Bodesafnið
Bodesafnið er nyrst safnanna á safnaeyjunni (Museumsinsel) í miðborg Berlínar og stendur við hliðina á Pergamonsafninu. Í safninu eru til sýnis höggmyndir, málverk, rómversk listaverk og myntsafn. Bodesafnið er á heimsminjaskrá UNESCO.
Saga Bodesafnsins
breytaByggingarsaga
breytaÞað var krónprinsinn Friðrik III, sonur Vilhjálms I keisara, sem átti veg og vanda að byggingu listasafnsins. Hann var listhneigður og réði listfræðinginn Wilhelm von Bode til að annast byggingu þess, en höfuðarkítekt var Ernst von Ihne. Framkvæmdir hófust 1897 og stóðu aðeins í 7 ár. Á meðan var Friðrik III orðinn keisari en dó eftir aðeins 99 daga. Bodesafnið var vígt á fæðingardegi Friðriks, 18. október 1904, og fékk heitið Kaiser-Friedrich-Museum. Byggingin er nyrst á safnaeyjunni í miðborg Berlínar. Nyrsti hluti hússins myndar fagran boga og gengur beint í ána Spree. Þar fyrir ofan er hvolfþak en suðurendir hússins gengur til suðurs og liggur þétt við Pergamonsafnið. Wilhelm von Bode innréttaði listaverkin sjálfur og var fyrsti forstöðumaður hússins.
Eftir stríð
breytaÍ heimstyrjöldinni síðari skemmdist safnið mjög mikið, aðallega þó byggingin sjálf. Viðgerðir eftir stríð gengu hægt og drógust fram á 7. áratuginn. En 1956 var fyrsta álman opnuð á ný. Heiti safnins var breytt og hét eftir þetta Bodesafnið (Bodemuseum). Fyrir utan núverandi listmuni voru egypskir listmunir einnig geymdir þar (til dæmis papírussafnið) þar til Egypska safnið í Berlín var tekið í notkun 1967. Skömmu fyrir aldamótin 2000 voru skemmdir innanhúss orðnar svo miklar að óhjákvæmilegt var að gera bygginguna upp. Það var gert 2000-2005 en safnið var þó ekki opnað fyrir almenningi fyrr en 2006. Alls eru sýningar á 25 þús m² svæði í 66 sýningarsölum.
Sýningar
breytaHöggmyndasafnið
breytaElstu höggmyndir safnsins eru frá miðöldum, en þær yngstu frá 18. öld. Verkin eru aðallega frá Þýskalandi en einnig frá Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og Spáni. Helstu verkin eru myndir eftir Ítalana Luca della Robbia og Donatello. Helsti þýski fulltrúi höggmynda í safninu er Tilman Riemenschneider.
Rómverska safnið
breytaÍ rómverska safninu eru listmunir frá rómverska ríkinu allt frá 3. öld e.Kr. og til falls Austrómverska ríkisins á 15. öld. Munirnir eru frá öllu Miðjarðarhafssvæðinu, en einnig frá Miðausturlöndum og Rússlandi. Helstu munirnir eru steinlíkkistur frá Róm, fílabeinslistaverk og mósaík-helgimyndir frá Býsans og helgimunir frá Egyptalandi.
Myntsafnið
breytaMyntsafnið í Bodesafninu er eitt hið stærsta sinnar tegundar í heimi. Munirnir eru allt frá tímum fyrstu myntpeninga til líðandi stundar. Rúmlega hálf milljón myntir eru í safninu en aðeins er hægt að sýna lítið brot af þeim, eða 1.500 stykki. Almenningi gefst þó kostur á að fá að sjá önnur stykki þegar sótt er um það fyrirfram. 1868 var myntsafnið eigið safn, en var sett í neðri hæðir Bodesafnsins 1904.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Bodemuseum“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt desember 2009.