Þróunarkenning Darwins
Þróunarkenning Darwins er kenning í líffræði um uppruna og þróun tegunda. Hún var fyrst sett fram í bókinni Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin sem kom út árið 1859.
Samkvæmt þróunarkenningu Darwins koma allar lífverur af sama stofni en vegna náttúruvals hafa þær þróast í mismunandi tegundir og lífverur. Charles Darwin benti á að maðurinn væri náskyldur dýrum og þess vegna væri hægt að skýra hátterni hans á sama veg og hægt er að útskýra hátterni dýra. Það er oft kallað lögmálið um líffræðilega samfellu. Lögmálið um líffræðilega samfellu nær einnig til sálfræðilegra eiginleika sem sést á tilraunum Darwins til að bera saman tilfinningar manna og dýra. Þær komu fram í riti hans On the expression of emotions in man and animals.
Náttúruval
breytaÍ þróunarkenningu Darwins kom fram kenning hans um náttúruval. Þar lagði hann áherslu á að einstaklingar sömu tegundar væru frá náttúrunnar hendi misjafnlega í stakk búnir til þess að takast á við umhverfið. Þess vegna verða alltaf sumir undir í lífsbaráttunni og hinir hæfustu lifa af. Einstaklingar með eiginleika sem auka líkur á því að þeir komist af eru sem sagt líklegri til að eignast fleiri afkvæmi. Þannig verða þessir hagstæðu eiginleikar smám saman meira áberandi hjá tegundinni í heild.
Saga
breytaCharles Robert Darwin fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury, Englandi. Hann er ætíð kenndur við náttúrufræði, en þekktastur er hann fyrir kenningu um þróun lífs á jörðu, sem á Íslandi er ávallt kölluð þróunarkenningin, en einnig er hún kölluð darwinismi.
Hann gaf út bókina Uppruni tegundanna árið 1859 þar sem hann reyndi að sanna að allt líf á jörðinni ætti sameiginlegan uppruna. Árið 1871 gaf hann út bókina Hvernig maðurinn kom til en hún fjallaði um hugmyndir hans um uppruna mannsins. Darwin sannaði að allar lífverur á jörðinni eru komnar af sömu forfeðrum og hafa þróast á löngum tíma jarðsögunnar til að falla sífellt betur inn í ríkjandi umhverfi. Á árunum 1831 til 36 fór Darwin í siglingu um Kyrrahafið, til að kanna strönd Suður Ameríku og nokkrar Kyrrahafseyjar. Hann hélt nákvæma skrá um lífverur sem urðu á vegi hans og birti niðurstöður sínar árið 1859 í ritinu On the Origin of Species by Means of Natural Selection or The Preservation of Favoured Races in The Struggle for Life. Þar setur Darwin fram þróunarkenninguna og hugmyndir sínar um náttúruval.
Þróunarkenning Darwins olli miklu uppnámi, einkum meðal kirkjunnar manna, því að hún stangaðist á við hugmyndir þeirra um sköpunarsögu Biblíunnar. Kenningar Darwins hafa þó staðið að mestu óhaggaðar og hafa styrkst með síðari tíma rannsóknum.
Byltingin sem þróunarkenning Darwins olli er ein sú frægasta sem um getur í vísindasögunni. Kenning hans hefur vakið upp svo mikinn fjölda skrifa og málaferla að það er engu líkt. Eitt frægasta dæmið um það eru Aparéttarhöldin sem haldin voru í Tennessee í Bandaríkjunum árið 1925 gegn kennaranum John T. Scopes. Hann var ákærður og dæmdur fyrir að kenna þróunarkenningu Darwins í trássi við lög ríkisins. Áþekkur dómur féll í Arkansas 1965. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað, m.a. 1968 og 1975, að lög sem banna kennurum að fræða nemendur um þróunarkenninguna séu andstæð stjórnarskránni.
Nú á dögum er þróunarkenning Darwins almennt viðurkennd sem sagnfræðileg og líffræðileg staðreynd. Hugmyndir hans hafa verið þróaðar áfram með frekari rannsóknum í erfðafræði og lífefnafræði og eru ómissandi þáttur í lífvísindum okkar daga.
Heimildir og ítarefni
breyta- Coyne, J.A. og H.A. Orr, Speciation (Sunderland: Sinauer Associates, 2004).
- Coyne, Jerry A., Why Evolution is True (New York: Viking, 2009).
- Dawkins, Richard, Climbing Mount Improbable (New York: W.W. Norton & Company, 1996).
- Dawkins, Richard, River Out of Eden (New York: Basic Books, 1995).
- Dawkins, Richard, The Ancestor's Tale (Boston: Haughton Mifflin, 2004).
- Dawkins, Richard, The Blind Watchmaker (Oxford: Oxford University Press, 1986).
- Dawkins, Richard, The Extended Phenotype (Oxford: Oxford University Press, 1982).
- Dawkins, Richard, The Selfish Gene (Oxford: Oxford University Press, 1976).
- Futuyma, D.J., Evolution (Sunderland: Sinauer Associates, 2005).
- Gould, S.J., The Structure of Evolutionary Theory (Cambridge, MA: Belknap Press (Harvard University Press), 2002).
- Larson, E.J., Evolution: The Remarkable History of a Scientific Theory (New York: Modern Library, 2004).
- Maynard Smith, J., The Theory of Evolution (Cambridge: Cambridge University Press, 1993).
- Mayr, E., What Evolution Is (New York: Basic Books, 2001).* Pallen, M.J., The Rough Guide to Evolution (2009).
- Smith, C.B. og C. Sullivan, The Top 10 Myths about Evolution (Prometheus Books, 2007).
- Zimmer, C., Evolution: The Triumph of an Idea (London: HarperCollins, 2001).
Tengt efni
breyta- Vithönnun (ID)
Tenglar
breyta- „Hvernig urðu litlu frumurnar í sjónum að mönnum og dýrum?“. Vísindavefurinn.
- „Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig sýndi Darwin fram á þróunarkenninguna?“. Vísindavefurinn.
- „Hvaða máli skipti þróunarkenning Darwins fyrir þróun sálfræðinnar?“. Vísindavefurinn.]