Lionel Jospin
Lionel Jospin (f. 12. júlí 1937) er franskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Frakklands frá 1997 til 2002. Jospin var frambjóðandi franska Sósíalistaflokksins í forsetakosningunum árin 1995 og 2002. Í fyrri kosningunum tapaði hann naumlega fyrir Jacques Chirac í seinni umferðinni. Í kosningunum 2002 komst hann öllum að óvörum ekki í aðra umferð kosninganna þar sem hann fékk færri atkvæði en bæði Chirac og öfgahægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen í fyrri umferðinni. Eftir þennan auðmýkjandi ósigur dró Jospin sig alfarið úr frönskum stjórnmálum.
Lionel Jospin | |
---|---|
Forsætisráðherra Frakklands | |
Í embætti 2. júní 1997 – 6. maí 2002 | |
Forseti | Jacques Chirac |
Forveri | Alain Juppé |
Eftirmaður | Jean-Pierre Raffarin |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 12. júlí 1937 Meudon, Hauts-de-Seine, Frakklandi |
Þjóðerni | Franskur |
Stjórnmálaflokkur | Sósíalistaflokkurinn |
Maki | Élisabeth Dannenmuller (skilin) Sylviane Agacinski |
Börn | Eva Hugo |
Háskóli | Stjórnmálaháskóli Parísar Þjóðlegi stjórnsýsluháskólinn |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaJospin gekk í Stjórnmálaháskóla Parísar og Þjóðlega stjórnsýsluháskólann og vann snemma á ferli sínum sem erindreki. Hann var snemma meðlimur í frönsku trotskíistasamtökunum Organisation communiste internationaliste[1] en gekk í franska Sósíalistaflokkinn árið 1971. Jospin varð fyrsti ritari Sósíalistaflokksins á fyrra kjörtímabili François Mitterrand Frakklandsforseta (1981 – 1988). Á seinna kjörtímabili Mitterrand var Jospin ríkisráðherra, menntamálaráðherra og „næstráðandi ríkisstjórnarinnar“ í stjórnum Michels Rocard og Édith Cresson.
Jospin var kjörinn frambjóðandi Sósíalistaflokksins í forsetakosningunum árið 1995 en tapaði í annarri umferð kosninganna fyrir Jacques Chirac. Jospin varð aftur fyrsti ritari Sósíalistaflokksins næsta október. Sósíalistaflokkurinn vann sigra í þingkosningum árið 1997 og því neyddist Chirac til þess að skipa Jospin forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar. Sem leiðtogi bandalags franskra vinstriflokka stóð Jospin meðal annars fyrir því að komið var á 35 klukkustunda vinnuviku í Frakklandi og fyrir ýmsum velferðarverkefnum sem miðuðu að því að auðvelda ungu fólki aðgang að atvinnugeiranum.
Jospin var aftur frambjóðandi Sósíalistaflokksins í forsetakosningunum árið 2002 en hann tapaði í fyrstu umferð fyrir Chirac og Jean-Marie Le Pen, frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar. Hann sagði í kjölfarið af sér sem forsætisráðherra og lýsti yfir að hann hygðist draga sig úr frönskum stjórnmálum.[2] Ríkisstjórn Jospin var á þessum tíma sú langlífasta í sögu fimmta lýðveldisins.
Jospin varð meðlimur franska stjórnlagaþingsins árið 2015.
Tilvísanir
breyta- ↑ Lionel Jospin, Lionel raconte Jospin, éditions du Seuil, París, janúar 2010.
- ↑ Soirée électorale : élection présidentielle 1er tour, France 3, 21. apríl 2002.
Fyrirrennari: Alain Juppé |
|
Eftirmaður: Jean-Pierre Raffarin |