Gagnauga (vefsíða)

Gagnauga.is var íslenskt vefrit sem var sett á laggirnar á haustdögum árið 2003 og lagði upp laupana árið 2013. Það fjallaði mest um alþjóðastjórnmál á gagnrýninn hátt.

„Róttæka margmiðlunartjaldið“

breyta

Aðdragandinn var sá að hópur fólks fékk leyfi borgaryfirvalda í Reykjavík til þess að setja upp tjald fyrir Menningarnótt sumarið 2003, við suðvesturhorn Tjarnarinnar, þar sem sýndar voru kvikmyndir og dreift fræðsluefni. Dagskráin var fjölbreytt, en flestar myndanna voru gagnrýnar heimildarmyndir um hryðjuverk, bankakerfið, utanríkisstefnu Bandaríkjanna og fleira. Tjaldið fékk að standa fram á haust, en var tekið niður þegar veðrið var orðið of kalt. Sama haust var haldið áfram að sýna sömu myndir, og fleiri. Þær sýningar fóru sumar fram í MÍR-salnum á Vatnsstíg, í Odda, á Nelly's Cafe við Bankastræti og í samstarfi við Fróða, félag sagnfræðinema í Árnagarði.

Vefsíðan opnar — deilur

breyta

Um haustið 2003 opnaði vefsetrið Gagnauga. Þar var einkum lögð áhersla á þrennt: (1) Að birta greinar sem flestar voru skrifaðar af aðstandendum síðunnar, en sumar þýddar; (2) að vísa á fréttir sem aðstandendum þóttu merkilegar en fá ónóga umfjöllun í fjölmiðlum; (3) að kynna kvikmyndasýningar og aðra starfsemi Gagnauga, fyrir utan sjálfa síðuna. Nýjar greinar birtust reglulega fyrstu mánuðina og nýjar fréttir birtust nokkrum sinnum í viku. Snemma árs 2004 birtist þýdd grein, þar sem komu fram efasemdir um að Helförin hefði átt sér stað með þeim hætti sem almennt er álitið. Hún vakti mikla athygli, og voru ekki allir hrifnir. DV birti ritstjórnargrein, þar sem hart var deilt á helfararefasemdir af því tagi sem Gagnauga hafði birt. Stefán Þorgrímsson, einn aðstandenda síðunnar, svaraði ritstjórnargreininni í kjallarapistli.

2004 – 2006

breyta

Þótt helfarargreinin hefði loðað við orðstír síðunnar, hélt hún áfram að birta greinar um fjölmiðla, lýðræði, álitamál varðandi 11. september 2001 og margt fleira. Haustið 2004 áttu margir af aðstandendum Gagnauga, ásamt fleirum, frumkvæði að því að félagsmiðstöðin Snarrót var stofnuð. Hún var fyrst til húsa að Garðastræti 2, en flutti seinna í kjallara Laugavegar 21, þar sem Kaffi Hljómalind var þá til húsa. Í Snarrót hélt Gagnauga fjölda kvikmyndasýninga, þar á meðal nokkrar kvikmyndahátíðir. Þar var einnig komið upp safni bóka, blaða og myndbanda og -diska til afnota og láns fyrir áhugasama. Ennfremur voru keyptar inn bækur og boðnar til sölu.

Fundir og fyrirlestrar

breyta

Gagnauga hélt sjálft, og tók þátt í að halda, allmarga fundi og fyrirlestra. Í því skyni flutti Gagnauga m.a. inn Barrie Zwicker (árið 2005) og Michel Chossudovsky (árið 2006).

Endurkoma Gagnauga

breyta

Gagnauga opnaði aftur í byrjun ágúst 2010 með nokkuð nýjum útfærslum og mannskap.

Sjá einnig

breyta