Fara í innihald

Annað ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 22. maí 2021 kl. 21:53 eftir 89.160.233.104 (spjall) Útgáfa frá 22. maí 2021 kl. 21:53 eftir 89.160.233.104 (spjall)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)

Annað ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar eða Vinstristjórnin er heiti á ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem sat frá 1. september 1978 - 15. október 1979. Stjórnina mynduðu Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag. Ríkisstjórnin sprakk vegna ágreinings um aðgerðir í efnahagsmálum.

Ráðherrar

[breyta | breyta frumkóða]

Aðdragandi og stjórnarmyndun

[breyta | breyta frumkóða]

Alþingiskosningarnar 1978 fóru fram 25. júlí og lauk með stórsigri A-flokkanna, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Samanlagt fylgi þeirra var um 45% og fékk hvor flokkur fjórtán þingmenn af þeim sextíu sem sæti áttu á Alþingi. Var það mesta kjörfylgi íslenskra vinstrimanna allt fram að Alþingiskosningunum 2009. Mikil vinstrisveifla var í samfélaginu sem birtist m.a. í því að borgarstjórnarkosningunum sama vor féll meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjavík í fyrsta sinn.

Flokkarnir sem skipað höfðu fyrri ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, guldu afhroð í kosningunum og töpuðu fimm þingmönnum hvor flokkur. Erfiðleikar í efnahagsmálum höfðu orðið til þess að ríkisstjórnin setti lög til að draga úr launahækkunum sem viku til hliðar gildandi kjarasamningum. Slagorð stjórnarandstöðuflokkanna í kosningabaráttunni var Samningana í gildi, sem reyndist til vinsælda fallið.

Við tóku þungar stjórnarmyndunarviðræður sem stóðu í tvo mánuði. Niðurstaðan var talin mikill sigur Framsóknarflokksins sem hlaut forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneyti að viðbættum dómsmálum og landbúnaðarmálum, þrátt fyrir slæmt gengi í kosningunum sjálfum. Fannst ýmsum þetta skjóta skökku við. Var einkum þungt hljóðið í þingmönnum Alþýðuflokks með þessi málalok og tilkynnti Vilmundur Gylfason að hann styddi stjórnina til góðra verka en væri að öðru leyti frjáls þingmaður. Átti þessi kergja vafalítið sinn þátt í örlögum stjórnarinnar.

Stefnumál og aðgerðir

[breyta | breyta frumkóða]

Stærstu áskoranir nýrrar stjórnar lágu á sviði efnahagsmála. Verðbólga var mikil og víxlhækkanir verðlags og launa ýttu undir hana. Lög fyrri ríkisstjórnar á umsamdar launahækkanir voru afnumin og Sólstöðusamningarnir frá 1977 því látnir taka gildi á nýjan leik. Gengið var fellt um 15% en til að milda áhrif þess var gripið til ýmiskonar niðurgreiðslna og vaxtalækkana.

Utanríkismál voru ágreiningsefni milli stjórnarflokkanna, einkum þó afstaðan til hersins á Miðnesheiði og aðildarinnar að NATO. Ekki var stefnt að brottför hersins og mæltist sú ákvörðun illa fyrir meðal margra Alþýðubandalagsmanna. Hins vegar var ákveðið að ekki yrðu heimilaðar neinar nýjar meiri háttar framkvæmdir á vegum varnarliðsins.

Í apríl 1979 samþykkti Alþingi lagafrumvarp landbúnaðarráðherra um framleiðslustjórnun á búvörum. Var það upphaf kvótakerfisins sem verið hefur við lýði í íslenskum landbúnaði upp frá því. Sjávarútvegsráðherra gaf út reglugerð um aflatakmarkanir í þorskveiðum og var það undanfari kvótakerfisins í sjávarútvegi.

Einhver afdrifaríkasta og ákvörðun vinstristjórnarinnar var setning Ólafslaga í apríl 1979. Með þeim voru sjálfkrafa verðbætur á laun skertar verulega. Frumvarpið mæltist illa fyrir í verkalýðshreyfingunni og meðal margra stjórnarliða. Fór því svo að lögin voru ekki borin fram af ríkisstjórninni í heild sinni heldur af forsætisráðherra einum og báru þau því nafn hans.

Með Ólafslögum var verðtrygging heimiluð í lánaviðskiptum og varð hún skjótt almenn. Tilgangurinn var að tryggja sparifé einstaklinga og lánsfé lánardrottna fyrir verðbólgu, en um áratuga skeið höfðu innistæður í bönkum rýrnað í sífellu. Stóðu vonir til að með þessu mætti endurvekta trú á gjaldmiðilinn og ýta undir sparnað. Verðtryggingin, kostir hennar og gallar, áttu eftir að verða eitt helsta bitbein íslenskra stjórnmála næstu áratugina.

Stjórnarslit

[breyta | breyta frumkóða]

Óveðursskýin héldu áfram að hrannast upp í efnahagsmálum þjóðarinnar eftir því sem leið á árið 1979. Verðbólga var mikil og víxlhækkanir verðlags og launa samfelldar, auk þess sem olíuverð hækkaði jafnt og þétt. Loforð A-flokkanna frá kosningunum árið áður um að hrófla ekki við kjarasamningum gerði stöðuna enn þrengri. Þann tíunda október kom þingflokkur Alþýðuflokksins saman til fundar og ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu vegna ósamkomulagsins í efnahagsmálum. Vakti athygli að sú ákvörðun var tekin á meðan flokksformaðurinn, Benedikt Gröndal, var staddur í útlöndum og stóð því frammi fyrir orðnum hlut við heimkomuna.

Ólafur Jóhannesson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt þann 12. október og þremur dögum síðar tók við minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir stjórn Benedikts Gröndals og boðað var til kosninga í desember.

Tilvísanir og heimildir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0295-5.


Fyrirrennari:
Ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar
Ríkisstjórn Íslands
(1. september 197815. október 1979)
Eftirmaður:
Ráðuneyti Benedikts Gröndals