Sótt 1. júlí 2020.