
Elsku stóri bróðir. Takk fyrir samfylgdina. Þegar við kvöddum Stebba bróður fyrir rúmu ári datt manni ekki í hug að þú færir næstur. Maður er svosem ekki mikið að spá í það dags daglega að öll erum við feig og öll þegar komin hálfa leið í gröfina, þannig séð, a.m.k. miðað við jarðfræðilegan tíma og aldur stjarnanna! Svona er þetta og hefur alltaf verið. Við mætum á svæðið án þess að hafa beðið sérstaklega um það og er svo kippt jafnharðann út. En alltaf er það jafn sorglegt og ósanngjarnt, finnst manni.
Ég átti tvo eldri bræður, sem nú eru báðir farnir. Þeir hefðu varla getað verið ólíkari. Stebbi, sá eldri, var eðal nörd og alltaf með nefið ofan í bók eða blaði. Ási, sem við kveðjum í dag, var töffari, kvikur og hress, glettinn og áræðinn. Þeir fæddust ungum foreldrum okkar 1948 og 1949. Þau bjuggu í Mosfellssveit, höfðu kynnst sem vistmenn á berklahælinu á Reykjalundi. Stebbi gekk menntaveginn, en Ási var handlaginn og minna á bókina. Fjölskyldan flutti í Kópavog 1961 en þá höfðu Dagný og Oddný bæst í hópinn. Ég örverpið kom ekki fyrr en 1965.
Í veislum löngu síðar voru sagðar sögur og gamall tími rifjaður upp. Ási var sendur í sveit þegar hann var smábarn og látinn strita hjá ókunnugum, en Stebbi hafður í bómul. Ása mislíkaði vitanlega þessi aðstöðumunur. Hann var farinn á sjó rétt eftir fermingu og útskrifaðist úr Gagnfræðaskóla Kópavogs 1964. Pabbi okkar húsasmíðameistarinn vildi hafa vit fyrir Ása og hvatti hann til að fylgja í fótspor hans og læra í Iðnskólanum. Ási hafði aðrar hugmyndir. Um þessar mundir auglýsti ástralska ríkisstjórnin eftir vinnufúsum höndum frá Evrópu og var tilbúin að borga ferðina aðra leið. Ævintýraþráin gerði vart við sig og Ási og vinur hans úr Kópavoginum, Bjarki Berndsen, létu slag standa. Þegar ljóst var að ekki væri hægt að snúa þessari ákvörðun á pabbi að hafa sagt, „Jæja, þú getur þá bara farið til helvítis mín vegna.“ Var hent gaman af þessu í veislum seinna meir.
Þann 11. ágúst 1968 lögðu þeir í hann. Kunnu enga ensku nema Yes og No en voru fljótir að læra. Fengu vinnu í bjórverksmiðju í Sydney og keyrði út Fosters. Lifðu ævintýralegu piparsveinalífi, sem ættingjar á Íslandi fengu fegraðar lýsingar af í bréfum. Ég man eftir myndunum í fornum myndaalbúmum. Þeir eitthvað að djóka með grín svip; haldandi á klaka (það kom fyrir að það snjóaði í Ástralíu); Ási dansandi við einhverja dömu, sem hafði verið klippt út af myndinni til að mamma yrði ekki foj. Frá Sydney lá leiðin til Port Albert þar sem þeir unnu á hákarlabáti í eigu Íslendings sem þeir höfðu kynnst. Heimþráin rak þá þó heim í árslok 1970 eftir tveggja ára dvöl. Þá voru þeir rúmlega tvítugir. Ási kom heim með risastóran tanngarð úr hákarli og fylgdi sögunni að hann hefði drepið hann með vasahníf. Hann var sólbakaður og veraldarvanur ævintýramaður og bæði Ríkisútvarpið og Þjóðviljinn tóku viðtal við þá Bjarka. Þar lofuðu þeir góssenlandið Ástralíu í hásterti og voru á því að fara aftur til baka sem fyrst, eða jafnvel til Suður-Afríku, þar sem álíka ævintýri buðust.
Ég varð heillaður af Ástralíu-ævintýrinu og er enn í dag forfallinn aðdáandi Eyjaálfu. Ási kom með allskonar góss með sér, fyrir utan hákarkakjaftinn til dæmis brúna ópal-steina í litlu glasi. Ég fann einmitt samskonar steina í moldarbing fyrir utan Álfhólsveginn og þá var Ási í eina skiptið smá reiður við mig fyrir að stela steinunum og þykjast hafa fundið þá í moldinni. En ég sver það, ég fann þá í moldinni!
Ekki varð af frekari ævintýrum Ása í fjarlægum löndum. Hann kynntist Guðrúnu, þau giftu sig 1973 og hófu búskap í Kópavogi. Ási átti gott líf, eignaðist þrjú börn og barnabörn. Hann var mikill fjölskyldumaður og þótti gaman að bjóða til veislu og sinna sínum. Var listakokkur og kunni þá list vel að hafa ofan af fyrir gestunum. Stundum töluðum við bræðurnir um að fara saman til Ástralíu en ekkert varð af því enda ástralska ríkisstjórnin löngu hætt að borga flugið aðra leið. Við fórum þó tvær frábærar ferðir með pabba okkar, sem þá var kominn langt að níræðu, um æskuslóðir hans í Skagafirði. Þar fundum við ræturnar og nutum þess að fylgjast með pabba okkar á útopnu rifja upp gamla tíð og fara með vísur, bæði frumsamdar og eftir skagfirskar kempur.
Bæði pabbi og Ási unnu í Selko, verkstæði sem smíðaði hurðir í Auðbrekku. Draumur pabba var að vera sinn eigin herra og það rættist þegar hann keypti reksturinn á Tempó innrömmun 1978. Ási tók við Tempó þegar pabbi hætti vegna aldurs og stóð pliktina í Hamraborg. Það var alltaf brjálað að gera, enda Ási vandvirkur og sanngjarn í verðlagningu. Alveg eins og pabbi. Þegar Ási fór í sumarfrí í sumar grunaði engan að það sumarfrí mynda vara að eilífu.
Kæri frábæri bróðir minn. Þín verður sárt saknað. Bið að heilsa öllum í Sumarlandinu. Sjáumst!
Gunnar Lárus Hjálmarsson

































